Fjármálafyrirtæki

Föstudaginn 01. nóvember 2002, kl. 13:53:24 (925)

2002-11-01 13:53:24# 128. lþ. 20.5 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi hvergi nefnt í ræðu minni fé án hirðis, ég hef talað um fé sem enginn á, en hins vegar bjó ég til þetta hugtak, ,,fé án hirðis``, fyrir löngu síðan.

Vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að í ríkissjóði er líka fé án hirðis. Og við höfum búið til alls konar kerfi til að halda utan um það, að ekki sé farið illa með það fé, Ríkisendurskoðun o.s.frv. Við erum með heilmikið batterí til að koma í veg fyrir að illa sé farið með það fé vegna þess að sú hætta er til staðar. Hún er til staðar. Það er einmitt það sem bent hefur verið á, m.a. atgangurinn í kringum fjárln. á hverju hausti. Hvað eru menn að gera þarna? Þetta er útgerð á ríkissjóð og ekkert annað. Ég hef margoft bent á að sömu lögmál eiga að gilda um ríkissjóð og sparisjóðina nema að því leyti að sparisjóðsféð á enginn en ríkissjóður er þó væntanlega í eigu skattgreiðenda, þ.e. Íslendinga. Það er hins vegar tekið fram að enginn á sparisjóðina.

Og við erum líka með kerfi lífeyrissjóða þar sem sjóðfélagarnir koma ekki að stjórnun. Hvernig stendur á því að sjóðfélagi fær ekki að stjórna ráðstöfun þess fjár sem á að standa undir lífeyri hans í ellinni? Hvernig stendur á því, herra forseti? Þetta er allt fé sem ég hef kallað fé án hirðis vegna þess að hin harða hönd eigandans er ekki til staðar. Hún er ekki til staðar og segir: Nú hefur verið farið illa með, við skulum láta menn bera ábyrgð. Þetta eigendaleysi leiðir til ábyrgðarleysis í fjármálum, þetta fé sem enginn á, og því miður eru allt of mörg dæmi um það, sem almenningur þekkir, í ráðstöfun fjár hins opinbera í gegnum fjárlög.