Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 443. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 615  —  443. mál.
Tillaga til þingsályktunarum staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 103/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 103/2002 frá 12. júlí 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/107/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), með það í huga að setja reglur um rekstrarfélög og einfaldaðar útboðslýsingar, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), að því er varðar fjárfestingar slíkra fyrirtækja.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 103/2002 frá 12. júlí 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/107/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), með það í huga að setja reglur um rekstrarfélög og einfaldaðar útboðslýsingar, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), að því er varðar fjárfestingar slíkra fyrirtækja.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirra tilskipana sem hér um ræðir. Gerðir þessar fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðunum sjálfum.
2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/107/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), með það í huga að setja reglur um rekstrarfélög og einfaldaðar útboðslýsingar, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), að því er varðar fjárfestingar slíkra fyrirtækja.
    Í tilskipun 2001/107/EB er bætt við heimild verðbréfasjóða til fjárfestinga í nokkrum öðrum eignum en framseljanlegum verðbréfum. Verðbréfasjóðum verður, samkvæmt tilskipuninni, heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða, bankainnstæðum, stöðluðum framvirkum samningum og valréttarsamningum. Sjóðir-sjóða (funds-of-funds) og innstæðusjóðir (cash-funds) munu falla undir gildissvið tilskipunarinnar. Nokkrar takmarkanir eru þó á fjárfestingum í hlutdeildarskírteinum og bankainnstæðum. Þannig mun skilgreiningin á UCITS-sjóðum víkka og munu fleiri tegundir sjóða heyra undir þann flokk.
    Í tilskipun 2001/108/EB eru eftirfarandi fjórar meginbreytingar á skipulagi rekstrar verðbréfasjóða:
     1.      Rekstrarfélag getur fengið heimild til að reka annars konar sjóði en verðbréfasjóði, t.d. lífeyrissjóði. Einnig er gert ráð fyrir að rekstrarfélagið geti veitt stoðþjónustu, t.d. ráðgjöf. Rekstrarfélag sem ræki lífeyrissjóð myndi heyra undir tilskipun um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta (Investment Services Directive) með þann hluta starfseminnar. Þannig gæti rekstrarfélag heyrt undir tvær tilskipanir með mismunandi þætti starfseminnar, eins og bankar heyra nú undir bankatilskipun með einn hluta starfseminnar og verðbréfaviðskiptatilskipunina með annan hluta.
     2.      Kveðið er skýrar á um hvaða verkefnum rekstrarfélag ber að sinna og um heimildir til að fela öðrum aðilum verkefni. Rekstrarfélag þarf ekki að sinna öllum verkefnum sjálft heldur getur fengið aðra til að sjá um tiltekna þætti rekstrarins, eins og markaðssetningu eða stjórnun fjárfestingarsamvals. Skal þó tekið fram að samkvæmt tilskipuninni er rekstrarfélagi aldrei heimilt að fela vörslufyrirtæki stjórnun fjárfestingarsamvals.
     3.      Rekstrarfélagið fær starfsleyfi og heimild til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu.
     4.      Að síðustu er gert ráð fyrir að komið verði á einföldum útboðslýsingum (simplified prospectus) sem þjóna fyrst og fremst hagsmunum smærri fjárfesta sem ekki hafa þá þekkingu sem þarf til að fara í gegnum ítarlegar útboðslýsingar.
    Stefnt er að því að leggja fram frumvarp til innleiðingar ákvæða tilskipananna á 128. löggjafarþingi.
    Samkvæmt efni tilskipananna er þeim ætlað að koma til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu eigi síðar en 13. ágúst 2003.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 103/2002

frá 12. júlí 2002

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2002 frá 25. júní 2002 ( 1 ).

2)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/107/EB frá 21. janúar 2002 um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), með það í huga að setja reglur um rekstrarfélög og einfaldaðar útboðslýsingar ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

3)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB frá 21. janúar 2002 um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), að því er varðar fjárfestingar slíkra fyrirtækja ( 3 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á IX. viðauka við samninginn:

1.     Eftirfarandi undirliðir bætist við í 30. lið (tilskipun ráðsins 85/611/EBE):

„-          32001 L 0107: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/107/EB frá 21. janúar 2002 (Stjtíð. EB L 41, 13.2.2002, bls. 20),

         32001 L 0108: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB frá 21. janúar 2002 (Stjtíð. EB L 41, 13.2.2002, bls. 35).“

2.     Orðunum „eins og henni var breytt með tilskipun 2001/108/EB“ skal bætt við í lok fjórða undirliðar í aðlögunarlið b) í lið 16a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/5/EB).

2. gr.

Texti tilskipana 2001/107/EB og 2001/108/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES- viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 13. júlí 2002, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 12. júlí 2002.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Gunnar Snorri Gunnarsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P.K. Mannes     M. BrinkmannFylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/107/EB

frá 21. janúar 2002

um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), með það í huga að setja reglur um rekstrarfélög og einfaldaðar útboðslýsingar


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Tilskipun ráðsins 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum ( 4 ) (verðbréfasjóði (UCITS)) hefur þegar stuðlað verulega að tilkomu innri markaðarins á þessu sviði því að þar er í fyrsta sinn á sviði fjármálaþjónustu sett meginreglan um gagnkvæma viðurkenningu á leyfum og önnur ákvæði sem auðvelda frjálsa dreifingu í Evrópusambandinu á hlutdeildarskírteinum fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu (fjárhaldssjóða (unit trusts)/sameignarsjóða eða fjárfestingarfélaga) sem sú tilskipun tekur til.
     2)      Í tilskipun 85/611/EBE eru þó ekki settar reglur til nokkurrar hlítar um félög sem annast rekstur á fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu (svokölluð „rekstrarfélög“). Í tilskipun 85/611/EBE eru t.d. ekki sett ákvæði sem tryggja að hliðstæðar reglur gildi um markaðsaðgang og rekstrarskilyrði slíkra félaga í öllum aðildarríkjunum. Í tilskipun 85/611/EBE eru ekki sett ákvæði um stofnun útibúa og frelsi þessara félaga til að veita þjónustu í öðrum aðildarríkjum en heimaaðildarríki sínu.

     3)      Leyfi, sem rekstrarfélagi er veitt í heimaaðildarríki sínu, ætti að tryggja vernd fjárfesta og gjaldhæfi rekstrarfélaga með það fyrir augum að stuðla að stöðugleika fjármálakerfisins. Markmiðið hefur verið að ná fram nauðsynlegri og nægilegri lágmarkssamræmingu til að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á leyfum og fyrirkomulagi á varfærniseftirliti sem gerir það að verkum að hægt er að gefa út eitt leyfi sem gildir í öllu Evrópusambandinu og láta heimaaðildarríkið annast eftirlit.

     4)      Til að vernda fjárfesta er nauðsynlegt að tryggja innra eftirlit í öllum rekstrarfélögum, einkum með því að hafa tvo stjórnendur og fullnægjandi innra eftirlitskerfi.

     5)      Til að tryggja að rekstrarfélagið geti rækt þær skyldur sem fylgja starfsemi þess og til að tryggja með þeim hætti stöðugleika þess er gerð krafa um stofnfé og eiginfjárviðbót. Til að taka mið af þeirri þróun sem á sér stað, einkum að því er varðar eiginfjárkröfur vegna rekstraráhættu í Evrópusambandinu og á alþjóðavettvangi að öðru leyti, þarf að endurskoða þessar kröfur, þ.m.t. notkun ábyrgða, innan þriggja ára.

     6)      Í krafti gagnkvæmrar viðurkenningar ber að heimila rekstrarfélögum með leyfi í heimaaðildarríki sínu að stunda þá þjónustustarfsemi, sem þau hafa leyfi fyrir, í öllu Evrópusambandinu með því að koma á fót útibúum eða á grundvelli frelsisins til að veita þjónustu. Það heyrir undir valdsvið heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins að samþykkja sjóðsreglur sameignarsjóða/ fjárhaldssjóða.

     7)      Að því er varðar sameiginlega stjórnun verðbréfasamvals (rekstur fjárhaldssjóða/sameignarsjóða og fjárfestingarfélaga) ætti leyfi, sem veitt er rekstrarfélagi með leyfi í heimaaðildarríki sínu, að gera félaginu kleift að stunda eftirfarandi starfsemi í gistiaðildarríkjum: að dreifa hlutdeildarskírteinum í samræmdum fjárhaldssjóðum/sameignarsjóðum sem reknir eru af félaginu í heimaaðildarríki þess; að dreifa hlutabréfum samræmdra fjárfestingarfélaga sem félagið rekur; að annast öll önnur störf og verkefni sem fylgja sameiginlegri stjórnun verðbréfasamvals; að stýra eignum fjárfestingarfélaga sem stofnuð eru í öðrum aðildarríkjum en heimaaðildarríki rekstrarfélagsins; að annast, á grundvelli umboða og fyrir hönd rekstrarfélaga sem stofnuð eru í öðrum aðildarríkjum en heimaaðildarríki rekstrarfélagsins, þau störf sem fylgja sameiginlegri stjórnun verðbréfasamvals.

     8)      Í meginreglunum um gagnkvæma viðurkenningu og eftirlit heimaaðildarríkis er gengið út frá því að lögbær yfirvöld aðildarríkjanna veiti ekki leyfi eða afturkalli leyfi þegar til að mynda efni starfsáætlana, landfræðileg staðsetning eða starfsemi, sem fer fram þá stundina, bendir ótvírætt til þess að rekstrarfélag hafi valið réttarkerfi tiltekins aðildarríkis til að komast hjá strangari ákvæðum sem gilda í aðildarríkinu þar sem það hefur í hyggju að reka eða rekur nú þegar stærstan hluta starfsemi sinnar. Samkvæmt þessari tilskipun ætti rekstrarfélag að hafa leyfi í aðildarríkinu þar sem það er með skráða skrifstofu. Í samræmi við meginregluna um eftirlit heimalands telst einungis aðildarríkið, þar sem rekstrarfélagið er með skráða skrifstofu, lögbært til að samþykkja sjóðsreglur fjárhaldssjóða/sameignarsjóða, sem slíkt félag stofnar, og val á vörslufyrirtæki [

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


 fjárvörslufyrirtæki]. Til að koma í veg fyrir eftirlitshögnun (supervisory arbitrage) og til að stuðla að tiltrú á skilvirkni eftirlits yfirvalda í heimaaðildarríkinu er rétt að sett sé það skilyrði fyrir leyfum til verðbréfasjóða að engar lagalegar hindranir standi í vegi fyrir að þau markaðssetji sig í heimaaðildarríki sínu. Þetta hefur ekki áhrif á frelsið til að ákveða, þegar verðbréfasjóði hefur á annað borð verið veitt leyfi, hvaða aðildarríki skal eða skulu valin fyrir markaðssetningu hlutdeildarskírteina hans í samræmi við þessa tilskipun.

     9)      Í tilskipun 85/611/EBE er starfssvið rekstrarfélaga takmarkað við rekstur fjárhaldssjóða/ sameignarsjóða og fjárfestingarfélaga (sameiginlega stjórnun verðbréfasamvals). Æskilegt er að endurskoða þessa takmörkun til að taka mið af þeirri þróun sem orðið hefur undanfarið í löggjöf aðildarríkjanna og gera slíkum félögum kleift að ná fram þeirri mikilvægu hagkvæmni sem felst í stórrekstri. Því er æskilegt að leyfa slíkum félögum að annast einnig stjórnun fjárfestingarsamvals fyrir einstaka viðskiptamenn (einstaklingsmiðuð stjórnun verðbréfasamvals), þ.m.t. rekstur lífeyrissjóða og önnur tiltekin viðbótarstarfsemi í tengslum við aðalstarfsemina. Slík útvíkkun á starfssviði rekstrarfélags ætti ekki að stofna stöðugleika slíkra félaga í hættu. Þó er rétt að setja sérstakar reglur til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra þegar rekstrarfélög hafa bæði heimild til að starfa við sameiginlega og einstaklingsmiðaða stjórnun verðbréfasamvals.

     10)      Stjórnun fjárfestingarsamvals er fjárfestingarþjónusta sem hefur þegar verið fjallað um í tilskipun ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( 1 ). Til að tryggja einsleitan lagaramma á þessu sviði er æskilegt að rekstrarfélög lúti þeim rekstrarskilyrðum sem mælt er fyrir um í þeirri tilskipun enda taka leyfi þeirra einnig til þessarar þjónustu.

     11)      Að jafnaði getur heimaaðildarríki sett strangari reglur en mælt er fyrir um í þessari tilskipun, einkum að því er varðar skilyrði fyrir leyfi, varfærniskröfur, reglur um skýrslugjöf og óstyttar útboðslýsingar.

     12)      Æskilegt er að settar verði reglur sem skilgreina forsendurnar fyrir því að rekstrarfélag megi, á grundvelli umboða, vista tiltekin verkefni og störf hjá þriðja aðila til að auka skilvirkni í rekstri starfseminnar. Til að tryggja rétta beitingu meginreglnanna um gagnkvæma viðurkenningu á leyfum og eftirlit heimalands skulu aðildarríki, sem leyfa slíka vistun verkefna, sjá til þess að rekstrarfélagið, sem þau veittu leyfi, feli ekki alla starfsemi sína einum eða fleiri þriðju aðilum og verði þar með að póstkassafyrirtæki og að umboðin komi ekki í veg fyrir skilvirkt eftirlit með rekstrarfélaginu. Þótt rekstrarfélagið hafi vistað verkefni sín hjá öðrum aðilum skal það í engum tilvikum hafa áhrif á skaðabótaábyrgð þess félags og vörslufyrirtækisins gagnvart eigendum hlutdeildarskírteina og lögbærum yfirvöldum.

     13)      Til að vernda hagsmuni hluthafa og tryggja jöfn samkeppnisskilyrði á markaðnum fyrir samræmd fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu er gerð krafa um að fjárfestingarfélög ráði yfir stofnfé. Að því er varðar fjárfestingarfélög sem hafa tilnefnt rekstrarfélög mun þessu skilyrði þó teljast fullnægt með eigin fé rekstrarfélagsins.

     14)      Fjárfestingarfélög, sem fengið hafa leyfi, skulu ávallt fara að ákvæðum 5. gr. g og 5. gr. h, annaðhvort beint, skv. 13. gr. b, eða óbeint því að kjósi fjárfestingarfélag með leyfi að tilnefna rekstrarfélag skal það rekstrarfélag hafa fengið leyfi í samræmi við tilskipunina og er þar af leiðandi skuldbundið til að fara að ákvæðum 5. gr g og 5. gr. h.

     15)      Æskilegt er að endurskoða núverandi upplýsingaramma, sem kveðið er á um í tilskipun 85/611/EBE, til að taka tillit til þróunar í upplýsingatækni. Einkum er æskilegt að taka upp nýja tegund útboðslýsinga fyrir verðbréfasjóði (einfaldaðar útboðslýsingar) til viðbótar við fyrirliggjandi, óstyttar útboðslýsingar. Þessi nýja tegund útboðslýsingar skal þannig úr garði gerð að hún sé fjárfestavæn og veiti almennum fjárfestum verðmætar upplýsingar. Í slíkri útboðslýsingu ber að veita helstu upplýsingar um viðkomandi verðbréfasjóð með skýrum, gagnorðum og auðskiljanlegum hætti. Fjárfestum skal þó ávallt tilkynnt, með viðeigandi yfirlýsingu í einfölduðu útboðslýsingunni, að ítarlegri upplýsingar séu veittar í óstyttri útboðslýsingu og í ársskýrslu og hálfsársskýrslu viðkomandi verðbréfasjóðs og að þessi skjöl standi þeim til boða endurgjaldslaust að ósk þeirra. Einfaldaða útboðslýsingin skal ávallt boðin áskrifendum endurgjaldslaust áður en samningur er gerður. Þetta nægir til að uppfylla þá lagaskyldu samkvæmt þessari tilskipun að veita áskrifendum upplýsingar áður en samningur er gerður.

     16)      Tryggja þarf jöfn samkeppnisskilyrði milli milliliða í fjármálaþjónustu, sem veita sömu þjónustu, og sjá til þess að fjárfestar njóti samræmdrar lágmarksverndar. Nauðsynleg forsenda þess að innri markaðnum verði komið á fyrir þessa aðila er lágmarkssamræming skilyrða fyrir því að hefja og reka slíka starfsemi. Því er aðeins hægt að ná settum markmiðum með bindandi tilskipun framkvæmdastjórnarinnar þar sem mælt er fyrir um samþykkta lágmarksstaðla í þessum efnum. Þessi tilskipun tekur aðeins til nauðsynlegrar lágmarkssamræmingar og gengur ekki lengra en þarf til að ná settum markmiðum í samræmi við þriðju málsgrein í 5. gr. sáttmálans.

     17)      Framkvæmdastjórnin getur tekið til athugunar að leggja fram tillögu um kerfisbálkun þegar þar að kemur eftir samþykkt tillagnanna.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 85/611/EBE er breytt sem hér segir:

1.     Eftirfarandi grein bætist við sem 1. gr. a:

     „1. gr. a

    Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem     hér segir:

    1.    „vörslufyrirtæki“: stofnun sem hefur verið falin þau störf sem um getur í 7. og 14. gr. og heyrir undir önnur ákvæði sem mælt er fyrir um í III. þætti a og IV. þætti a;

    2.    „rekstrarfélag“: öll félög sem annast rekstur verðbréfasjóða í formi fjárhaldssjóða/sameignarsjóða og/eða fjárfestingarfélaga (sameiginlega stjórnun verðbréfasamvals verðbréfasjóða), þ.m.t. sú starfsemi sem um getur í II. viðauka;

    3.    „heimaaðildarríki rekstrarfélags“: aðildarríkið þar sem rekstrarfélagið er með skráða skrifstofu;

    4.    „gistiaðildarríki rekstrarfélags“: aðildarríki sem er ekki heimaaðildarríki en þar sem rekstrarfélagið er með útibú eða veitir þjónustu;

    5.    „heimaaðildarríki verðbréfasjóðs“ merkir:

              a)    að því er varðar verðbréfasjóð sem er stofnsettur sem fjárhaldssjóður/sameignarsjóður, aðildarríkið þar sem rekstrarfélagið er með skráða skrifstofu,

              b)    að því er varðar verðbréfasjóð sem er stofnsettur sem fjárfestingarfélag, aðildarríkið þar sem fjárfestingarfélagið er með skráða skrifstofu;

    6.    „gistiaðildarríki verðbréfasjóðs“: aðildarríki sem er ekki heimaaðildarríki verðbréfasjóðsins en þar sem hlutdeildarskírteini sameignarsjóðsins/fjárhaldssjóðsins eða fjárfestingarfélagsins eru markaðssett;

    7.    „útibú“: starfsstöð sem er hluti af rekstrarfélagi, án réttarstöðu lögaðila, og veitir þá þjónustu sem rekstrarfélagið hefur fengið leyfi fyrir; allar starfsstöðvar, sem komið hefur verið á fót í einu aðildarríki á vegum rekstrarfélags, sem hefur höfuðstöðvar sínar í öðru aðildarríki, ber að telja sem eitt útibú;

    8.    „lögbær yfirvöld“: yfirvöld sem hvert aðildarríki tilnefnir skv. 49. gr. þessarar tilskipunar;

    9.    „náin tengsl“: þær aðstæður sem eru skilgreindar í 1. mgr. 2. gr. tilskipunar 95/26/EB ( *);

    10.    „virk eignarhlutdeild“: bein eða óbein eignarhlutdeild í rekstrarfélagi sem nemur 10% eða meira af höfuðstól eða atkvæðisrétti eða gerir það kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun rekstrarfélagsins.

            Í þessari skilgreiningu skal taka mið af atkvæðisréttinum sem um getur í 7. gr. tilskipunar 88/627/EBE ( **);

    11.    „tilskipunin um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta“: tilskipun ráðsins 93/22/ EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( ***);

    12.    „móðurfyrirtæki“: móðurfyrirtæki samkvæmt skilgreiningu í 1. og 2. gr. tilskipunar 83/349/EBE ( ****);

    13.    „dótturfyrirtæki“: dótturfyrirtæki samkvæmt skilgreiningu í 1. og 2. gr. tilskipunar 83/349/ EBE; einnig ber að líta á dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis sem dótturfyrirtæki móðurfyrirtækisins sem er höfuð þessara fyrirtækja;

    14.    „stofnfé“: eigið fé eins og það er skilgreint í 1. og 2. lið 2. mgr. 34. gr. tilskipunar 2000/12/EB ( *****);

    15.    „eigið fé“: eigið fé samkvæmt skilgreiningu í 1. þætti 2. kafla V. bálks tilskipunar 2000/12/EB. Þessari skilgreiningu er þó heimilt að breyta í þeim tilvikum sem lýst er í V. viðauka við tilskipun 93/6/EBE ( ******).


    ( *)    Stjtíð. EB L 168, 18.7.1995, bls. 7.
    ( **)    Stjtíð. EB L 348, 17.12.1988, bls. 62.
    ( ***)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/64/EB (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).
    ( ****)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
    ( *****)    Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/28/EB (Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 37).
    ( ******)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/33/EB (Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 29).“

2.    Í stað 3. mgr. 4. gr. komi eftirfarandi:

    „3. Lögbær yfirvöld mega ekki veita verðbréfasjóði leyfi ef rekstrarfélagið eða fjárfestingarfélagið uppfylla ekki skilyrðin sem mælt er fyrir um í III. og IV. þætti þessarar tilskipunar.

    Lögbær yfirvöld skulu heldur ekki veita verðbréfasjóði leyfi ef stjórnarmenn vörslufyrirtækisins fullnægja ekki skilyrðum um gott mannorð eða næga reynslu með tilliti til þeirrar tegundar verðbréfasjóðs sem ætlunin er að reka. Í því skyni verður tafarlaust að tilkynna lögbærum yfirvöldum um nöfn stjórnarmanna vörslufyrirtækisins og allra eftirmanna þeirra.

    Stjórnarmenn eru þeir sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum eru í fyrirsvari fyrir vörslufyrirtækið eða þeir sem raunverulega ákveða stefnu þess.

    3a. Lögbær yfirvöld skulu ekki veita verðbréfasjóði leyfi ef lagalegar hindranir (t.d. ákvæði í sjóðsreglum eða félagssamþykktum) standa í vegi fyrir að hann markaðssetji hlutdeildarskírteini sín eða hlutabréf í heimaaðildarríki sínu.“

3.    Í stað fyrirsagnar III. þáttar og 5. og 6. gr. komi eftirfarandi:

    „III. ÞÁTTUR

     Skyldur rekstrarfélaga

    Bálkur A

     Skilyrði fyrir að hefja starfsemi

     5. gr.

    1.     Rekstrarfélagi er ekki heimilt að hefja starfsemi fyrr en að fengnu opinberu leyfi frá lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins. Leyfi, sem rekstrarfélagi er veitt samkvæmt þessari tilskipun, skal gilda í öllum aðildarríkjunum.

    2.     Rekstrarfélög mega ekki stunda aðra starfsemi en rekstur verðbréfasjóða sem fengið hafa leyfi samkvæmt þessari tilskipun nema þegar um er að ræða viðbótarrekstur á öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu sem falla ekki undir þessa tilskipun og eru ástæða þess að rekstrarfélagið sætir varfærniseftirliti en sem ekki er hægt að markaðssetja í öðrum aðildarríkjum samkvæmt þessari tilskipun.

    Rekstur fjárhaldssjóða/sameignarsjóða og fjárfestingarfélaga tekur, að því er varðar þessa tilskipun, til þeirrar starfsemi sem skráð er í II. viðauka en skráin er ekki tæmandi.

    3.     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. geta aðildarríkin heimilað rekstrarfélögum að veita eftirtalda þjónustu til viðbótar við rekstur fjárhaldssjóða/sameignarsjóða og fjárfestingarfélaga:

    a)    stjórnun fjárfestingarsamvals, einnig í eigu lífeyrissjóða, á grundvelli sérstakra umboða frá einstökum fjárfestum ef viðkomandi fjárfestingarsamval inniheldur einn eða fleiri af gerningunum sem skráðir eru í B-þætti í viðaukanum við tilskipunina um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta,

    b)    sem viðbótarþjónustu:

            —    fjárfestingarráðgjöf um einn eða fleiri af gerningunum sem skráðir eru í B- þætti viðaukans við tilskipunina um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta,

             —    vörslu og umsýslu í tengslum við hlutdeildarskírteini fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu.

    Í engum tilvikum má veita rekstrarfélögum leyfi samkvæmt þessari tilskipun til að veita eingöngu þá þjónustu sem um getur í þessari málsgrein eða til að veita viðbótarþjónustu án þess að hafa leyfi fyrir þjónustunni sem um getur í a-lið.

    4.     Ákvæði 2. gr. (4. mgr.), 8. gr. (2. mgr.) og 10., 11. og 13. gr. tilskipunarinnar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta skulu gilda um þá þjónustu sem rekstrarfélög veita og um getur í 3. mgr. þessarar greinar.

     5. gr. a

    1.     Með fyrirvara um önnur almenn skilyrði í landslögum skulu lögbær yfirvöld ekki veita rekstrarfélagi leyfi nema:

    a)    stofnfé rekstrarfélagsins sé a.m.k. 125 000 evrur:

            —    Þegar verðmæti verðbréfasamvals rekstrarfélagsins er yfir 250 000 000 evrum skal rekstrarfélaginu skylt að hafa yfir að ráða eiginfjárviðbót. Þessi eiginfjárviðbót skal jafngilda 0,02% af þeirri fjárhæð sem nemur verðmæti verðbréfasamvals rekstrarfélagsins umfram 250 000 000 evrur. Heildarfjárhæð stofnfjár og eiginfjárviðbótar skal þó ekki vera hærri en 10 000 000 evrur.

            —    Að því er þessa málsgrein varðar skal eftirfarandi verðbréfasamval teljast verðbréfasamval rekstrarfélagsins:

                    i)    fjárhaldssjóðir/sameignarsjóðir sem rekstrarfélagið rekur, þ.m.t. verðbréfasamval, sem það hefur falið öðrum aðilum að stýra, en að undanskildu verðbréfasamvali sem því hefur verið falið að stýra;

                    ii)    fjárfestingarfélög sem rekstrarfélagið hefur verið tilnefnt fyrir sem rekstrarfélag;

                    iii)    önnur fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sem rekstrarfélagið rekur, þ.m.t. verðbréfasamval, sem það hefur falið öðrum aðilum að stýra, en að undanskildu verðbréfasamvali sem því hefur verið falið að stýra.

            —    Án tillits til fjárhæðar þessara krafna skal eigið fé rekstrarfélagsins aldrei vera undir þeirri fjárhæð sem mælt er fyrir um í IV. viðauka við tilskipun 93/6/EBE.

            —    Aðildarríkin geta heimilað rekstrarfélögum að hafa ekki yfir að ráða allt að 50% þeirrar eiginfjárviðbótar sem um getur í fyrsta undirlið ef þeir eru með ábyrgð frá lánastofnun eða vátryggingafyrirtæki sem nemur sömu fjárhæð. Lánastofnunin eða vátryggingafyrirtækið skal vera með skráða skrifstofu í aðildarríki eða í ríki utan bandalagsins svo fremi að það heyri undir varfærnisreglur sem lögbær yfirvöld telja jafngilda þeim sem mælt er fyrir um í lögum bandalagsins.

