Ástandið á kjötmarkaðnum

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 12:53:43 (2316)

2002-12-06 12:53:43# 128. lþ. 48.95 fundur 303#B ástandið á kjötmarkaðnum# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[12:53]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka málefnalega umræðu. Ég vil þó segja við hv. þm. Jón Bjarnason: Menn geta verið ómerkilegir í málflutningi, tekið orð og snúið út úr þeim. Það er lýðskrum og ómerkilegheit að snúa svona út úr orðum mínum. Ég var að tala um þróun afurðastöðva, að þessu ástandi fylgdi ný þróun, menn vöknuðu til vitundar um að þeir yrðu að berjast á markaðnum, búa til nýja vöru. Menn eru t.d. sannfærðir um að kjúklingarnir hafi áhrif á fisksölu, að kjúklingakjöt hafi áhrif á þann markað. Hv. þm. Jón Bjarnason getur ekki með þessum ómerkilega hætti og lýðskrumi og, ég vil segja, herra forseti, hálfgerðum fíflaskap, talað með þessum hætti. Ég hef gjarnan sagt að íslenskir bændur væru duglegasta fólk þessa lands og að auki það skemmtilegasta. Þannig að ég verð ekki vændur um svona setningar. Þær eru ómerkilegar.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon man fífil sinn fegri. Nú gasprar hann úr stjórnarandstöðunni og hefur ráð á hverjum fingri. Hvaða reglur setti hann sem hafði tækifæri til að setja reglur á sínum tíma? Hverjar voru þær? Setti hann stærðarmörk í svínarækt? Setti hann stærðarmörk í kjúklingarækt? (Gripið fram í.) Hverjar eru reglurnar í Danmörku ef við ætlum að fara þangað? Stærsta svínabúið á Íslandi er með 550 gyltur. Í Danmörku eru nokkur þúsund gyltna á búi. Í mjólkurframleiðslunni erum við með 25 kýr að meðaltali. Þeir eru með 70 og fleiri hundruð kýr á búunum. Ef við ætlum að taka Dani til fyrirmyndar, hv. þm., erum við nú ekki á réttri leið. Þetta er vandasamt.

Hér hafa flestir talað um þetta málefnalega. Ég vil segja við hv. þm. Ágúst Einarsson að landbúnaðarvörurnar eru hér hlutfallslega ekkert dýrari en annað. Hverjir baka brauðið? Hverjir blanda kókið? Hverjir kenna í háskólanum? Allt er þetta dýrara en í Evrópu. Landbúnaðurinn sker sig ekkert úr hvað það varðar. Ég bið þennan hv. þm. og háskólaprófessor að fara aftur út í háskóla og reikna. (Forseti hringir.) En, ágætu þingmenn (Forseti hringir.) og hæstv. forseti: Ég vil að lokum þakka hér fyrir ágæta umræðu. Ég segi að það getur alveg komið til greina hvað varðar útflutningsskyldu á lambakjöti að hún verði felld í burt. En bændasamtök og aðrir verða að koma að því hvað skynsamlegast er í þessu.