Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 11. desember 2002, kl. 14:17:02 (2466)

2002-12-11 14:17:02# 128. lþ. 51.2 fundur 215. mál: #A fjármálafyrirtæki# (heildarlög) frv. 161/2002, PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. 2. mgr. 75. gr. hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

,,Í samþykktum er þó heimilt að kveða á um að sjálfseignarstofnun skv. 76. gr. geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Á stofnfundi skal sjálfseignarstofnunin fara með atkvæði í samræmi við hlutafjáreign sína.``

Hvað skyldi nú sjálfseignarstofnun ákveða á stofnfjárfundi? Að sjálfsögðu ákveður hún að ráða. Í þessu felst að völdin eru í því göfuga fé sem enginn á. Þessi stofnun fer með 90% af atkvæðamagni hjá SPRON ef þeim sparisjóði yrði breytt í hlutafélag. Það er öll dreifingin á eignaraðild.

Undanfarnir mánuðir hafa verið tímar mikilla anna hjá stjórn SPRON. Menn selja og kaupa banka án nokkurs samráðs við kóng eða prest, hvað þá stofnfjáreigendur. Mér segir svo hugur að mat stjórnarinnar á kaupverði Frjálsa fjárfestingarbankans gæti verið 1.000 millj. of hátt, +/- 300 millj. Það er verið að meta þetta núna. Þannig er verið að flytja göfugt fé frá sparisjóði til hlutafélags sem seldi honum viðkomandi banka. Þetta er hið göfuga fé sem við erum að ræða um. Þar sem um óbreytt ákvæði er að ræða sit ég hjá.