            —    Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 13. febrúar 2005, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um beitingu þessarar eiginfjárkröfu ásamt tillögu, ef við á, um endurskoðun hennar;

    b)    þeir sem í reynd stjórna rekstrarfélaginu fullnægi skilyrðum um gott mannorð eða næga reynslu, einnig með tilliti til þeirrar tegundar verðbréfasjóðs sem rekstrarfélagið rekur. Í því skyni verður tafarlaust að tilkynna lögbærum yfirvöldum um nöfn þessara einstaklinga og allra eftirmanna þeirra. Stefna rekstrarfélagsins skal mótuð af a.m.k. tveimur einstaklingum sem uppfylla þessi skilyrði;

    c)    starfsáætlun, þar sem stjórnskipulag rekstrarfélagsins, m.a., kemur fram, fylgi umsókn um leyfi;

    d)    aðalskrifstofa þess og skráð skrifstofa séu báðar í sama aðildarríki.

    2.     Ef náin tengsl eru fyrir hendi milli rekstrarfélags og annarra einstaklinga eða lögaðila skulu lögbær yfirvöld einungis veita leyfi ef sýnt er að þessi tengsl koma ekki í veg fyrir að yfirvöldin gegni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.

    Lögbær yfirvöld skulu jafnframt synja um leyfi ef lög og stjórnsýsluákvæði lands utan bandalagsins, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila sem rekstrarfélagið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að yfirvöldin gegni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.

    Lögbær yfirvöld skulu krefjast þess að rekstrarfélög veiti þeim nauðsynlegar upplýsingar svo þau geti gengið úr skugga um að jafnan sé farið að skilyrðunum sem um getur í þessari málsgrein.

    3.     Innan sex mánaða frá því að umsækjandi leggur fram fullbúna umsókn skal honum tilkynnt hvort leyfi hafi verið veitt eða ekki. Ef synjað er um leyfi skal tilgreina ástæður.

    4.     Rekstrarfélagi er heimilt að hefja starfsemi þegar í stað eftir að leyfi hefur verið veitt.

    5.     Lögbærum yfirvöldum er eingöngu heimilt að afturkalla leyfi sem veitt hefur verið rekstrarfélagi sem fellur undir þessa tilskipun ef félagið:

    a)    nýtir ekki leyfið innan tólf mánaða, afsalar sér skýlaust leyfinu eða hefur hætt starfseminni, sem heyrir undir þessa tilskipun, meira en sex mánuðum áður nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi kveðið á um að leyfi falli úr gildi í slíkum tilvikum;

    b)    hefur fengið leyfi með því að gefa rangar yfirlýsingar eða á annan ólögmætan hátt;

    c)    uppfyllir ekki lengur skilyrðin fyrir leyfisveitingu;

    d)    uppfyllir ekki lengur ákvæði tilskipunar 93/6/EBE og leyfið tekur einnig til einstaklingsmiðaðrar stjórnunar fjárfestingarsamvals sem um getur í a-lið 3. mgr. 5. gr. þessarar tilskipunar;

    e)    hefur brotið alvarlega og/eða ítrekað gegn ákvæðum sem samþykkt hafa verið samkvæmt þessari tilskipun; eða

    f)        fellur undir ákvæði í landslögum um afturköllun leyfis.

     5. gr. b

    1.     Lögbær yfirvöld skulu ekki veita rekstrarfélögum leyfi til að hefja starfsemi fyrr en þau hafa fengið upplýsingar um nöfn allra hluthafa eða félagsaðila sem ráða beint eða óbeint yfir virkri eignarhlutdeild sem einstaklingar eða lögaðilar, svo og hve stóran hlut þeir eiga.

    Lögbær yfirvöld skulu synja um leyfi ef þau telja áðurnefnda hluthafa eða aðila ekki hæfa, að teknu tilliti til að nauðsynlegt er að tryggja trausta og varfærna stjórnun rekstrarfélaga.

    2.     Ef um er að ræða útibú rekstrarfélaga sem hafa skráða skrifstofu utan Evrópusambandsins og eru að hefja starfsemi eða stunda þegar starfsemi skulu aðildarríkin ekki beita ákvæðum sem fela í sér hagstæðari kjör en þau útibú njóta sem hafa skráða skrifstofu í aðildarríkjunum.

    3.     Hafa skal samráð við lögbær yfirvöld viðkomandi aðildarríkis áður en rekstrarfélagi er veitt leyfi ef það er:

    a)    dótturfyrirtæki annars rekstrarfélags eða fjárfestingarfyrirtækis, lánastofnunar eða vátryggingafyrirtækis með leyfi í öðru aðildarríki, eða

    b)    dótturfyrirtæki móðurfyrirtækis annars rekstrarfélags eða fjárfestingarfyrirtækis, lánastofnunar eða vátryggingafyrirtækis með leyfi í öðru aðildarríki, eða

    c)    undir stjórn sama einstaklings eða lögaðila og stjórnar öðru rekstrarfélagi eða fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnun eða vátryggingafyrirtæki með leyfi í öðru aðildarríki.

    Bálkur B

     Samskipti við þriðju lönd     

     5. gr. c

    1.     Reglur um samskipti við þriðju lönd skulu vera í samræmi við viðeigandi reglur sem mælt er fyrir um í 7. gr. tilskipunarinnar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.

    Að því er varðar þessa tilskipun skulu orðin „fyrirtæki/fjárfestingarfyrirtæki“ í 7. gr. tilskipunarinnar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta túlkuð sem „rekstrarfélag“ og „rekstrarfélög“ og orðin „í fjárfestingarþjónustu“ í 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta skulu túlkuð sem „í þjónustu“.

    2.     Aðildarríkin skulu einnig tilkynna framkvæmdastjórninni um alla erfiðleika almenns eðlis sem verðbréfasjóðir eiga í við markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna í þriðja landi.

    Bálkur C

     Rekstrarskilyrði

     5. gr. d

    1.     Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rekstrarfélagsins skulu krefjast þess að rekstrarfélög, sem þau hafa veitt leyfi, uppfylli ávallt skilyrðin sem sett eru í 5. gr. og 1. og 2. mgr. 5. gr. a í þessari tilskipun. Eigið fé rekstrarfélags má ekki fara niður fyrir mörkin sem tilgreind eru í a-lið 1. mgr. 5. gr. a. Ef eigið fé fer samt niður fyrir mörkin geta lögbær yfirvöld veitt slíkum fyrirtækjum tiltekinn frest til úrbóta eða til að hætta starfsemi ef réttlætanlegt þykir.

    2.     Varfærniseftirlit með rekstrarfélagi skal vera á ábyrgð lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkisins hvort sem rekstrarfélagið stofnar útibú eða veitir þjónustu í öðru aðildarríki eða ekki, sbr. þó þau ákvæði þessarar tilskipunar sem fela yfirvöldum gistilandsins ábyrgðina á hendur.

     5. gr. e

    1.     Virk eignarhlutdeild í rekstrarfélögum skal heyra undir sömu reglur og mælt er fyrir um í 9. gr. tilskipunarinnar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.

