Leiðtogafundur um sjálfbæra þróun

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 11:28:12 (2539)

2002-12-12 11:28:12# 128. lþ. 54.1 fundur 381. mál: #A leiðtogafundur um sjálfbæra þróun# skýrsl, GAK
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[11:28]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Umhvrh. hefur lagt fram skýrslu um helstu niðurstöður leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldinn var í Jóhannesarborg í haust.

Það er ljóst að ráðstefna á borð við þessa er afar mikilvægur vettvangur fyrir fjölþjóðlega umræðu um umhverfismál og mikilvægt að við Íslendingar séum þar virkir þátttakendur, eins og raunin hefur verið. Það er einnig jákvætt og mikilvægt að frjáls félagasamtök hafa átt þarna vettvang til að koma baráttumálum sínum og viðhorfum á framfæri við leiðtoga þjóða.

Af skýrslunni má ráða að Íslendingar hafa gengist undir margvíslegar skuldbindingar á sviði umhverfis- og þróunarmála. Framkvæmd þeirra skuldbindinga fer að mestu fram í gegnum alþjóðlegar stofnanir og samninga en þó verðum við ávallt að hafa til hliðsjónar stefnumörkun innan lands. Þá ber að fagna því sem segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Mikill hluti af þeim samþykktum sem felast í Jóhannesarborgaráætluninni er nú þegar í skýrum farvegi á Íslandi, í nýlegri stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun, í norrænni áætlun um sjálfbæra þróun og í ýmsum alþjóðasamningum og annarri alþjóðasamvinnu á sviði umhverfismála, viðskipta o.fl.``

Það kemur fram í skýrslunni að fulltrúar ýmissa félagasamtaka hafi talið samkomulagið rýrt því ekki hafi verið gerð tímasett markmið né hafi auknum fjárframlögum verið lofað til umhverfismála. Hins vegar verður árangur ráðstefnu á borð við þessa ekki metinn fyrr en að nokkrum árum liðnum þegar ljóst er hverjar efndirnar hafa orðið. Verði stefnumótun fundarins og leiðarlýsingu fylgt fram af fullri alvöru og festu gæti Jóhannesarborgarfundurinn fengið þann dóm að hann væri mjög árangursríkur fyrir betri framtíð þjóða heims.

[11:30]

Varðandi áherslu Íslands á umhverfisráðstefnunni vil ég vekja sérstaka athygli á eftirfarandi klausu í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Einnig var samþykkt á Balí, m.a. fyrir tilstilli Íslands, orðalag um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi, sem er mun sterkara en niðurstaðan á fundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Doha árið 2001 og tilmæli um að alþjóðlegar fjármálastofnanir á sviði þróunaraðstoðar komi meira að aðstoð við uppbyggingu sjálfbærs sjávarútvegs í þróunarlöndunum. Í Jóhannesarborg var samþykkt að stefna skyldi að því að byggja upp fiskstofna, þannig að nytjastofnar næðu hámarksafrakstri ekki seinna en 2015.``

Við höfum sem sagt 14 ár, með okkar kvótakerfi, til þess að ná þessum hámarksafrakstri. Ég hef ekki trú á, herra forseti, að það gangi eftir með óbreyttri stefnu. Frjálslyndi flokkurinn átti enga fulltrúa á þessari ráðstefnu, enda erum við lítill og tiltölulega fjárlítill flokkur. Vonandi stækkum við í framtíðinni en það er annað mál.

Herra forseti. Svo virðist sem ráðamenn okkar beri úti í heimi, á fundum eða ráðstefnum og í viðtölum í fjölmiðlum, á borð fullyrðingar um að hér á Íslandsmiðum sé allt í fína lagi og við séum í markvissu og viðvarandi uppbyggingarstarfi við nýtingu á helstu fiskstofnum okkar. Ég held að ég taki ekki of stórt upp í mig þó ég haldi því fram að ráðherrar okkar fari vísvitandi með ósannindi um mikinn árangur okkar í fiskveiðistjórnun og uppbyggingu á helstu fiskstofnum okkar.

Í ávarpi hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar á leiðtogafundinum um sjálfbæra þróun --- ég vil taka það fram að þá ræðu hafði ég ekki lesið í heild sinni fyrr en í þessari skýrslu --- segir, með leyfi forseta:

,,Við Íslendingar munum halda áfram að leggja áherslu á aðstoð við aðrar þjóðir með því að veita þjálfun og miðla af þekkingu okkar á sjálfbærri stjórnun lifandi auðlinda hafsins og beislun endurnýjanlegra orkulinda.``

Þannig komst hæstv. forsrh. að orði. Í ræðunni er einnig minnt á Reykjavíkuryfirlýsinguna um ábyrgar fiskveiðar í vistkerfi hafsins. Síðan virðist hæstv. forsrh. fá bakþanka. Undir lok ræðunnar segir, með leyfi forseta, á öðrum stað:

,,Við skulum hins vegar ekki gleyma því að fyrsta skrefið í átt til sjálfbærrar þróunar er tiltekt í eigin ranni.``

Herra forseti. Svo virðist sem hæstv. forsrh. gefi sér í ræðu sinni að það sé ekki allt í lagi hér heima. En í fréttum CNN í gærkvöldi fullyrti hæstv. sjútvrh. að við værum með allt í fínu lagi hér og mikið uppbyggingarstarf unnið með okkar sérstaka kvótakerfi, sem væri reyndar á hraðri ferð í átt að einkaeignarréttarkerfi. Það sem meira var var að hann lýsti því yfir í fréttinni, ef ég hef tekið rétt eftir, að stefna stjórnvalda nyti fulls stuðnings samtaka sjómanna á Íslandi.

Þarf virkilega, herra forseti, að lesa úr nýlegum yfirlýsingum samtaka sjómanna til að sýna fram á hvaða skoðun samtök sjómanna hafa á stefnu Íslands í stjórn fiskveiða?