Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 575  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2003.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2003 kemur nú til lokaafgreiðslu við 3. umræðu. Í frumvarpinu með þeim breytingum sem gerðar hafa verið við 2. umræðu og breytingartillögum meiri hlutans nú við 3. umræðu er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs á næsta ári verði 271,6 milljarðar kr. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 260,1 milljarður kr. Tekjuafgangur ríkissjóðs er því áætlaður 11,5 milljarðar kr. Ef miðað er við fjárlög þessa árs hækkuðu rekstrargjöld ríkissjóðs frá því sem samþykkt var í fjárlögum 2002 og því sem nú liggur fyrir við samþykkt fjáraukalaga um 5%. Ef miðað er við að það sama gerist á þessu ári má gera ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs fari í tæpa 273 milljarða kr. á árinu 2003. Ljóst er því að ef gjöldin þróast eins og á síðasta ári þurfa að koma til auknar tekjur af hálfu ríkissjóðs ef hann á að skila afgangi. Ef tekjur af sölu ríkiseigna eru dregnar frá hverfur mesti glansinn af árangri ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Afkoma ríkissjóðs er þá í besta falli í járnum þessi missirin.

Vinna við fjárlagagerðina.
    Ríkisstjórnin leggur fram frumvarp til fjárlaga í upphafi þings. Að því búnu fer það til fjárlaganefndar til frekari umfjöllunar. Sú hefð hefur skapast að við 2. umræðu eru lagðar fram meginbreytingar þingsins á gjaldahlið frumvarpsins. Umræðan hefur þó í auknum mæli snúist um efnahagshorfur og stefnu í ríkisfjármálum þrátt fyrir að endurskoðuð þjóðhagsspá og tekjuáætlun fyrir næsta ár liggi ekki fyrir. Við 3. umræðu er lögð fram endurskoðuð tekjuáætlun fyrir næsta ár og jafnfamt þær efnahagsforsendur sem ríkisfjármálin næsta ár byggjast á. Vinstri hreyfingin – grænt framboð bendir á að eðlilegra væri að við 2. umræðu væri fjallað um tekjuáætlun, efnahagsforsendur og stefnu í ríkisfjármálum. Við þá umræðu væri tekjuhlið frumvarpsins ákveðin. Við 3. umræðu væru útgjöldin endanlega ákveðin. Það er góður siður á heimilum að telja fyrst í buddunni og ákveða síðan útgjöldin. Þannig ætti það einnig að vera hjá Alþingi gagnvart ríkisfjármálunum.

Efnahagsstofa Alþingis.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð bendir enn fremur á nauðsyn þess að Alþingi hafi sjálfstæða ráðgjafa í efnahagsmálum. Í dag verður það að reiða sig á útskýringar sérfræðinga framkvæmdarvaldsins því nú er það fjármálaráðuneytið sem gefur út endurskoðaða þjóðhagsspá sem fjárlagafrumvarpið byggist á. Nauðsynlegt er að Alþingi hafi eigin stofnun sem starfar með Alþingi í efnahagsmálum og fjármálastjórn ríkisins. Í þessu sambandi má nefna að Vinstri hreyfingin – grænt framboð flutti tillögu til þingsályktunar á 127. löggjafarþingi þess efnis að sett yrði á fót nefnd til að meta kosti þess að Þjóðhagsstofnun yrði færð undir Alþingi. Í greinargerð með tillögunni kom fram að eitt meginhlutverk Þjóðhagsstofnunar væri að fylgjast með framvindu efnahagsmála, meta árangurinn af efnahagsstjórn ríkisstjórnar á hverjum tíma og líklegar afleiðingar ráðstafana í efnahagsmálum. Því gæti tæpast talist heppilegt að stofnunin heyrði beint undir forsætisráðuneytið sem fer með yfirstjórn efnahagsmála. Frá því að þessi tillaga var lögð fram hefur Þjóðhagsstofnun verið lögð niður og því hafa skerst enn möguleikar Alþingis til að fá óvilhalla menn til að meta árangurinn af efnahagsstjórninni og horfur í þeim efnum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur mikla áherslu á að úr þessu verði bætt.

Forsendur fjárlagafrumvarpsins.
    Fjármálaráðuneytið hefur nú endurskoðað þjóðhagsspána sem birt var 1. október. Þar er gert ráð fyrir að hagvöxtur fyrir árið 2002 verði ¼% og 1¼% á næsta ári. Skýringin er einkum meiri útflutningur 2002 og aukin þjóðarútgjöld 2003. Viðskiptajöfnuður er talinn verða heldur óhagstæðari en í fyrri spá. Þjóðarútgjöld dragast saman um 3% árið 2002 sem aðallega má rekja til samdráttar í fjárfestingu atvinnuveganna. Enn fremur kemur fram að atvinnuleysi hafi farið vaxandi að undanförnu. Spáð er heldur meira atvinnuleysi árið 2003 en áður eða 2¾%.

