Afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 10:40:51 (2258)

2002-12-06 10:40:51# 128. lþ. 48.91 fundur 299#B afgreiðsla efh.- og viðskn. á frumvarpi um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[10:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þrátt fyrir hörð mótmæli get ég ekki séð að nokkur bilbugur sé á hv. formanni efh.- og viðskn. um að knýja málið út úr efh.- og viðskn. í dag þrátt fyrir mótmæli okkar. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð. Við höfum verið á löngum og stífum fundum, ekki bara einu sinni á dag heldur tvisvar á dag mestalla þessa viku þannig að það vantar ekki að við höfum verið að vinna okkar vinnu í þessari nefnd. Þar eru bara mörg mál og flókin. Ég vil nefna vegna þessa sérstaka máls að það er ágreiningur milli stjórnarflokkanna um það. Það er ágreiningur milli ráðuneytisins og ríkisskattstjóraembættisins um það. Þetta er nýtt mál sem er sett inn í nefndina þegar málið hefur verið afgreitt við 1. umr., algerlega nýtt mál varðandi fyrningargrunninn og afskriftareglur. Það er ótækt og engin vinnubrögð þegar við fáum ekki að vita hvaða skattaleg áhrif þetta hefur í tekjutap, sem menn telja að geti skipt hundruðum milljóna, þ.e. að það eigi að afgreiða málið út úr nefndinni áður en við fáum slíkar upplýsingar.

Ég hlýt að mótmæla því, herra forseti, að þetta sé gert með þessum hætti og að í önnum þessa dags sé verið að skjóta inn einhverum hálftíma fundi, málamyndafundi til þess að reyna að afgreiða þetta mál út. Ég fer eindregið fram á það við formann efh.- og viðskn. að málið verði ekki afgreitt fyrr en með eðlilegum hætti eftir helgi þegar við höfum fengið umbeðin gögn frá ríkisskattstjóraembættinu. Það er algjört lágmark fyrir utan önnur atriði frv. sem þarf að ræða frekar. Það er ekki boðlegt, herra forseti, að það þurfi að flýta málinu svo af því að einhver hluti af efh.- og viðskn. er að fara utan í næstu viku. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum.