Almannatryggingar

Föstudaginn 06. desember 2002, kl. 14:17:30 (2334)

2002-12-06 14:17:30# 128. lþ. 48.9 fundur 413. mál: #A almannatryggingar# (skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka) frv. 149/2002, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér fjöllum við um frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, með síðari breytingum, og eins og kynnt hefur verið er það hluti af samkomulagi heilbrrn. og annarra ráðuneyta sem skipuðu starfshóp með öldruðum. Ég fagna því í fyrsta lagi að slíkum starfshópi skuli hafa verið komið á og ég vona að hann verði virkur áfram og það náist gott samstarf á milli Félags aldraðra og ráðuneytanna í þessum starfshópi og að sömuleiðis verði tekinn upp sams konar eða svipaður starfshópur sem væri þá skipaður fulltrúum öryrkja. Ég tel það mikilsvert að stjórnsýslan nýti sér þá þekkingu og krafta sem eru innan þessara samtaka aldraðra og öryrkja, að samstarfshópur standi undir nafni og að sameiginlega verði reynt að finna sem bestar úrlausnir á málefnum þessara hópa. Það er kominn tími til að mynda samstöðu í staðinn fyrir að stilla sér upp í andstæðar fylkingar eins og oft og tíðum virðist hafa verið. Innan hópanna býr mikil sérþekking, mikill kraftur, og ég tel að það yrði til blessunar fyrir okkur öll ef við gætum nýtt okkur þessa krafta.

Hvað varðar frv. sjálft fagna ég þessu samkomulagi sem er í raun stórt spor í rétta átt og er kannski langt umfram það sem maður þorði að vona að kæmi út úr fyrstu niðurstöðum þessa samstarfshóps. Varðandi almannatryggingalöggjöfina var að vísu tekið lítið skref, þó fer það eftir því hver metur það, hvort það er ríkissjóður eða aldraðir. Í þetta skipti var gerð hækkun á tekjutryggingu og tekjutryggingarauka og skerðingarprósenta þessara liða var lækkuð en ekki stigið það skref að hækka grunnlífeyrinn og láta hann a.m.k. fylgja vísitöluhækkunum. Það verður vonandi næsta skref.

En hér er ákveðin þróun á ferð, sú að lækka skerðingarprósentuna. Hún var áður, eins og hér hefur komið fram, króna á móti krónu, var búin að vera 67% frá því að öryrkjadómurinn féll og er núna komin niður í 45%. Auðvitað eigum við að nota öll þau ráð sem við höfum til þess að stuðla að því að þeir aldraðir sem búa við góða heilsu og hafa löngun og kraft til að vera á vinnumarkaðnum geti það. Við eigum frekar að stuðla að því en að vera með eitthvað í almannatryggingalögum okkar sem dregur úr þátttöku eldri borgara og ellilífeyrisþega í atvinnulífinu.

Sem fylgiskjal með frv. er skýrsla samráðshópsins um málefni eldri borgara og þá þætti sem eru þessum hópi til framdráttar núna. Þar eru talin mörg atriði sem öll kosta peninga og við erum búin að leggja fjármagn til með afgreiðslu fjárlaga sem voru afgreidd fyrr í dag. Eins og ég segi eru þetta allt skref í rétta átt. Ég hefði viljað sjá myndarlegar tekið á á sumum sviðum en við skulum taka viljann fyrir verkið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að standa að þessu samkomulagi.