Vandi framhaldsskólanna.
    Nú liggur fyrir að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2003 er ekki tekið að fullu á vanda framhaldsskólanna sem var þegar í árslok 2001 orðinn mikill eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2001. Strax í upphafi ársins 2001 höfðu framhaldsskólarnir ráðstafað 286,9 millj. kr. til útgjalda umfram heimildir. Þegar tekið hafði verið tillit til afkomu ársins höfðu framhaldsskólarnir ráðstafað liðlega 334,9 millj. kr. umfram heimildir. Uppsafnaður fjárhagsvandi Menntaskólans í Kópavogi var í árslok 2001 162,7 millj. kr., Fjölbrautaskólans í Breiðholti 74,7 millj. kr., Fjölbrautaskólans í Ármúla 69,2 millj. kr., Fjölbrautaskóla Vesturlands 60,3 millj. kr. og Verkmenntaskólans á Akureyri 52,5 millj. kr. Það sýnir óábyrga fjárlagagerð af hálfu stjórnarmeirihlutans að ekki skuli vera tekið á vanda framhaldsskólanna.
    Áður hefur komið fram að skólastjórnendur hafa gagnrýnt það reiknilíkan sem notað er til að ákvarða fjárveitingar til skólanna. Gagnrýnin hefur beinst að því að reiknilíkanið sé ekki nógu vel aðlagað að mismunandi starfsemi þeirra. Framhaldsskólar á landsbyggðinni hafa kvartað undan því að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til aukins kostnaðar vegna fjarlægðar skólanna frá höfuðborginni, þaðan sem vörur og þjónusta er keypt og fundir haldnir. Þá hafa verkmenntaskólar gagnrýnt að búnaður verknámsdeilda og tölvumála sé stórlega vanmetinn. Félag framhaldsskólakennara hefur einnig í ályktun gagnrýnt fjárlagafrumvarpið og fjárveitingar til framhaldsskólanna.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur í málflutningi sínum lagt áherslu á menntamálin og að auknum fjármunum verði varið til þess málaflokks. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur þau vinnubrögð sem meiri hlutinn hefur stundað í menntamálum ekki til eftirbreytni. Það þarf að taka á vanda framhaldsskólanna og skapa þeim lífvænleg rekstrarskilyrði þannig að þeir geti sinnt skyldu sinni.

Fjárhagsvandi heilbrigðiskerfisins.
    Fjárhagsvandi heilbrigðiskerfisins er mikill. Í lok ársins 2001 var rekstur 22 heilbrigðisstofnana umfram fjárheimildir og var samanlagður vandi þeirra um 1,6 milljarðar kr. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings kemur enn fremur fram að rekstrarhalli Landspítala – háskólasjúkrahúss hafi verið 858 millj. kr. en samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2002 og tillögum ríkisstjórnarinnar til fjárlaganefndar við 2. umræðu nemur fjárhagsvandi hans um 2,3 milljörðum kr. Ljóst er, og það er góðra gjalda vert, að ríkisstjórnin er að einhverju leyti að taka á fjárhagsvanda Landsspítalans. Ekki hefur komið nægjanlega skýrt fram hvað veldur sífelldri framúrkeyrslu hjá spítalanum. Nokkuð ljóst virðist þó vera að um er að ræða sambland af skipulagsleysi eða skipulagsskekkjum í heilbrigðisþjónustunni á undanförnum árum og óraunhæfum fjárveitingum. Þvert á opinbera stefnu í heilbrigðismálum hefur heilbrigðisþjónustan markvisst verið að þróast í tvöfalt kerfi einkavæddrar sérfræðiþjónustu og opinberrar heilsugæslu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Mikilvægt er að snúa af braut einkavæðingar í heilbrigðismálum sem núverandi ríkisstjórn hefur hleypt af stað og vaxið hefur hröðum skrefum á sl. átta árum. Af frumvarpi til fjárlaga 2003 og fjáraukalagafrumvarpi 2002 má sjá að alltaf er verið að laga stöðu sjúkrastofanana í Reykjavík. Heilbrigðisstofnunum úti um landið er ætlað að halda kostnaði innan fjárlagaramma síns svo sem eðlilegt er.
    Aukning á fjárheimildum til heilbrigðismála kemur þó aðallega fram hjá sjúkrastofnunum í Reykjavík en ekki á landsbyggðinni. Með þeirri stefnu er verið að skekkja uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Virðist það vera stefna stjórnvalda að reyna að stefna öllum til Reykjavíkur sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótmælir þeirri stefnu og leggur áherslu á öfluga heilbrigðis- og sjúkraþjónustu um allt land svo að allir fái notið nauðsynlegrar þjónustu í heimabyggð.

Fjárhagsvandi Háskóla Íslands.
    Öflugt menntakerfi með fjölbreyttu námsframboði er forsenda framfara og hagvaxtar. Jafnrétti til náms óháð fjárhag og búsetu skiptir hér miklu. Það er mikill áfellisdómur sem forsvarsmenn framhaldsskólanna hafa kveðið upp um framkvæmd menntastefnunnar sl. áratug og lýst hefur verið í ályktunum samtaka þeirra. Dapurlegt er að sama sinnuleysið hefur ríkt gagnvart Háskóla Íslands. Það er dagljóst að verið er að þvinga fram einkavæðingu á einstökum deildum skólans og á skólanum öllum. Er leynt og ljóst verið að krefjast þess að skólinn sæki æ stærri hlut rekstrarfjár síns í vasa nemenda. Í fylgiskjali er grein Páls Skúlasonar háskólarektors í Morgunblaðinu 3. desember sl.
    Rektor Háskóla Íslands hefur gert menntamálaráðherra ítarlega grein fyrir alvarlegri fjárhagsstöðu Háskóla Íslands en viðunandi lausn á henni hefur ekki fengist. Í minnisblaði frá háskólarektor til fjárlaganefndar Alþingis eru meginatriði fjárhagsvandans skýrð en þau eru:
     1.      Nemendum í Háskóla Íslands hefur fjölgað meira á undanförnum árum en gert var ráð fyrir. Í samningi Háskólans við menntamálaráðuneyti um fjármögnum kennslu er hámarksfjöldi nemendaígilda 4.300. Síðastliðið skólaár voru nemendaígildi 4.699. Halli á rekstri Háskólans á árinu 2002 verður um 200 m.kr. fái Háskólinn ekki í upggjöri greitt fyrir raunverulegan fjölda nemendaígilda. Á árinu 2003 er gert ráð fyrir því að nemendaígildi verði 4.863 og er fjárveiting ársins vanáætluð um 176 m.kr. af þeim sökum.
     2.      Á undanförnum árum hefur launastika sem ráðuneyti notar til þess að ákveða nemendaframlög ekki hækkað í samræmi við launahækkanir sem kjaranefnd hefur úrskurðað prófessorum og kjarasamninga sem fjármálaráðuneytið hefur gert við félög háskólastarfsmanna. Að mati Háskólans vantar 165 m.kr. til þess að nemendaframlög hafi hækkað í takt við hækkun launa.
     3.      Á undanförnum árum hefur fjárveiting til rannsókna hækkað minna en fjárveiting til kennslu. Fyrir fimm árum var fjárveiting til rannsókna 67% af fjárveitingu til kennslu en nú er hlutfallið 60%.
    Ljóst er að Háskóla Íslands vantar fjármagn ef hann á ekki að skila rekstrarhalla á næsta ári. Áætlanir menntamálaráðuneytisins um fjárþörf Háskóla Íslands eru ekki í samræmi við fjárþörf hans. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur að bæta þurfi úr þeim rekstrarvanda Háskóla Íslands.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð bendir á að gera þarf Háskóla Íslands kleift að vaxa og dafna á sómasamlegan hátt. Jafna þarf fjárhagsstöðu ríkisháskóla og einkarekinna háskóla. Það er ekki sanngjarnt og veikir samkeppnisstöðu ríkisháskóla að einkaháskólar geti innheimt skólagjöld af nemendum sínum, umfram það sem ríkisháskólum er heimilt að gera, þótt þeir fái sömu fjárframlög frá ríkinu og ríkisháskólarnir. Þetta er meðal annars í andstöðu við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum þar sem einkaskólar þurfa að velja um það hvort þeir taka skólagjöld eða þiggja ríkisframlög til jafns við ríkisskóla. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ávallt mótmælt innleiðingu skólagjalda enda er það í andstöðu við stefnu hennar.

Fjáröflun ríkissjóðs.
    Yfirstandandi kjörtímabil hefur einkennst af aukinni skattheimtu af tekjum þeirra sem eru með lágar og miðlungs tekjur. Hefur þetta einkum og sér í lagi gerst sökum þess að skattleysismörk hafa hvergi nærri fylgt launa- og verðlagsþróun. Þá hefur allt núverandi valdatímabil ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins, fyrst með Alþýðuflokknum og nú með Framsóknarflokknum, einkennst af stórhækkuðum notendagjöldum svo sem í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og í atvinnulífinu öllu án þess að það hafi leitt til lækkunar beinna skatta á almenningi.
     Nýjasta dæmið er fjármögnun á samningi ríkisstjórnarinnar við Landssamband aldraðra. Þrátt fyrir góðæri undanfarinna ára verður að leggja á nýja skatta til að mæta þeim litlu leiðréttingum sem gerðar eru á kjörum aldraðra. Stimpilgjöld hafa verið mjög óréttlátur skattur og hafði verið gefið loforð um að hann yrði lækkaður verulega. Nú er það talið tæknilega illviðráðanlegt.
    Skattar á hátekjufólk hafa verið lækkaðir og sömuleiðis tekjuskattur fyrirtækja. Áfram er fjármagnseigendum ívilnað í sköttum. Einkavæðing almannaþjónustu og sala á þjónustustofnunum hins opinbera hefur verið hornsteinn hugmyndafræði þessarar ríkisstjórnar. Söluandvirði þessara eigna er svo tekið inn í almennan rekstur ríkissjóðs. Það er öllum ljóst að fjáröflun á þeim grunni getur ekki drifið ríkisjóð áfram til lengdar. Það er ekki hægt að selja sömu eignina tvisvar.