    2.     Að því er varðar þessa tilskipun skulu orðin „fyrirtæki/fjárfestingarfyrirtæki“ í 9. gr. tilskipunarinnar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta túlkuð sem „rekstrarfélag“ og „rekstrarfélög“.

     5. gr. f

    1.     Hvert heimaaðildarríki skal semja varfærnisreglur sem rekstrarfélögum er ávallt skylt að fara eftir við rekstur verðbréfasjóða með leyfi samkvæmt þessari tilskipun.

    Einkum skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins, með hliðsjón af tegund þess verðbréfasjóðs sem viðkomandi rekstrarfélag rekur, krefjast þess að rekstrarfélagið:

    a)    hafi traust stjórnunar- og bókhaldsfyrirkomulag, eftirlits- og verndarfyrirkomulag á tölvuvinnslu gagna og fullnægjandi innra eftirlit, sem einkum tekur til reglna um einkaviðskipti starfsmanna þess eða reglna um eignarhlutdeild eða stjórnun fjárfestinga í fjármálaskjölum í þeim tilgangi að fjárfesta eigin fé, þannig að tryggt sé, m.a., að rekja megi uppruna allra viðskipta sem varða sjóðinn, hverjir séu aðilar að viðskiptunum, eðli viðskiptanna, hvenær og hvar þau áttu sér stað og að eignir fjárhaldssjóða/sameiginlegra sjóða eða fjárfestingarfélaga, sem rekstrarfélagið rekur, séu fjárfestar í samræmi við sjóðsreglur eða félagssamþykktir og gildandi lagaákvæði;

    b)    sé uppbyggt og skipulagt á þann hátt að dregið sé eins og hægt er úr þeirri hættu að hagsmunaárekstrar milli rekstrarfélagsins og viðskiptamanna þess, milli viðskiptamanna félagsins innbyrðis eða milli viðskiptamanns þess og verðbréfasjóðs eða milli tveggja verðbréfasjóða skaði hagsmuni verðbréfasjóðsins eða hagsmuni viðskiptamanna. Hins vegar, ef útibúi er komið á fót, má skipulagið ekki stríða gegn siðareglum sem gistiaðildarríkið hefur sett til að leysa hagsmunaárekstra.

    2.     Ef leyfi rekstrarfélags tekur einnig til einstaklingsmiðaðrar stjórnunar fjárfestingarsamvals eins og um getur í a-lið 3. mgr. 5. gr. skal félagið:

    —     ekki hafa leyfi til að fjárfesta allt samval eða hluta af samvali fjárfestis í hlutdeildarskírteinum fjárhaldssjóða/sameiginlegra sjóða eða fjárfestingarfélaga sem þau stjórna nema að fengnu leyfi viðskiptamannsins til þess,

    —    heyra undir ákvæðin, sem sett eru í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB frá 3. mars 1997 um bótakerfi fyrir fjárfesta ( *), að því er varðar þjónustuna sem um getur í 3. mgr. 5. gr.

     5. gr. g

    1.     Ef aðildarríkin heimila rekstrarfélögum að vista eitt eða fleiri af verkefnum sínum hjá þriðju aðilum í þeim tilgangi að gera starfsemi fyrirtækisins skilvirkari skal eftirfarandi skilyrðum fullnægt:

    a)    viðkomandi lögbært yfirvald skal fá tilkynningu þar að lútandi með viðeigandi hætti;

    b)    umboðið skal ekki hindra skilvirkt eftirlit með rekstrarfélaginu og einkum skal það ekki koma í veg fyrir að rekstrarfélagið starfi eða að viðkomandi verðbréfasjóður sé rekinn með hagsmuni fjárfestanna að leiðarljósi;

    c)    ef verkefni, sem vistað er hjá öðrum aðilum, varðar fjárfestingarstýringu er aðeins heimilt að veita fyrirtækjum umboð þegar leyfi þeirra eða skráning taka til eignastýringar og þau sæta varfærniseftirliti. Vistun verkefna verður að vera í samræmi við viðmiðanir um fjárfestingarráðstöfun sem rekstrarfélög ákveða með reglulegu millibili;

    d)    ef umboðið varðar fjárfestingarstýringu og er veitt fyrirtæki í þriðja landi skal samvinna viðkomandi eftirlitsyfirvalda vera tryggð;

    e)    ekki skal veita vörslufyrirtæki eða öðru fyrirtæki, sem kann að hafa hagsmuni sem fara í bága við hagsmuni rekstrarfélagsins eða eigenda hlutdeildarskírteina, umboð sem varðar þá grunnstarfsemi sem felst í fjárfestingarstýringu;

    f)        gera skal ráðstafanir sem gera þeim sem annast rekstur rekstrarfélagsins kleift að vakta starfsemi fyrirtækisins, sem fær umboðið, með skilvirkum hætti og hvenær sem er;

    g)    umboðið skal ekki koma í veg fyrir að þeir sem annast rekstur rekstrarfélagsins geti hvenær sem er gefið frekari fyrirmæli til fyrirtækisins, sem tiltekin verkefni hafa verið vistuð hjá, og afturkallað umboðið umsvifalaust ef það þjónar hagsmunum fjárfesta;

    h)    með hliðsjón af þeirri tegund verkefna sem ætlunin er að vista skal fyrirtækið, sem fela á verkefnið, hafa hæfi og færni til að annast umrædd verkefni; og

    i)        í útboðslýsingum verðbréfasjóðsins skal tilgreind sú starfsemi sem rekstrarfélaginu hefur verið heimilað að vista hjá öðrum.

    2.     Þótt rekstrarfélagið visti tiltekin verkefni hjá þriðju aðilum skal það í engum tilvikum hafa áhrif á ábyrgð rekstrarfélagins og vörslufyrirtækisins né skal rekstrarfélagið vista verkefni sín í þeim mæli að það endi sem póstkassafyrirtæki.

     5. gr. h

    Hvert aðildarríki skal semja siðareglur sem rekstrarfyrirtækjum með leyfi í því aðildarríki er ávallt skylt að fara eftir. Með slíkum reglum skal a.m.k. komið til framkvæmda meginreglunum sem eru settar í eftirfarandi undirliðum. Þessar meginreglur skulu tryggja að rekstrarfélag:

    a)    starfi á heiðarlegan og sanngjarnan hátt með hagsmuni verðbréfasjóðsins, sem það rekur, og heildarvirkni innri markaðarins að leiðarljósi;

    b)    annist viðskipti sín af kunnáttusemi, umhyggju og kostgæfni með hagsmuni verðbréfasjóðsins, sem það rekur, og heildarvirkni innri markaðarins að leiðarljósi;

    c)    hafi yfir að ráða og noti á skilvirkan hátt fjármuni og aðferðir sem þörf er á vegna starfseminnar;

    d)    reyni að forðast hagsmunaárekstra og, ef ekki er hjá þeim komist, láti verðbréfasjóðinn, sem það rekur, njóta sanngjarnrar meðferðar; og

    e)    fari að öllum gildandi ákvæðum um framkvæmd starfsemi sinnar til að tryggja sem best hagsmuni fjárfesta sinna og heildarvirkni innri markaðarins.

