Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 15:25:02 (3183)

2003-01-29 15:25:02# 128. lþ. 68.2 fundur 53. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en vil aðeins leggja orð í belg. Hér er til umræðu frv. sem gengur út á það að sökkva skipum sem liggja bundin verkefnalaus. Ég tel þetta frv. og þá hugmyndafræði sem þar er á bak við allrar athygli verða og mjög vert að skoða nákvæmlega.

Eins og fram hefur komið í umræðunni er um að ræða 158 skip sem liggja verkefnalaus af ýmsum ástæðum, sum sjálfsagt vegna elli og önnur vegna þess að þau hafa ekki aflaheimildir. Ég ætla ekki að fara út í enn eina langa umræðuna um fiskveiðistjórnarkerfið, svo margar sem þær hafa verið hér, en markaður fyrir slík skip er sannarlega ekki mikill í nágrannalöndum, m.a. vegna þess að aflaheimildir þar eru takmarkaðar og ástand fiskstofna eins og þekkt er af langri og mikilli umræðu. Þá hlýtur grundvallarspurningin að vera sú, hvað eigi að gera við skipin, markaður er lítill, erfitt að selja þau og þá blasir við sú leið að farga skipunum. Eins og fram hefur komið er það dýr aðgerð og jafnvel spurning um umhverfisatriði varðandi hana.

Mér finnst sú hugmynd sem hér er reifuð með frv. að sökkva þeim vera allrar athygli verð en að sjálfsögðu, eins og fram kemur í góðri greinargerð, þarf að fara afskaplega varlega þar hvað snertir umhverfið. Auðvitað þarf fyrst og fremst að fjarlægja verðmæti sem eru nýtanleg úr skipunum en síðan og ekki síst öll mengandi efni sem kunna að valda umhverfisspjöllum ef skipum er sökkt, enda er gert ráð fyrir því samkvæmt frv. eins og fram kemur í ítarlegri greinargerð.

En einnig er vert að benda á aðra umhverfisþætti í þessu, að skip sem liggja og ryðga niður við bryggju eru ákveðin umhverfislýti og það eru líka ákveðin umhverfisspjöll sem hljótast beinlínis af endurvinnslu. Þess vegna held ég að það megi leysa þennan þátt, efnahagslega þáttinn og umhverfisþáttinn með því að sökkva skipunum ef varlega er farið.

Með því að sökkva skipunum er ekki eingöngu verið að gera það í einhverju tilgangsleysi heldur hugsanlega að endurheimta og endurvekja horfin fiskimið á grunnslóð. Vitað er og þekkt að þar sem kórallar eru, þar myndast lóðréttir hafstraumar og þangað sækir fiskur og þar með skapast fiskimið. Það hefur með öðrum orðum áhrif á fiskgengd. Þetta tengist auðvitað þeirri umræðu sem fram hefur farið um það hvernig fornar fiskislóðir hafa verið eyðilagðar með öflugum veiðarfærum og kórallar verið sléttaðir út og fiskimið þar með horfið. Hér getur verið leið til þess að endurheimta slík gleymd fiskimið.

Ég tel að þetta sé athyglisvert og það eigi að skoða þetta mál vandlega og a.m.k. að gera tilraun með þetta til að sjá hvort sú sýn sem kynnt er í greinargerð með frv. mun ekki nást fram að ganga. Ég styð þess vegna hugmyndina, ekki síst út frá umhverfissjónarmiðum og þeirri hugmyndafræði að endurvekja gamlar fiskislóðir og veitir sannarlega ekki af, ekki síst á grunnslóð. Það er vert að vekja athygli á því, herra forseti, að sambærilega leið hafa Japanar t.d. farið, bæði með fiskiskip og ekki síður með einhverja steypuhlunka sem þeir hafa skellt á grunnslóð og þar með hreinlega búið til fiskimið. Út á það gengur þessi hugmyndafræði og því eðlilegt að spyrja hvort það mundi ekki ganga hér eins og hjá Japönum.

Hins vegar varðandi ummæli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um að vísa málinu til ríkisstjórnar þá ég held að það sé einmitt mikilvægt að Alþingi móti stefnu sína og þess vegna styð ég það að frv. verði vísað til hv. umhvn. og að þingið taki beinlínis afstöðu til þess með því að samþykkja frv. og ég fagna því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skuli hafa haft frumkvæði að því að flytja þetta mál hér.