2002-12-13 14:57:31# 128. lþ. 59.95 fundur 347#B horfur í væntanlegum samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið í tengslum við stækkun sambandsins# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin og jafnframt hæstv. forsrh. fyrir þátttöku í umræðunni. Það má margt jákvætt segja um stækkun Evrópusambandsins, þ.e. þá hugsun að Vestur-Evrópuríki styðji við bakið á uppbyggingunni í Austur-Evrópu. Hins vegar þegar litið er á þá samninga sem nýjum aðildarríkjum er boðið upp á, t.d. Póllandi, þá eru það býsna harðir kostir. Þá er lítið eftir af þeirri jákvæðu hugsun sem stækkunin var upphaflega seld út á, að þetta ætti fyrst og fremst að vera liður í að styðja við bakið á uppbyggingu í Austur-Evrópu. Sú nöturlega staðreynd blasir við að að óbreyttri kröfugerð Evrópusambandsins gagnvart t.d. Póllandi gætu þeir endað uppi sem nettógreiðendur til Evrópusambandsins en ekki þiggjendur í byrjun.

Ég er ekki í þeim hópi sem sér eftir því þó að Ísland láti sitt af hendi rakna til uppbyggingar fátækra ríkja í Austur-Evrópu, t.d. Eystrasaltsríkjanna og Póllands eða þess vegna allra þessara ríkja en ég tel að við eigum að gera það á okkar sjálfstæðu forsendum, ekki þvingaðir til þess af ósanngjarnri kröfugerð Evrópusambandsins og í gegnum millifærslusjóði Evrópusambandsins þannig að stór hluti greiðslnanna nái kannski aldrei austur á bóginn. Og það er mikilvægt að menn hafi í huga í þessu sambandi að það ber ekki á því að hin nýju aðildarríki standi á bak við kröfugerð Evrópusambandsins á hendur EFTA-ríkjunum. Þess urðum við í utanrmn. a.m.k. ekki vör í Póllandi, að Pólverjar hefðu sérstakan áhuga á því að Íslendingar yrðu látnir kaupa það dýru verði að halda óbreyttum markaðsaðgangi inn á pólskan markað, þvert á móti og af skiljanlegum ástæðum.

Ég vona svo, herra forseti, að okkur gangi vel í þessum samningum. Ég vil taka það fram að við teljum að ekki komi til greina að selja sjálfstæði okkar hvað varðar það að hafa stjórn á fjárfestingum í sjávarútvegi í þeim viðræðum og að við eigum að verja sjálfstæði okkar til þess að láta þá okkar af hendi rakna til uppbyggingar í Evrópu austanverðri á sjálfstæðum forsendum en ekki í gegnum Evrópusambandið.