    Bálkur D

     Staðfesturéttur og frelsi til að veita þjónustu

     6. gr.

    1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að rekstrarfélög, sem lögbær yfirvöld annars aðildarríkis hafa veitt leyfi í samræmi við þessa tilskipun, geti stundað þá starfsemi á yfirráðasvæðum þeirra sem leyfið tekur til, annaðhvort með því að stofna útibú eða á grundvelli frelsisins til að veita þjónustu.

    2.     Aðildarríkjunum er óheimilt að krefjast leyfis, stofnframlags eða annarra sambærilegra ráðstafana vegna stofnunar útibús eða þjónustustarfsemi.

     6. gr. a

    1.     Auk þess að uppfylla skilyrðin í 5. gr. og 5. gr. a skal rekstrarfélag, sem óskar eftir að stofna útibú á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, tilkynna það lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki sínu.

    2.     Aðildarríkið skal krefja hvert rekstrarfélag, sem óskar eftir að stofna útibú á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, um eftirfarandi upplýsingar með tilkynningunni sem um getur í 1. mgr.:

    a)    á yfirráðasvæði hvaða aðildarríkis rekstrarfélagið hyggst stofna útibú;

    b)    starfsáætlun þar sem fram kemur fyrirhuguð starfsemi og þjónusta skv. 2. og 3. mgr. 5. gr. ásamt stjórnskipulagi útibúsins;

    c)    heimilisfang í gistiaðildarríkinu þar sem skjöl eru látin í té;

    d)    nöfn þeirra sem bera ábyrgð á stjórn útibúsins.

    3.     Ef lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki hafa ekki ástæðu til að efast um að stjórnskipulag eða fjárhagsstaða rekstrarfélags sé fullnægjandi, með tilliti til þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er, skulu þau innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna, sem um getur í 2. mgr., tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríkinu um þær og láta hlutaðeigandi rekstrarfélag vita. Þau skulu einnig senda nákvæmar upplýsingar um öll bótakerfi sem eru ætluð til að vernda fjárfesta.

    Neiti lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins að veita lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkisins upplýsingarnar sem um getur í 2. mgr. ber þeim að greina hlutaðeigandi rekstrarfélagi frá ástæðum fyrir synjuninni innan tveggja mánaða frá því að þeim hafa borist allar upplýsingar. Heimilt er að áfrýja til dómstóla í heimaaðildarríkinu ef um er að ræða synjun eða ef ekkert svar berst.

    4.     Áður en útibú rekstrarfélags hefur starfsemi og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að upplýsingarnar, sem um getur í 2. mgr., berast skulu lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis undirbúa eftirlit með rekstrarfélaginu og ef nauðsyn krefur tilgreina hvaða skilyrði, þ.m.t. þær reglur, sem um getur í 44. og 45. gr. og eru í gildi í gistiaðildarríkinu, og siðareglur viðvíkjandi stjórnun fjárfestingarsamvals, sem um getur í 3. mgr. 5. gr., ásamt fjárfestingarráðgjöf og vörslu, skuli gilda um starfsemina í gistiaðildarríkinu svo almennra hagsmuna sé gætt.

    5.     Þegar tilkynning berst frá lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkisins, eða hafi frestur sá sem kveðið er á um í 4. mgr. runnið út án þess að tilkynning hafi borist frá þeim, má stofna útibúið og hefja starfsemi. Frá þeirri stundu er rekstrarfélaginu einnig heimilt að hefja dreifingu hlutdeildarskírteina fjárhaldssjóða/sameignarsjóða og fjárfestingarfélaga sem það rekur og heyra undir þessa tilskipun nema lögbær yfirvöld í gistiaðildarríkinu taki um það rökstudda ákvörðun, fyrir lok þessa tveggja mánaða frests, sem tilkynna skal lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins, að ráðstafanir, sem gerðar hafa verið viðvíkjandi markaðssetningu hlutdeildarskírteinanna, samræmist ekki ákvæðunum sem um getur í 1. mgr. 44. gr. og í 45. gr.

    6.     Ef breytingar verða á einstökum atriðum sem tilkynnt eru skv. b-, c- eða d-lið 2. mgr. skal rekstrarfélag tilkynna lögbærum yfirvöldum heima- og gistiaðildarríkjanna skriflega um breytinguna, a.m.k. mánuði áður en hún er gerð, til að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins geti tekið ákvörðun um breytinguna skv. 3. mgr. og lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins geti gert það sama skv. 4. mgr.

    7.     Ef breytingar verða á einstökum atriðum sem tilkynnt eru samkvæmt fyrstu undirgrein 3. mgr. skulu yfirvöld heimaaðildarríkisins tilkynna það yfirvöldum gistiaðildarríkisins.

     6. gr. b

    1.     Hvert það rekstrarfélag, sem í fyrsta sinn óskar eftir að stunda starfsemi á yfirráðasvæði annars aðildarríkis á grundvelli frelsisins til að veita þjónustu, skal koma eftirfarandi upplýsingum til lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkisins:

    a)    á yfirráðasvæði hvaða aðildarríkis rekstrarfélagið hyggst starfa;

    b)    starfsáætlun þar sem fram kemur fyrirhuguð starfsemi og þjónusta sem um getur í 2. og 3. mgr. 5. gr.

    2.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins skulu innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar, sem um ræðir í 1. mgr., senda hana lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríkinu.

    Þau skulu einnig senda nákvæmar upplýsingar um öll bótakerfi sem í gildi eru og ætluð eru til að vernda fjárfesta.

    3.     Rekstrarfélaginu er síðan heimilt að hefja starfsemi í gistiaðildarríkinu þrátt fyrir ákvæði 46. gr.

    Þegar við á skulu lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins tilkynna rekstrarfélaginu, þegar þeim berast upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr., um þau skilyrði, þ.m.t. siðareglur viðvíkjandi stjórnun fjárfestingarsamvals, sem um getur í 3. mgr. 5. gr., ásamt fjárfestingarþjónustu og vörslu, sem rekstrarfélaginu ber að hlíta í gistiaðildarríkinu svo að almennra hagsmuna sé gætt.

    4.     Ef breytingar eru gerðar á efni upplýsinganna sem komið er á framfæri í samræmi við b-lið 1. mgr. skal rekstrarfélagið tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins og gistiaðildarríkisins skriflega um breytinguna áður en hún er gerð svo að lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins geti, ef þörf krefur, tilkynnt fyrirtækinu um allar breytingar og viðbætur við upplýsingarnar sem komið er á framfæri skv. 3. mgr.

    5.     Rekstrarfélag skal einnig heyra undir þá tilkynningareglu sem mælt er fyrir um í þessari grein þegar það felur þriðja aðila markaðssetningu hlutdeildarskírteinanna í gistiaðildarríki.

     6. gr. c

    1.     Gistiaðildarríki geta krafist þess, vegna hagskýrslugerðar, að öll rekstrarfélög með útibú á yfirráðasvæði þeirra gefi lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríkjunum reglulega skýrslu um starfsemi sína í gistiaðildarríkjunum.


