Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 14:24:57 (2572)

2002-12-12 14:24:57# 128. lþ. 54.3 fundur 453. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (stofnkostnaður, stjórnir stofnana o.fl.) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[14:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé orðið sæmilega skýrt. Það eina sem þetta samkomulag felur í sér af hálfu sveitarfélaganna er að þau fallast á að eiga ekki lengur kröfu eða rétt á að tilnefna sjálfkrafa menn inn í þessar stjórnir. Það kallar í sjálfu sér ekki endilega á lagabreytingar. Löggjafinn má áfram leyfa sveitarfélögunum að hafa þennan tilnefningarrétt. Þau hafa hins vegar afsalað sér honum og telja sig ekki lengur eiga kröfu á honum vegna þessara breyttu reglna um kostnað.

Stjórnirnar geta að sjálfsögðu starfað áfram eins og þær eru skipaðar í dag. Þær hafa fullt umboð til þess þangað til lögum er breytt. Þeir ágætu einstaklingar sem sitja inni í þessum stjórnum núna eru jafngóðir þó að þetta samkomulag hafi verið gert. Að sjálfsögðu þarf ekki að afgreiða þetta hér og nú. Það er algerlega fráleitt. Gleymum því ekki að þriðji aðili þessa máls, starfsfólk heilbrigðisstofnana, hefur alls ekki á nokkurn hátt verið haft með í ráðum eða komið að málinu. Það á að missa fulltrúa sína þarna eftir sem áður.