Skipulag ferðamála

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 14:49:20 (2587)

2002-12-12 14:49:20# 128. lþ. 54.2 fundur 447. mál: #A skipulag ferðamála# (afnám Ferðamálasjóðs) frv. 156/2002, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[14:49]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 177/1994, með síðari breytingum. Með frv. þessu er lagt til að Ferðamálasjóður verði lagður niður frá og með 1. janúar 2003.

Í samræmi við stefnumörkun sína hefur ríkisstjórnin stuðlað að almennri endurskoðun á sjóðakerfi atvinnuveganna sem hefur leitt til þess að fjárfestingarlánasjóðir í iðnaði og sjávarútvegi hafa verið lagðir niður. Ferðamálasjóður er einn örfárra starfsgreinasjóða sem enn starfa en nú er svo komið að halli hefur verið á rekstri sjóðsins og starfar hann á undanþágu frá viðskrh. sem rennur út þann 25. janúar nk.

Tillaga um að leggja niður sjóðinn í núverandi mynd er í samræmi við fyrirliggjandi frv. til laga um fjármálastofnanir. Þar er gert ráð fyrir að Ferðamálasjóður falli ekki undir lög um fjármálastofnanir, með öðrum orðum að hann verði ekki skilgreindur sem fjármálafyrirtæki.

Í frv. er lagt til að eignir og skuldir sjóðsins verði yfirteknar af ríkissjóði en að Byggðastofnun verði falið að sjá um innheimtu útlána sjóðsins. Samkomulag hefur náðst milli samgrn., iðnrn. og fjmrn. um að stuðningur við verkefni á sviði ferðaþjónustu verði áfram veittur í formi samstarfs Ferðamálaráðs og Byggðastofnunar. Ferðaþjónustuverkefni verði annars vegar fjármögnuð með styrkjum af hálfu ferðamálayfirvalda og hins vegar með lánum frá Byggðastofnun. Þannig er gert ráð fyrir að fjármunir sem varið er í málaflokkinn muni nýtast betur en með núverandi fyrirkomulagi. Markmið þeirra verður að styrkja nýsköpun á sviði ferðaþjónustu, auk þess að efla hlutverk Byggðastofnunar sem lánveitanda í ferðaþjónustu. Að öðru leyti er gert ráð fyrir fyrirgreiðslu fjármálastofnana.

Þá er með frv. þessu lagt til að fella brott heimildarákvæði 36. gr. laganna um gjaldtöku fyrir ferðaþjónustu við ferðamenn á ferðamannastöðum í umsjá ríkisins. Þetta heimildarákvæði hefur aldrei verið nýtt enda er dýrt og fyrirhafnarsamt að innheimta slíkt gjald og því er ekki talin ástæða til að halda því inni í lögunum.

Ég vil að lokum leggja til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn. að lokinni umræðunni.