Lokaorð.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að ríkisfjármálum sé beitt til að auka jöfnuð í samfélaginu. Mikilvægt er að létta af þeirri spennu sem hefur magnast á síðustu árum vegna aukins tekjumunar í þjóðfélaginu og kerfisbundinnar mismununar á lífskjörum fólks. Öllum þegnum þjóðfélagsins skulu tryggð mannsæmandi lífskjör. Það á að vera aðalsmerki hins samábyrga velferðarsamfélags. Öll mismunun á lífskjörum leiðir til hættulegrar spennu og þenslu í þjóðfélaginu, sem og röskunar fjölskyldubanda, byggðar og atvinnulífs.
    Gegn þessu ójafnvægi verður að berjast með öllum tiltækum ráðum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja til að tekjum ríkisins verði í auknum mæli varið til menntunar og rannsókna, að framlög til umhverfismála verði aukin og að tekið verði upp „grænt bókhald“ þegar meta skal arðsemi í rekstri og framkvæmdum.
    Mikil byggðaröskun, stöðugir fólksflutningar á höfuðborgarsvæðið og sá mikli viðskiptahalli sem við höfum búið við síðustu ár sýnir það ótvírætt að viðskipta- og þjónustugeirinn á suðvesturhorninu hefur vaxið langt umfram það sem aukning í þjóðarframleiðslu gefur tilefni til. Þessu verður að snúa við ef við eigum að ná eðlilegum hagvexti og jafnvægi í viðskiptum og greiða niður skuldir þjóðarbúsins við útlönd.
    Á síðustu árum hefur þróast hér hagkerfi, efnahags- og atvinnulíf sem nærist á viðskiptahallanum og er orðið háð honum. Það verður þrautin þyngri að snúa af þeirri braut. Krafa um hagræðingu sem tekur einungis tillit til tímabundinna arðsemiskrafna fjármagnseigenda og ofurtrú á hagkvæmni stærðarinnar hefur villt stjórnvöldum sýn og leitt atvinnulífið inn á villigötur sem þjóðin öll sýpur nú seyðið af.
    Hér verður að breyta um kúrs. Stöðva þarf einkavæðingu almannaþjónustunnar. Búa þarf atvinnulífinu þá umgjörð að fólk og fjármagn leiti aftur til þeirra atvinnugreina sem stuðla að varanlegri verðmætaaukningu í þjóðfélaginu og þar með raunhagvexti. Beina þarf athyglinni að litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem hugvit og framtak sérhvers einstaklings fær notið sín og atvinnurekstri sem er í takt við íslenskar aðstæður og íslenskan veruleika og byggist á sjálfbærri nýtingu náttúrauðlindanna. Takist þetta mun byggjast upp blómlegt atvinnulíf á raunsönnum grunni um allt land.
    Í þessum stóru málaflokkum greinir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð á við stefnu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar um forgangsröðun, áherslur og pólitíska sýn.

Alþingi, 5. des. 2002.



Jón Bjarnason.




Fylgiskjal I.


Páll Skúlason:


Vill Alþingi skólagjöld?
(Morgunblaðið, 3. desember 2002.)


    Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 1. desember sl. er meðal annars fjallað um þörf á því að jafna fjárhagsstöðu ríkisháskóla og einkarekinna háskóla. Bent er á að einkaháskólar geti innheimt skólagjöld af nemendum sínum, umfram það sem ríkisháskólum er heimilt að gera, þótt þeir fái sömu fjárframlög frá ríkinu og ríkisháskólarnir. Þetta er í andstöðu við það sem tíðkast á öðrum Norðurlöndum þar sem einkaskólar þurfa að velja um það hvort þeir taka skólagjöld eða þiggja ríkisframlög til jafns við ríkisskóla.
    Höfundur Reykjavíkurbréfsins segir síðan orðrétt: „Þar sem stjórnvöld hafa tekið ákvörðun um annars konar stefnumótun en ... í nágrannalöndunum er ekki nema eðlilegt að ríkisreknum háskólum sé í framhaldi af því gert kleift að innheimta skólagjöld til að afla sér aukinna tekna ... Í þessu sambandi vaknar spurningin: Hvaða „stjórnvöld“ hafa tekið ákvörðun um þá stefnu sem hér er vísað til?
Ákvæði laga.
    Í lögum um Háskóla Íslands frá 1999 kemur skýrt fram að skólinn hefur ekki heimild til að taka skólagjöld af nemendum sínum í hefðbundnu háskólanámi ef undanskilið er árlegt skrásetningargjald sem nú er 32.500 kr. Samkvæmt rammalögum um háskólastigið frá 1997 er menntamálaráðherra „heimilt“ að gera samning við háskóla sem rekinn er af einkaaðilum ... um að annast tiltekna menntun á háskólastigi gegn því að ríkissjóður greiði ákveðna fjárhæð fyrir þjónustuna. Hvorki í frumvarpi til þessara laga né í öðrum lögskýringargögnum kemur fram að einkaháskólar skuli fá sömu fjárframlög frá ríkinu og ríkisháskólar án tillits til þess hvort einkaskólarnir innheimti skólagjöld af nemendum sínum. Í umræðum um frumvarpið lét þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, meðal annars þessi orð falla: „Það hefur aldrei staðið til að þetta frumvarp tæki af skarið um að lögð yrðu á skólagjöld. Frumvarpið er hlutlaust í málinu.“
    Því liggur það ljóst fyrir að Alþingi hefur ekki tekið ákvörðun um annars konar stefnumótun en tíðkast í nágrannalöndunum, heldur hefur löggjafinn þvert á móti mótað þá stefnu að ekki skuli tekin skólagjöld í Háskóla Íslands og öðrum ríkisháskólum, á sama hátt og gert hefur verið á öðrum Norðurlöndum. Ekkert bendir heldur til þess að Alþingi eða meiri hluti þess hafi mótað þá stefnu að einkaháskólar skuli fá meira fé til kennslu, með ríkisframlögum og skólagjöldum, en ríkisháskólar.

