Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:18:02 (4497)

2003-03-06 16:18:02# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:18]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu hefur stórfyrirtæki eins og það sem við fjöllum hér um áhrif á atvinnulíf í sínu nánasta umhverfi, að sjálfsögðu.

Varðandi skattamálin greinir okkur á, Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð og ríkisstjórnarflokkana, Framsfl. og Sjálfstfl. Þeir leggja áherslu á að lækka skatta á fyrirtæki sem skila hagnaði en halda háum sköttum á lágtekjufólki. Þetta er skattastefna ríkisstjórnarinnar. Við viljum aðra skattastefnu. Við hefðum viljað létta skattbyrði af lágtekjufólki, elli- og örorkulífeyrisþegum og þeim sem eru með lægstu launin. Það er hins vegar sá hópur sem þessi ríkisstjórn velur að skattleggja. Við erum andvíg þessari skattastefnu og viljum snúa henni við, við viljum að skattbyrði sé létt af þessu fólki en að fyrirtæki sem skila hagnaði séu látin borga tekjuskattana sína. Þar bara greinir okkur á í skattastefnu.

Hv. þm. getur kannski upplýst hér í þessari umræðu hvernig er með skattinn af arðinum hjá t.d. álverksmiðjunni í Straumsvík. Hvaða reglur gilda um skattgreiðslur af arði? Eru það hliðstæðar reglur og gilda um skattgreiðslur af öðrum arði í landinu? Eru þær þó ekki miklar. Ég held að það verði að horfa á þetta svolítið í samhengi, bæði tekjuskattsgreiðslur og skattgreiðslur af arði.

Hvað segði hv. þm., af því að við erum að ræða um þetta, ef ferðaþjónustan úti um hinar dreifðu byggðir fengi tilsvarandi stofnstyrk eins og álverksmiðjurnar eru núna að fá, og skattaívilnanir? Hvaða innspýting gæti það ekki orðið fyrir ferðaþjónustuna í landinu ef jafnræðis væri gætt þar, og þó að ferðaþjónustan ein væri bara tekin út og hún nyti þessara gríðarlegu stofnstyrkja og skattfríðinda sem ríkið veitir þessum verksmiðjum?