2003-01-29 15:56:26# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:56]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá síðasta ræðumanni að þetta er eitt nýjasta og stórbrotnasta birtingarform sérhagsmuna og græðgi í samfélaginu. En menn gera ekki þessa starfslokasamninga við sjálfa sig. Það eru ófáir svona samningar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa verið að gera á undanförnum missirum þannig að það dugar ekki fyrir hv. þm. Hjálmar Árnason að vísa þessu vandamáli bara út í bæ eins og það sé ríkisstjórninni og Framsfl. gjörsamlega óviðkomandi. Maður, líttu þér nær.

Nei, það má segja, herra forseti, að kominn sé í landið nýr kúltúr, nýir siðir ef siði skyldi kalla. Það eru komnir til sögunnar ofurforstjórar að erlendri fyrirmynd sem taka sér 2--2,5 millj. í mánaðarlaun hið minnsta, svona tuttuguföld laun lægstlaunuðu starfsmanna viðkomandi fyrirtækja. En það dugar ekki að vera á þessum launum árum og áratugum saman. Nei, þegar höfðingjarnir hætta duga þeim ekki venjuleg eftirlaun, heldur skulu gerðir sérstakir samningar við þá um að þeir haldi helst öllum sínum fríðindum og kjörum um árabil. Og marga af þessum samningum hafa ráðherrar í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar gert á undanförnum missirum þannig að ekki dugar hjá ríkisstjórninni að líta á þetta sem eitthvert siðferðilegt vandamál úti í bæ og segja að það þurfi að ala þjóðina upp á nýtt í þessum efnum. Fámenn klíka ofurforstjóra og pólitíkusa hefur stýrt þessari þróun undanfarin missiri. Forstjóri Símans er með samning upp á 35--40 millj. Forstjóri Byggðastofnunar eftir örfáa mánuði í embætti fær óskert laun í tvö ár upp á 15 millj. Og svo er þessi dæmalausi starfslokasamningur, ef marka má fréttir, forstjóra VÍS sem vék úr embætti til að rýma fyrir fyrrverandi varformanni Framsfl. þannig að helmingaskiptin gagnvart bönkunum gengju upp. Var það ekki þannig sem þetta gerðist, hæstv. ráðherra? Jú. Þetta er ekki bara spurning um upplýsingaskyldu til Kauphallarinnar þó að hún sé sjálfsögð. Við skulum ræða hinn siðferðilega grundvöll þessara gerninga. Við skulum ekki taka honum þegjandi.