Vilji stjórnvalda.
    Í ljósi þessa má spyrja hvort tekin hafi verið ákvörðun af hálfu íslenskra yfirvalda um þá stefnumótun sem vísað er til í Reykjavíkurbréfinu. Ef samstaða er um það að jafna þurfi fjárhagsstöðu ríkisháskóla og einkaháskóla til þess að tryggja jafnræði á milli þeirra verður að gera annað af tvennu: Annaðhvort að taka tillit til skólagjalda, sem einkaskólar innheimta af nemendum sínum, við ákvörðun ríkisframlaga til þeirra eða að ætla ríkisskólum eins og Háskóla Íslands að innheimta skólagjöld til jafns við einkaskólana. Mögulegt er að velja fyrri leiðina, að óbreyttum lögum, en til þess að síðari leiðin verði fær þarf Alþingi að breyta núgildandi lögum um Háskóla Íslands og aðra ríkisháskóla. Þegar öllu er á botninn hvolft ræðst valið á milli þessara tveggja leiða af pólitískri stefnumótun í menntamálum, en það er fyrst og fremst hlutverk Alþingis að taka slíka ákvörðun í samræmi við það stjórnskipulag sem við Íslendingar búum við. Með þessu er Háskóli Íslands ekki að óska eftir heimild til að taka upp skólagjöld, heldur krefjast ábyrgrar afstöðu Alþingis um fjármögnun háskóla hvort sem þeir eru í eigu ríkisins eða annarra aðila.



Fylgiskjal II.


Árna Steinar Jóhannsson og Jón Bjarnason :


Á meðan ráðherrann sefur.


(Morgunblaðið, 5. desember 2002.)


    Að undanförnu hefur töluvert verið fjallað um stöðu Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi bæði á Alþingi og í fjölmiðlum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt tvær þingsályktunartillögur fram á Alþingi sem lúta að starfsemi verksmiðjunnar. Í fyrsta lagi er tillaga um að athugað verði hvort danska fyrirtækið Aalborg Portland stundi undirboð á íslenskum sementsmarkaði. Hin tillagan lýtur að því að gerð verði úttekt á mögulegu hlutverki verksmiðjunnar í framtíðinni, einkum hvað varðar förgun orkuríkra úrgangsefna. Iðnaðarráðherra hefur ekkert viljað gefa sig að málinu og hefur fyrst og fremst brugðist við málflutningi undirritaðra með önugheitum.

Danir vilja ráða íslenska markaðnum.
    Á viðskiptasíðu Nordjyllandske Stiftstidende 7. september sl. er ítarleg grein, þar sem fjallað er um endurkomu Aalborg Portland inn á íslenska markaðinn. Þar talar blaðamaðurinn Niels Brauer við framkvæmdastjóra Portlands um „Strandhögg á íslenska markaðnum“. (Portland har sat sig tungt på Island.) Hann nefnir að fyrirtækið hafi náð 25% markaðshlutdeild hér á landi á aðeins tveimur árum. Einnig er rætt við Sören Vinter, framkvæmdastjóra Aalborg Portland. Hann segir að fyrirtækið hafi verið ráðandi á íslenska markaðnum frá 1903 til 1960 og sé nú komið til að ná þeirri stöðu aftur eftir 40 ára fjarveru. Forstjórinn segir markmiðið að sjálfsögðu vera að ná sterkari stöðu á íslenskum sementsmarkaði og segir beinlínis í viðtalinu að hann líti á Ísland sem heimamarkað Aalborg Portland.
    Það liggur fyrir að útsöluverð á sementi frá Aalborg Portland hér á landi er það sama eða lægra en verðið í Danmörku. Fyrirtækið tekur á sig allan flutningskostnað og meira til í því augnamiði að undirbjóða Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Risafyrirtæki á evrópskum sementsmarkaði virðast hafa skipt álfunni á milli sín þannig að hver fái sitt heimaland og Ísland komið í hlut Aalborg Portland.
    Aalborg Portland notar alþekktar aðferðir stórfyrirtækja til þess að losna við smáframleiðendur á heimamarkaði. Þær snúast um að beita undirboðum þar til minni framleiðendur gefast upp fjárhagslega og þegar því marki er náð er verðið hækkað smám saman þar til salan fer að skila þeim arði sem til er ætlast. Aalborg Portland hefur náð markaðshlutdeild sinni á Íslandi með því að nota undirboð og stefnir á enn frekara strandhögg hér á landi. Það liggur fyrir að ef ekkert verður að gert fer Sementsverksmiðjan á Akranesi á hausinn. Fyrir utan atvinnuþáttinn í málinu er engu líkara en að iðnaðarráðherra hafi ekki áttað sig á því að framtíðarhlutverk verksmiðjunnar í förgun orkuríkra úrgangsefna getur verið afar mikilvægt fyrir íslenskt samfélag. Mörg slíkra úrgangsefna sem falla til í landinu, eins og t.d. úrgangsolíur, hjólbarðar og plastefni, valda minni mengun en kolin sem brennt er í verksmiðjunni í dag.

