Nýting innlends trjáviðar

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 14:02:59 (3767)

2003-02-12 14:02:59# 128. lþ. 78.15 fundur 154. mál: #A nýting innlends trjáviðar# þál., Flm. ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góðar undirtektir í þessu máli. Það er hárrétt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði, að við getum rætt um málin út frá ýmsum sjónarmiðum. Ég þykist sjálfur vera heilmikill umhverfissinni þó að á köflum sé heitt í kolunum í þinginu. Af því að fjallagrösin komu hér aðeins til tals þá dáist ég auðvitað að því fólki sem nýtir þau. Eins og ég hef reyndar áður sagt getum við ekki lifað á þeim einum en þetta er allt gott hvað með öðru.

Ég er þakklátur hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir að benda á nokkuð merkilegt sem vantaði kannski í þessa tillögu mína og það er að auðvitað er sjálfsagt að nýta rekaviðinn enn betur en við gerum því að þar er vissulega um auðlind að ræða sem við nýtum ekki sem skyldi þó að ég viti að t.d. á Ströndum er rekaviðurinn nýttur, m.a. til upphitunar og margir hafa nýtt rekavið til byggingarframkvæmda og þess háttar. Heilu húsin hafa verið byggð úr rekaviði. Auðvitað er mjög nauðsynlegt að nýta afurðirnar sem best.

Við höfum stundum líka sagt í hálfkæringi í þinginu að við verðum að gera eitthvað annað, eins og frægt er orðið, en þetta er einmitt einn þáttur í því þar sem við getum svo sannarlega gert eitthvað annað, þar sem við höfum afurðir og verðmæti sem við þurfum að nýta betur en við gerum. Það kom einmitt mjög vel fram í ræðum hv. þm. Þuríðar Backman og Magnúsar Stefánssonar. Ákveðnar hefðir eru að myndast hjá skógarbændum. Þeir eru með mjög öflug samtök þar sem þeir velta fyrir sér hvernig hægt er að nýta skóginn. Þeir halda einmitt fund í lok þessa mánaðar á Kirkjubæjarklaustri þar sem þeir ætla að ræða þessi mál á breiðum grundvelli.

Þess eru líka dæmi að verið er að skapa mikið af listmunum úr íslenskum viði. Á Víkingaeyjunni á Höfn í Hornafirði eru t.d. mjög margir fallegir gripir smíðaðir úr viði. Einnig hef ég séð marga mjög merkilega og fallega muni sem unnir hafa verið í Miðhúsum á Austur-Héraði. Á sama hátt má nefna dæmi frá Villingaholtshreppi þar sem listakonan Sigríður Kristjánsdóttir á Grund hefur búið til mjög marga glæsilega muni úr íslenskum viði og bókin sem ég ég minntist á í ræðu minni áðan er í raun ákveðinn þáttur í því að nýta trjáviðinn sem best. Við getum fengið þar mjög margar skemmtilegar hugmyndir.

Skógrækt er bæði gömul og ný búgrein á Íslandi, en sagan segir að hér hafi verið skógur milli fjalls og fjöru þegar landámsmennirnir komu hingað forðum daga. Elstu tré á Íslandi eru orðin yfir 100 ára gömul þannig að efniviðurinn er svo sannarlega fyrir hendi. Nú er svo komið að landshlutarnir eru jafnvel farnir að keppa um hverjir eigi hæstu trén. Þannig hafa verið mæld á hverju ári tré í Múlakoti í Fljótshlíð annars vegar og svo tré á Héraði hins vegar og það hefur verið svolítið mismunandi hvorir hafa haft vinninginn.

Ég fagna þessari umræðu og þeim góðu móttökum sem þessi þáltill. hefur fengið og vænti þess að hæstv. landbrh. skoði hana ofan í kjölinn og tillagan verði afgreidd héðan úr þinginu þannig að við getum unnið áframhaldandi í þessa veru.