Staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:54:18 (675)

2002-10-17 12:54:18# 128. lþ. 13.95 fundur 180#B staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:54]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Við ræðum löggæslumál í hinu nýja Suðurkjördæmi frá Keflavík til Hafnar í Hornafirði. Ég vil byrja á því að fagna þeim upplýsingum sem komu fram hjá hæstv. dómsmrh. um nýja stöðu lögreglumanns frá og með næstu áramótum á Hvolsvelli. Mér finnst hér hafa verið farið vítt og breitt yfir málið og margar rangfærslur hafa verið hafðar hér frammi. (Gripið fram í: Dæmi.)

Árið 2000 var bætt við fíkniefnalögreglumanni á Selfossi sem hefur unnið ómetanlegt starf. Ég vil minna á fíkniefnaleitarhundinn í Vestmannaeyjum þar sem líka hefur verið unnið mjög mikið starf. Fé hefur verið veitt fyrir nýja stöðu í Vík. Árið 2001 var veitt fé til að ráða nýjan lögreglumann á Höfn í Hornafirði og í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til þess að efla löggæslu við Kirkjubæjarklaustur. Síðast en ekki síst eru á aukafjárlögum 50 millj. til embættisins á Selfossi. Þessi atriði sýna að það er unnið markvisst að því að efla löggæslu á því svæði sem við erum að ræða um hér í dag. Verkin tala einfaldlega í þeim efnum.

Á fjárlögum núna eru til aukningar löggæslu á svæðinu 24 millj. Við erum öll sammála um það hér að þessi mál þurfa að vera í góðu lagi. Lögreglan hefur mikinn metnað í sínu starfi. Suðurkjördæmi er stórt og víðfeðmt svæði. Þar eru miklar vegalengdir og mikið álag á lögreglunni á þeim tímum sem margir sumarbústaðaeigendur eru á svæðinu. En það er fráleitt, herra forseti, að tala um eitthvert neyðar\-ástand. Það vill enginn kannast við það í einu einasta embætti á svæðinu.