Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 14:00:32 (688)

2002-10-17 14:00:32# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ef aðgerðir verða taldar nauðsynlegar í Írak, með samþykki hinna Sameinuðu þjóða eða í umboði þeirra á einhvern veg, þá er enginn vafi á því að aðstaða og aðbúnaður hér á landi verður veittur sem atbeini að slíkum aðgerðum. Við erum þátttakendur í Sameinuðu þjóðunum og styðjum auðvitað aðgerðir brýnar af því tagi. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um það.

Hins vegar geta menn velt fyrir sér í kjölfar þessarar fróðlegu umræðu hér hvernig staðan er, því að því er haldið fram og það er rétt að hafa í huga, að heimildir séu enn til staðar til hernaðaríhlutunar í Írak. Menn minnast þess, ég hygg að það hafi verið 1998, að þá lét Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseti, gera loftárásir á Írak með vísun til heimildar frá 1991 hjá Sameinuðu þjóðunum og síðan hefur ekkert breyst. Þáverandi Bandaríkjaforseti, Clinton, taldi sig hafa þær heimildir þá þegar

Hér var nefnt að Vesturlönd ættu kannski ekki að hafa samskipti við ólýðræðisleg íslömsk ríki. Vandamálið er, svo við horfumst í augu við það, að það er nú ekki auðfinnanlegt íslamskt ríki sem lýtur lýðræðislegum lögmálum. Ég veit ekki hvort það finnst bara nokkurs staðar.

Það var haft á orði hér að það hefði ekki verið ætlun manna með því að ráðast inn í Írak að steypa Saddam Hussein forseta, heldur eingöngu að lama íröksku þjóðina. Meginástæðan var nú sú að menn ætluðu að frelsa þjóðina í Kúveit. Reyndar var nefnt sérstaklega að það hefði verið gert þrátt fyrir það að konur hefðu þar ekki kosningarrétt, sem mér fannst sérstaklega athyglisverð ábending, því ég veit ekki til þess að konur hafi nokkurn þann rétt sem að gagni kemur í íslömsku löndunum yfirleitt. (ÞSveinb: Það er mjög misjafnt.) Og hvorki karlar né konur, vegna þess að kosningarrétturinn er ekki virtur með lýðræðislegum hætti þar, þó að í orði kveðnu geti menn fengið að kjósa.