Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 15:44:57 (4490)

2003-03-06 15:44:57# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[15:44]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var nú ekki að gagnrýna hæstv. iðnrh. vegna þessa dráttar. Ég tel reyndar að hún hafi ekki tekið það þannig. Ég er sammála því að það þurfti að kanna þarna ýmsa þætti málsins. Mönnum þótti sumum sem málið lægi dálítið lengi í ráðuneytinu. Auðvitað var það m.a. vegna þess að menn voru að kanna þessa ýmsu þætti.

En það sem ég var að leggja áherslu á hér var --- ekki bara vegna þessa máls heldur almennt vegna virkjana- og veitumála okkar --- að við höfum búið til of flókið og langt ferli, þ.e. rannsóknaleyfi, mat á umhverfisáhrifum, skipulagsmál, aðalskipulag, deiliskipulag, framkvæmdaleyfi, breytingar á friðlýstum svæðum, kærufrestur á öllum stigum málsins. Það er hægt að tefja mál svo árum skiptir. Ég er ekki viss um ef þarna hefði nýr aðili ætlað að byggja verksmiðju að hann hefði haft úthald til að bíða. En af því að verksmiðjan er þarna fyrir og gengur vel þá er hún tilbúin í þessa stækkun þrátt fyrir allar þessar tafir.

Ég endurtek svo bara það sem ég sagði áðan að einstaka hæstv. ráðherrar greiddu heldur ekki fyrir þessu máli með allt of stórum yfirlýsingum. En sem betur fer er málið að komast í höfn. Ég veit að bæði hæstv. iðnrh. og sá sem hér stendur verðum ánægð þegar framkvæmdir hefjast við þessa stækkun.