Framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:36:52 (1142)

2002-11-06 15:36:52# 128. lþ. 24.8 fundur 178. mál: #A framlög Byggðastofnunar til eignarhaldsfélaga og atvinnuþróunarsjóða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:36]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka svör ráðherrans og þátttöku þingmanna í umræðunni. Ég tek undir orð síðasta hv. ræðumanns, Ísólfs Gylfa Pálmasonar. Þetta eru afskaplega mikilvægar stofnanir sem hafa gegnt miklu hlutverki. Sama segir hv. þm. Jón Bjarnason sem gerir sér góða grein fyrir því hversu öflug slík félög geta verið þar sem þau hafa náð að virka. Það er staðreynd að þar sem þetta hefur ekki náð að virka er um það að ræða að sveitarfélögin hafa ekki talið sig hafa burði til að mæta framlögum Byggðastofnunar. Það er vandamálið.

Sama má segja um atvinnureksturinn sem átti að leggja 20%, sem hefur heldur ekki getað séð af þeim peningum, því er verr og miður. Það hefur einnig tekið tíma að gera sveitarfélögunum grein fyrir því hve mikilvægt þetta er og kynna þeim hvað er þarna í rauninni í húfi. Þess vegna hafa þeir peningar sem ætlaðir voru í eignarhaldsfélögin ekki komist til skila eins og til var ætlast. Ég geri ráð fyrir því að þær 200 millj. sem eftir á að ráðstafa bíði eftir þeim eignarhaldsfélögum sem ekki hafa fengið sinn hlut. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það komi til greina að önnur eignarhaldsfélög sem geta komið með framlag á móti mundu fá hlut í þessum 200 millj.

Ég tek undir hvatningarorð annarra til hæstv. ráðherra um að standa vörð um eignarhaldsfélögin, að hún haldi áfram að leggja til fjármuni í eignarhaldsfélögin til að hægt sé að byggja upp atvinnulífið úti á landi. Það þarf á því að halda. Það eru ýmsar blikur á lofti og engir betri til að taka á því en heimamenn sjálfir.