Útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 17:14:39 (310)

2002-10-07 17:14:39# 128. lþ. 5.7 fundur 6. mál: #A útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[17:14]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er rædd tillaga til þingsályktunar um útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl sem ég er meðflutningsmaður að og tel hið merkasta mál, einkum í ljósi þeirrar öru þróunar og verðlagsbreytinga sem hv. frsm. kom hér inn á, þ.e. hve mikil breyting hafi orðið á kostnaðarþætti þessa máls.

[17:15]

Af því að hv. þm. Guðjón Guðmundsson kom inn á visst mál sem kom fram í svari frá útvarpinu varðandi mastrið á Gufuskálum er rétt að minna aðeins á það. Það var á þeim tíma þegar radarstöðvar voru reistar á Gunnólfsvíkurfjalli og Bolafjalli. Þá höfðu menn það í huga að þaðan væri væntanlega hægt að senda útvarps- eða sjónvarpsdagskrá á miðin sem mundi þó skammt duga, eins og fram kom í framsöguræðu hv. 1. flm.

Hann kom líka inn á það að væntanlega væri búnaður um borð í t.d. hverju kaupskipi, og sagði að kostnaður væri þar rúm milljón. En ég vildi aðeins upplýsa það að svo hröð er þróunin í þessu máli að Alþjóðaflutningaverkamannasambandið hefur unnið að því ásamt öðrum aðilum að þróa búnað sem yrði notaður um borð í skipum, einkum þá sem snýr að tölvutækninni, og hann byggist á því að skipverjar á kaupskipunum geti ástundað nám, fjarnám, og jafnframt yrði mjög auðvelt að ná sambandi við fjölskylduna. Fyrst þegar lagt var af stað með þetta, fyrir líklegum einum fjórum árum, var talað um að hver mínúta í notkun á þessum hugbúnaði mundi kosta 7--8 dollara en nú eru nýjustu tölur um að mínútan muni kosta um 2 bandaríkjadollara þannig að við sjáum hve geysilega ör þróunin er í þessu. Það sem hins vegar hefur valdið mönnum mestum töfum í þessum búnaði eru einmitt, eins og komið var hér inn á áðan, móttökutæki um borð í þessum skipum sem enn þá eru nokkuð viðkvæm fyrir hreyfingu skipsins, þ.e. að sending til skipsins skilar sér ekki eins og best verður á kosið ef skipið er í miklum sjógangi. Hins vegar eru þeir að ná tökum á þeirri tækni þannig að þess verður ekki langt að bíða að það vandamál verði leyst. En ég bendi hér á, eins og kom fram hjá framsögumanni, að þrátt fyrir geysilega lækkun á þessum búnaði frá því að þessu máli var fyrst hreyft hleypur kostnaðurinn á hundruðum milljóna.

Það er dálítið athyglisvert líka að hafa fylgst með því að kristileg stöð hér á Íslandi er nú farin að senda út héðan til Norðurlandanna og víðar í Evrópu þannig að það segir sig sjálft að þessi tækni er sem sagt hér við bæjardyr okkar og kostnaður allur með ólíkindum orðinn miðað við það sem áður var.

Vissulega verður því hægt að nota þennan búnað. Ég efast ekki um það, eins og hv. menntmrh. kom hér inn á áðan, að þetta er búnaður sem þarft er að skoða. Þegar eru orðin dæmi um það úr byggðarlagi hans að sjómenn á togurum norðan lands eru komnir í fjarnám. Auðvelt verður að fá upplýsingar frá Alþjóðaflutningaverkamannasambandinu um hvernig til hefur tekist.

Ég veit að hugbúnaðarfyrirtæki í Reykjavík var í samstarfi við Eimskipafélag Íslands um þróun þessa búnaðar en veit ekki hvernig framvinda máls er. En eins og ég hef vitnað hér til er hafsjór af upplýsingum hjá Alþjóðaflutningaverkamannasambandinu um þetta mál og ábyggilega um tæknibúnaðinn. Mér sýnist því ekki langt í að Íslendingar allir og sjómenn sem á miðum eru muni njóta sjónvarps og útvarps í enn betra og ríkara mæli en nú er. Það mun þá líka gefa sjómönnum tækifæri til þess að stunda ódýrara fjarnám en nú hefur verið. Ég á von á því að þessi ágæta þáltill. fái skjóta meðferð og afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi.