2002-12-13 14:46:21# 128. lþ. 59.95 fundur 347#B horfur í væntanlegum samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið í tengslum við stækkun sambandsins# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég deili þeim sjónarmiðum að sjálfsagt geti þær samningaviðræður sem fram undan eru við Evrópusambandið í tilefni af stækkuninni orðið erfiðar en á hinn bóginn tel ég einnig að samningsstaða Evrópusambandsins sé ekki sterk nema þeir beiti þá afli og virði ekki þá samninga sem hafa verið gerðir.

Í öðru lagi tel ég athyglisvert þegar við erum að tala um kröfu Evrópusambandsins um 27-földun á greiðslum í sjóði sambandsins frá Íslandi þá kemur fram í samningsumboðinu afar athyglisverð setning sem ekki hefur verið vakin athygli á. Þegar við, Norðmenn og fleiri kvörtuðum yfir þessum gríðarlega háu kröfum, 27-földun greiðslna, þá segir Evrópusambandið í samningsumboði sínu að Íslendingar og Norðmenn skuli hafa það í huga að þessi krafa sé aðeins brot, ,,fraction`` eins og það er á enskunni, af þeim kröfum sem yrðu gerðar til Íslendinga ef þeir gengju í Evrópusambandið. Þetta er afar athyglisverður punktur sem þarna kemur fram.

Í þriðja lagi er það orðin lenska að menn hlaupa af stað með vitlausar fréttir. Nú síðast var verið að hafa eftir Ríkisútvarpinu um kollega minn Bondevik, og hvað skyldi Ríkisútvarpið segja? Þeir segja hér: ,,Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, segir að aðild að Evrópusambandinu verði helsta kosningamál í næstu þingkosningum.`` En hvað segir Bondevik sjálfur? Ég er með útskrift af því. ,,Jeg tror ikke at det blir den enkelte hovedsaken under valget, men én av flere viktige saker, ...`` Þetta er nákvæmlega það sem ég hef sagt. Síðan segja þeir: ,,Bondevik sem er gamall andstæðingur,`` segir Ríkisútvarpið, ,,segir að Evrópusambandið sé að breytast og ljær nú í fyrsta sinn máls á því að endurskoða afstöðu sína til sambandsins.`` Hvað segir Bondevik sjálfur? ,,Jeg har intet nytt EU-standpunkt å komme med her og nå.`` Þarna var því um hreina fréttafölsun hjá Ríkisútvarpinu að ræða og því miður datt þingmaðurinn sem hér áðan talaði í þá gryfju að trúa því sem þar var sagt og það er skiljanlegt. Ég er ekki að hnýta neitt í hana fyrir það. Svona er hægt að fara með fólk.