Framtíðarhlutverk sementsverksmiðjunnar.
    Í ljósi þess að þjóðum heimsins verður gert að koma sínum úrgangi fyrir á heimaslóðum í framtíðinni er alveg óskiljanlegt að ríkisstjórn Íslands skuli ekki eygja þá möguleika sem við Íslendingar höfum með framtíðarrekstri verksmiðjunnar á Akranesi. Ef iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin opna ekki augun fyrir því sem er í húfi munu Íslendingar síðar þurfa að leggja út í gríðarlegar fjárfestingar til að farga þessum úrgangi á viðunandi hátt. Slíkar förgunarstöðvar munu kosta mörg hundruð milljónir ef ekki milljarða króna. Í þessu máli getur skammsýnin verið dýr. Í máli Sementsverksmiðjunnar á Akranesi er því mikið í húfi. Annars vegar er um rótgróið og mikilvægt iðnfyrirtæki að ræða sem með umsvifum sínum og atvinnusköpun hefur verulega þýðingu. Hins vegar gæti ofn verksmiðjunnar gegnt stóru hlutverki við förgun orkuríkra úrgangsefna og þannig nýst vel í umhverfislegu tilliti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur þunga áherslu á hvort tveggja; að hlúa að fjölbreyttri iðnaðar- og atvinnustarfsemi og á sama tíma styðja umhverfisvernd og sjálfbæra þróun. Ríkið á sem eigandi verksmiðjunnar að styðja við bakið á henni í ójafnri samkeppni við hinn erlenda risa, vegna þess að þannig eru hagsmunir þjóðarinnar einfaldlega best tryggðir. Tilvist sementsverksmiðjunnar tryggir samkeppni hérlendis á sementsmarkaði, auk hagkvæmrar og umhverfisvænnar förgunar orkuríkra úrgangsefna. Til viðbótar áðurnefndum þingsályktunartillögum um málefni verksmiðjunnar höfum við lagt til að fjármálaráðherra verði heimilað að auka hlutafé verksmiðjunnar í fyrirtækinu um allt að 500 millj. króna. Á þá tillögu mun reyna í atkvæðagreiðslu eftir þriðju umræðu fjárlaga nk. föstudag.



Fylgiskjal III.

Jón Bjarnason:


Pólitíkin í fjárlagafrumvarpinu.


(Morgunblaðið, 15. október 2002.)



    Nú hefur nýtt fjárlagafrumvarp litið dagsins ljós og skapar það efni í umræður í fjölmiðlum og manna á meðal víðs vegar um landið. Umræðunni hættir þó til þess að festast við einstaka útgjaldaliði og nokkrar milljónir til eða frá. Það er að vísu góðra gjalda vert, en býður þeirri hættu heim að pólitíkin gleymist, þ.e. sú heildarstefnumörkun sem fjárlagafrumvarpið felur í sér. Sannleikurinn er sá að fjárlagafrumvarpið er pólitískt plagg. Þar birtist með skýrum hætti stefna stjórnarflokkanna sem tekur til þess hvernig tekna er aflað og hvernig þeim er varið. Um marga liði frumvarpsins eru þingmenn sammála, en um aðra ríkir ágreiningur. Og þar birtist hinn raunverulegi munur á milli stjórnmálaflokka sem kjósendur verða að glöggva sig á.

Velferðarstefna vinstri grænna.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á velferð og jöfnun lífskjara. Skattkerfinu á að beita til að afla hinu opinbera nægjanlegra tekna til að standa undir samneyslu þjóðfélagsins og öflugu velferðarkerfi. Skattastefnan á að fela í sér tekjujöfnun og að byrðunum sé dreift með sanngjörnum hætti. Í því sambandi er lögð áhersla á fjögur eftirfarandi atriði:
     1.      Að skattleysismörk fylgi launaþróun og lágtekjufólki og lífeyrisþegum verði hlíft við óhóflegri skattheimtu. Teknir verði upp stighækkandi skattar af launatekjum án þess að það feli í sér að heildarskattbyrði launafólks sé aukin.
     2.      Að fjármagnstekjur, þ.m.t. arðgreiðslur og söluhagnaður af hlutabréfum, umfram vexti af hóflegu sparifé verði skattlagðar til jafns við aðrar tekjur.
     3.      Að skattlagning á hreinum hagnaði fyrirtækja taki mið af skattlagningu launatekna.

