Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 14:00:17 (3086)

2003-01-28 14:00:17# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þm. sagði í lokin er að sjálfsögðu ekki svaravert. Ég hef aldrei fundið að því að Íslendingar hefðu aðra skoðun en ég í þessu máli. Ég held hins vegar fram minni skoðun, rökstyð hana og skammast mín ekki fyrir hana, er reyndar mjög stolt af því að vera komin með þetta mál eins langt og raun ber vitni.

Hvað varðar umhverfisþátt málsins og strompana sem hv. þm. nefndi er það ekki mitt mál að kveða upp úr um það. Skipulagsstofnun hefur gert það --- hv. þm. vill virða þá stofnun eftir því sem ég best veit --- og hefur komist að þeirri niðurstöðu að þær breytingar sem verða á framkvæmdinni með tilkomu Alcoa í stað Reyðaráls séu ekki slíkar að þær krefjist nýs mats á umhverfisáhrifum. Það tel ég mikilvægt. Hins vegar hefur sá úrskurður verið kærður eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Það er verkefni hæstv. umhvrh. að fjalla um þann þátt mála og ég veit að það er skammur tími sem hún hefur til þess að ná niðurstöðu. Ég tel ekki ástæðu til að fresta málinu út af einhverjum kærum sem einhvers staðar eru í gangi vegna þess að Alþingi Íslendinga mun fjalla um málið á næstu vikum og þá gefst tími til að fjalla um þá niðurstöðu sem hæstv. umhvrh. mun komast að síðar.