Leyniþjónusta

Miðvikudaginn 06. nóvember 2002, kl. 15:41:14 (1144)

2002-11-06 15:41:14# 128. lþ. 24.9 fundur 136. mál: #A leyniþjónusta# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 128. lþ.

[15:41]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur gefið undir fótinn hugmyndum um að komið verði á fót leyniþjónustu á Íslandi. Starfsmenn dómsmrn. hafa endurómað þessi viðhorf, t.d. á fundi Varðbergs í september sl. og æðstu stjórnendur lögreglunnar hafa einnig látið líklega.

Eins og oft áður er vísað til þess að margar aðrar þjóðir hafi leyniþjónustur og þess vegna þurfi Íslendingar líka að hafa leyniþjónustu. Herra forseti. Það er mikilvægt að Alþingi verði upplýst um áform stjórnvalda í þessu efni. Þess vegna vek ég máls á þessu.

Fram til þessa hefur lögreglan staðið vörð um öryggi okkar og er mjög vandséð hvers vegna við ættum að færa löggæslu yfir í sérstaka öryggisstofnun eða leyniþjónustu. Lögreglan sinnir ákveðnu eftirliti með glæpamönnum og það er á allra vitorði að símar sumra þeirra hafa verið hleraðir en jafnan með dómsúrskurði. Ég hef ekki heyrt það gagnrýnt af nokkrum manni að reynt sé að hafa uppi á glæpamönnum, þá sérstaklega fíkniefnasölum, með þessum hætti. Þetta er og á að vera á verksviði lögreglunnar.

Öðru gegnir þegar stjórnmálaskoðanir fólks eru annars vegar. Í tengslum við komu forseta Kína sl. sumar urðum við vitni að mannréttindabrotum sem talin eru eiga rætur sínar í kínversku leyniþjónustunni. Þá sýndu íslensk stjórnvöld því miður hversu veiklunduð þau eru gagnvart erlendum valdstjórnarmönnum.

Þegar Kínaforseti kom hingað til lands krafðist hann þess að hann þyrfti aldrei að berja augum neina sem vildu mótmæla stjórnarháttum hans heima fyrir. Allir muna hvað gerðist. Fólki sem ætlaði að hafa í frammi mótmæli var meinað að koma til landsins, á annað hundrað manns. Um tíma var barnaskóli í Njarðvíkum gerður að fangabúðum. Þetta er öllum í fersku minni.

Þess eru dæmi, víða í kringum okkur, að leyniþjónustum hefur verið misbeitt gegn fólki sem hefur stjórnmálaskoðanir sem ekki eru valdhöfum þóknanlegar. Ekki fyrir svo ýkja löngu var upplýst um símhleranir í Noregi þar sem símar friðarsinna höfðu verið hleraðir svo dæmi sé tekið. Fyrirspurn mín til hæstv. dómsmrh. er eftirfarandi:

,,Eru uppi einhver áform um að koma á fót leyniþjónustu innan embættis ríkislögreglustjóra til að sinna verkefnum sem eru talin varða öryggi ríkisins? Ef svo er, hvers konar upplýsingum er þá ætlunin að safna og hvaða reglur mundu gilda um þessa starfsemi?``