Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 16:59:19 (4508)

2003-03-06 16:59:19# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[16:59]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg til í að lalla með hv. þingmanni um skálana í verksmiðjunni á Grundartanga og ég efast ekkert um að það gæti orðið fróðlegt og skemmtilegt að hitta það fólk sem þar starfar. Ekki ætla ég að hafna því að koma þangað og heimsækja fólkið.

Hins vegar verð ég að halda því til haga, herra forseti, að með því að setja álframleiðsluna svona framarlega í röðina hvað varðar atvinnuuppbyggingu á Íslandi hef ég haldið því fram að við séum að fórna hagsmunum annars konar atvinnuuppbyggingar, þ.e. atvinnuuppbyggingar sem byggir á því að þetta land bjóði upp á hreina náttúru. Sérstaðan hefur falist í því að við erum að bjóða ferðamönnum að skoða náttúruperlu í Norðurhöfum, ferðamönnum sem koma frá Evrópulöndum þar sem búið er að nýta nánast hvern fersentimetra af löndum þjóðanna, frá löndum sem eru í raun og veru búin að vera að koma þungaiðnaði út fyrir landamæri sín. Við vitum, herra forseti, að þungaiðnaði hefur verið skóflað í stórum stíl út úr Evrópu og til þróunarríkjanna, til þriðja heims ríkja, vegna þess að menn vilja ekki hafa álbræðslur eða þungaiðnað við bæjardyrnar sínar. (Gripið fram í.) Ef við erum að markaðssetja okkur sem hreina náttúruparadís í Norðurhöfum skýtur auðvitað skökku við, herra forseti, þegar við bjóðum síðan ferðamönnunum okkar upp á það að keyra frá Keflavíkurflugvelli í gegnum hraunið --- mönnum finnst eins og þeir séu komnir til tunglsins þegar þeir keyra í gegnum hraunið (Gripið fram í: Suðurstrandarveginn.) --- og það endar á því eftir u.þ.b. hálftímaakstur að við sýnum þeim álverksmiðju. Það má segja að það sé fyrsta mannvirkið sem ferðamennirnir okkar sjá þegar þeir koma til landsins. Svo ætlum við með þá út fyrir bæinn og sýna þeim landið, keyrum sem leið liggur í gegnum Hvalfjarðargöngin og norður í land og þá blasa við okkur tvær verksmiðjur á Grundartanga, álverksmiðja og járnblendið. Þessir ferðamenn vita náttúrlega ekki hvaðan á þá stendur veðrið, þeir halda að þeir hafi lent á vitlausum stað.