Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:52:28 (3788)

2003-02-12 15:52:28# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið skýrt fram hjá þeim sem hafa talað fyrir hönd Samfylkingarinnar að hún fagnar þessum aðgerðum og telur mikilvægt að gripið sé til tiltekinna aðgerða á þessum tímapunkti. Það velkist hins vegar örlítið fyrir okkur vegna þess að þegar við fórum að skoða málið þá er ljóst að mjög erfitt verður að ráðast í nokkrar framkvæmdir fyrr en eftir sex til tólf mánuði í fyrsta lagi. Þegar við höfðum samband við Vegagerðina kom fram að svo mikill undirbúningur er eftir í mörgum framkvæmdum að ólíklegt er að hægt verði að hefjast handa að nokkru marki fyrr en eftir þann tíma.

Í öðru lagi hefði ég viljað nefna það líka að kannski er ótti okkar í þessu örlítið í því fólginn að við óttumst að Seðlabankinn muni ekki sýna af sér nægan vilja til þess að lækka vexti. Raunvextir hér á landi eru mjög háir og má nefna í því samhengi að skuldir heimilanna eru u.þ.b. 95% af landsframleiðslu, þannig að það sér hver maður hversu miklu skiptir að það náist að lækka vexti.

Mér kom líka á óvart sá leiði sem birtist hjá hæstv. utanrrh. út í það hversu menn hafa tekið þessu vel almennt að hann fann sér tilefni til þess að finna að Samfylkingunni og það er kannski dálítið sérstakt, því hæstv. ráðherra tók nýverið þá ákvörðun að flytja sig af landsbyggðinni og upp í Breiðholt og bjóða sig fram í Reykjavík. Þess vegna fannst mér skrýtið að hæstv. ráðherra skyldi vera að nefna það sjálfur sérstaklega í þessari umræðu að einhver væri að reyna að mynda skörð eða skipa fólki í tvær fylkingar eftir því hvort það byggi á landsbyggðinni eða í höfuðborginni. Þetta kom mér verulega á óvart, virðulegi forseti.

En það breytir ekki hinu að það er líka mikilvægt í þessu samhengi að menn fái upplýsingar um hversu mörg störf verða til vegna þessara aðgerða, því atvinnuleysið hefur ekki verið jafnmikið í mörg ár og rakið hefur verið í umræðunni.