Ríkisstjórn „burðarásanna“!
    Þegar litið er til skattastefnu þessarar ríkisstjórnar blasa allt aðrar áherslur við. Fjármagnseigendum, hátekjufólki og stórfyrirtækjum er ívilnað sérstaklega í skattheimtunni. Með skattbreytingunum á sl. vetri var tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 30% í 18%. Árið 2000 var tekjuskattur á hagnað fyrirtækja 9.679 millj. kr. eða 4,8% af heildarskatttekjum ríkissjóðs en árið 2003 er hann áætlaður 5.250 millj. kr. eða um 2% af heildarskatttekjum. Skattar á arðgreiðslur og fjármagnstekjur eru einungis 10% og nema tekjur ríkissjóðs af honum um 5 milljörðum króna. Hefur sá skattur staðið tölulega í stað sl. 3 ár. Sérstakur hátekjuskattur einstaklinga var lækkaður úr 7% í 5% auk þess sem grunntölur hans voru hækkaðar og er áætlaður 1,5 milljarðar á næsta ári og lækkar um 300 milljónir króna milli áranna.
    Ríkisstjórnarflokkarnir virðast trúa því að með því að veita völdum hópum einstaklinga og fyrirtækja sérstakt forskot muni verða hægt að byggja upp svokallaða „burðarása“ þjóðfélagsins, sem munu í krafti forréttinda sinna bera uppi atvinnulífið og þjónustuna og veiti þannig hluta þjóðarinnar ákveðna möguleika í skjóli sínu.

Skattbyrðin þyngd á ferðaþjónustu, frumvinnslu og nýsköpun.
    Skattheimta á atvinnulífinu felur líka í sér misskiptingu. Tryggingagjald sem er launatengdur skattur var hækkaður úr 4,34% í 4,84% og heimild er til að hækka hann enn meira eða í 5,11%. Nemur hækkun á milli ára 4 milljörðum króna eða nærri 17% hækkun. Þessi skattur leggst þyngst á þau fyrirtæki þar sem laun eru tiltölulega hátt hlutfall rekstrarkostnaðar. Þetta á við alla þjónustustarfsemi svo sem starfsemi sveitarfélaga, fyrirtæki í ferðaþjónustu og frumvinnslu, svo sem í fiskiðnaði og landbúnaði, og bitnar hart á litlum iðnfyrirtækjum. Þessi skattur bitnar harðast á sprotafyrirtækjum, einstaklings- og fjölskyldufyrirtækjum sem mörg hver berjast í bökkum og njóta því ekki skattalækkana á hagnað. Þessi skattur er óháður tekjum eða afkomu.

Lækkum skattbyrði lágtekjufólks og lífeyrisþega.
    Almennir tekjuskattar á einstaklinga voru liðlega 43 milljarðar árið 2000 en eru áætlaðir á næsta ári liðlega 63,5 milljarðar eða 20,5 milljarða króna hækkun. Miðað við nánast óbreyttar rauntölur á tekjutengdum sköttum einstaklinga milli áranna 2002 og 2003 hækkar hlutfallsleg skattbyrði á almennar launatekjur milli áranna um 10%. Skattleysismörkin hafa ekki fylgt launaþróuninni. Þetta þýðir að skattbyrði almenns launafólks eykst. Elli- og örorkulífeyrisþegar hafa rækilega fundið fyrir þessari stefnu ríkisstjórnarinnar er þeir verða að greiða sem nemur mánaðargreiðslum í skatta af árslífeyri sem hefur þó ekki haldið hlutfallslegu verðgildi á við almenna launaþróun í landinu.
    Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks velur þetta fólk til að bera aukinn hlut í skatttekjum ríkisins.

Velferðarstjórn.
    Hér verður að breyta um stefnu og setja velferð þjóðarinnar allrar í forgang. Fjárlögum ríkisins á að beita til að auka jöfnuð í samfélaginu. Stöðva þarf einkavæðingu almannaþjónustunnar. Beina þarf athyglinni til lítilla og meðalstórra fyrirtækja þar sem hugvit og framtak einstaklingsins fær notið sín, atvinnureksturs sem er í takt við íslenskar aðstæður og íslenskan veruleika og byggist á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna. Takist þetta mun eflast blómlegt atvinnulíf á raunsönnum grunni um allt land með velferð þegnanna allra að leiðarljósi.



Fylgiskjal IV.



Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2003, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Allar götur frá því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk lyklavöld í Stjórnarráðinu, fyrst með stuðningi Alþýðuflokks frá 1991 til 1995 og síðan Framsóknarflokks frá árinu 1995 og fram á þennan dag, hefur verið fylgt þeirri stefnu í skattamálum að flytja skattbyrðar af stöndugum fyrirtækjum og efnafólki yfir á launafólk. Jafnframt hafa margvísleg þjónustugjöld verið aukin og eru þar alvarlegastar álögur á sjúklinga, bæði vegna stóraukins lyfjakostnaðar og beinnar þátttöku þeirra við læknisverk.
    Tekjuhlið fjárlagafumvarps ríkisstjórnarinnar að þessu sinni er mjög í anda þessarar stefnu, tekjuskattar fyrirtækja lækka en þær skattaívilnanir sem fram koma í þágu launafólks hafa verið knúnar fram með félagslegum þrýstingi.
    Samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins má búast við því að áhrif skattkerfisbreytinga ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár verði eins og fram kemur í eftirfarandi töflu:*

M.kr.
Tekjuskattur fyrirtækja lækkar úr 30% í 18% 1. janúar 2002 ** -1.700
Sérstakur eignarskattur fyrirtækja fellur niður m.v. árslok 2002 -300
Eignarskattur fyrirtækja lækkar úr 1,2% í 0,6% m.v. árslok 2002 -700
Sérstakur eignarskattur einstaklinga fellur niður m.v. árslok 2002 -300
Eignarskattur einstaklinga lækkar úr 1,2% í 0,6% m.v. árslok 2002 -1.300
Tryggingagjald hækkar um 0,5% frá 1. janúar 2003 *** 1.800
Persónuafsláttur hækkar um 0,4% frá 1. janúar 2003 -230
Sérstakur tekjuskattur lækkar úr 7% í 5% frá 1. janúar 2003 -300
Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækkar 100
Áfengisgjald hækkar 300
Tóbaksgjald hækkar 800
Samtals -1.830
Athugasemdir:
* Hér er um nettóáhrif að ræða, þ.e. að teknu tilliti til áætlaðra veltubreytinga o.fl.
** Tekjuskattur samlagsfélaga og sameignarfélaga lækki úr 38% í 26% 1. janúar 2002.
*** Ríkissjóður undanskilinn.     

    Til glöggvunar á þeim miklu tilfærslum sem átt hafa sér stað í gegnum skattkerfið frá árinu 1991 og fram á þennan dag er birt hér tafla sem sýnir hvernig tekjuskattur fyrirtækja hefur þróast á þessu árabili í samanburði við tekjuskatta einstaklinga og skattleysismörk.



Skattur lag ð ur á

Vegna tekna ársins


Hf., %


Sf., %


Einstak- lingur, %


Þ ar af ríki, %

Þ ar af útsvar, %

Persónu-
afsláttur, kr.
Skattleysis-
mörk ellilífeyris-
þ ega, kr.
Skattleysis- mörk launamanns kr.
Hátekju-
skattur,
%
Hátekju-
mörk á mánu ð i, kr.
1990 1989 50 50 37,74 30,8 6,94 18.631 49.367 49.367
1991 1990 45 45 39,79 32,8 6,99 21.482 53.988 53.988
1992 1991 45 45 39,79 32,8 6,99 23.377 58.751 58.751
1993 1992 39 41 39,85 32,8 7,05 23.968 60.144 60.144
1994 1993 33 41 41,34 34,3 7,04 23.761 57.477 57.477 5 203.340
1995 1994 33 41 41,84 33,15 8,69 23.930 57.193 57.193 5 207.840
1996 1995 33 41 41,00 33,15 8,78 24.494 58.419 59.310 5 233.820
1997 1996 33 41 41,94 33,15 8,79 24.544 58.522 60.332 5 233.820
1998 1997 33 41 41,98 30,41 11,57 24.544 58.466 60.902 5 233.820
1998 1997 33 41 40,00 29,31 11,57 23.901 58.466 60.902 5 233.820
1999 1998 30 38 39,02 27,41 11,61 23.360 59.867 62.361 7 266.500
2000 1999 30 38 38,00 26,41 11,93 23.329 60.848 63.386 7 273.063
2000 2000 30 38 38,37 26,00 11,96 23.912 62.320 64.916 7 273.063
2001 2000 30 38 38,37 26,00 11,00 24.510 63.878 66.540 7 273.063
2002 2001 30 38 38,76 26,08 12,00 25.245 65.132 67.845 7 273.063
2003 2002 18 26 38,54 25,75 12,79 26.002 67.468 70.279 5 340.787
Heimild: Emb æ tti r íkisskattstj óra, a ð undanskildum útreikningi á skattleysism örkum.

    Allir gestir efnahags- og viðskiptanefndar sem voru í forsvari fyrir samtök launafólks, öryrkja og eldri borgara mótmæltu skattastefnu ríkisstjórnarinnar harðlega og sögðu að um hana mundi ekki ríkja neinn friður í samfélaginu. 2. minni hluti lýsir andstöðu við áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum en þær eru í anda þeirrar skattastefnu sem rekin hefir verið í landinu í rúman áratug.


Alþingi, 4. des. 2002.



Ögmundur Jónasson.