    2.     Gistiaðildarríkin geta, er þau inna af hendi skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun, krafist þess að útibú rekstrarfélaga veiti sömu upplýsingar og krafist er af innlendum rekstrarfélögum í þessum tilgangi.

    Gistiaðildarríkin geta krafist þess að rekstrarfélög, sem stunda starfsemi sína á yfirráðasvæði þeirra á grundvelli frelsisins til að veita þjónustu, veiti nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að hafa eftirlit með því hvort þau fari að settum reglum í gistiaðildarríkinu sem gilda um þau. Þó mega þessar kröfur ekki vera strangari en þær sem sama aðildarríki gerir til rekstrarfélaga, sem hafa þar staðfestu, til að hafa eftirlit með því hvort þau fari að sömu reglum.

    3.     Ef lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki komast að raun um að rekstrarfélag, sem hefur útibú eða veitir þjónustu á yfirráðasvæði þess, fer ekki að ákvæðum laga eða reglna, sem það ríki hefur samþykkt samkvæmt þeim ákvæðum þessarar tilskipunar sem veita lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríkinu valdheimildir, skulu þau hin sömu yfirvöld krefjast þess að hlutaðeigandi rekstrarfélag fari að settum reglum.

    4.     Hafi rekstrarfélagið ekki gert nauðsynlegar ráðstafanir ber lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríkinu að tilkynna það lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríkinu. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins skulu við fyrsta tækifæri gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hlutaðeigandi rekstrarfélag fari að settum reglum. Tilkynna ber lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríkinu hvers eðlis þær ráðstafanir eru.

    5.     Haldi hlutaðeigandi rekstrarfélag áfram að brjóta þau ákvæði laga og reglna, sem um getur í 2. mgr. og eru í gildi í gistiaðildarríkinu, þrátt fyrir ráðstafanir sem heimaaðildarríkið gerir eða vegna þess að þær reynast ófullnægjandi eða eru ekki fyrir hendi í hlutaðeigandi aðildarríki, getur gistiaðildarríkið, eftir að hafa skýrt lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríkinu frá því, gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða refsa fyrir frekari brot á reglum og, að svo miklu leyti sem nauðsyn krefur, hindrað að rekstrarfélagið hefji frekari starfsemi á yfirráðasvæði þess. Aðildarríkin skulu tryggja á yfirráðasvæðum sínum að unnt sé að birta rekstrarfélögum nauðsynleg lagaskjöl vegna þessara ráðstafana.

    6.     Framangreind ákvæði hafa ekki áhrif á vald gistiaðildarríkja til að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða refsa fyrir brot gegn reglugerðarákvæðum sem þau hafa sett í þágu almennra hagsmuna á yfirráðasvæðum sínum. Þetta skal fela í sér möguleika á því að koma í veg fyrir að rekstrarfélög, sem hafa gerst brotleg, hefji frekari viðskipti á yfirráðasvæðum þeirra.

    7.     Allar ráðstafanir, sem gripið er til skv. 4., 5. og 6. mgr. og fela í sér refsingar eða takmarkanir á starfsemi rekstrarfélags, verða að vera rökstuddar og þær ber að tilkynna hlutaðeigandi rekstrarfélagi. Öllum slíkum ráðstöfunum má skjóta til dómstóla í aðildarríkinu sem samþykkti þær.

    8.     Áður en lögbær yfirvöld gistiaðildarríkis fylgja málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í 3., 4. og 5. mgr. geta þau gert nauðsynlegar varúðarráðstafanir í bráðatilvikum til að vernda hagsmuni fjárfesta og annarra sem veitt er þjónusta. Tilkynna ber framkvæmdastjórninni og lögbærum yfirvöldum annarra hlutaðeigandi aðildarríkja um slíkar ráðstafanir við fyrsta tækifæri.

    Framkvæmdastjórnin getur ákveðið, eftir samráð við lögbær yfirvöld hlutaðeigandi aðildarríkja, að viðkomandi aðildarríki skuli breyta þessum ráðstöfunum eða afturkalla þær.

    9.     Ef leyfi er afturkallað skal tilkynna það lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkisins sem gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hlutaðeigandi rekstrarfélag hefji frekari viðskipti á yfirráðasvæði gistiaðildarríkisins og til að tryggja hagsmuni fjárfesta. Framkvæmdastjórnin skal gefa tengslanefndinni, sem komið var á fót skv. 53. gr., skýrslu um slík tilvik annað hvert ár.

    10.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni hve oft og í hvers konar tilvikum synjað er um leyfi skv. 6. gr. a eða hvenær gerðar hafa verið ráðstafanir í samræmi við 5. mgr. Framkvæmdastjórnin skal gefa tengslanefndinni, sem komið var á fót skv. 53. gr., skýrslu um slík tilvik annað hvert ár.


    ( *)     Stjtíð. EB L 84, 26.3.1997, bls. 22.“

4.     Eftirfarandi texti komi á undan 7. gr.:

    „III. ÞÁTTUR a

     Skyldur vörslufyrirtækja“.

5.    Í stað fyrirsagnar IV. þáttar og 12. gr. komi eftirfarandi:

    „IV. ÞÁTTUR

     Skyldur fjárfestingarfélaga

    Bálkur A

     Skilyrði fyrir að hefja starfsemi

     12. gr.

    Fjárfestingarfélagi er ekki heimilt að hefja starfsemi fyrr en að fengnu opinberu leyfi frá lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins.

    Aðildarríkin skulu ákveða hvert skuli vera rekstrarform fjárfestingarfélags að lögum.“.

6.    Eftirfarandi greinar komi á eftir 13. gr.:

     „13. gr. a

    1.     Með fyrirvara um önnur almenn skilyrði í landslögum skulu lögbær yfirvöld ekki veita fjárfestingarfélagi, sem hefur ekki tilnefnt rekstrarfélag, leyfi nema fjárfestingarfélagið hafi nægilegt stofnfé, að fjárhæð a.m.k. 300 000 evrur.

    Enn fremur, hafi fjárfestingarfélag ekki tilnefnt rekstrarfélag með leyfi samkvæmt þessari tilskipun:

    —    skal ekki veita leyfið nema starfsáætlun, þar sem stjórnskipulag fjárfestingarfélagsins, m.a., kemur fram, fylgi umsókn um leyfi;

    —    skulu stjórnarmenn fjárfestingarfélagsins fullnægja skilyrðum um gott mannorð og næga reynslu, einnig með tilliti til þeirrar tegundar starfsemi sem fjárfestingarfélagið stundar. Í því skyni verður tafarlaust að tilkynna lögbærum yfirvöldum um nöfn stjórnarmanna og allra eftirmanna þeirra. Stefna fjárfestingarfélagsins skal mótuð af a.m.k. tveimur einstaklingum sem uppfylla þessi skilyrði. Stjórnarmenn eru þeir sem samkvæmt lögum eða félagssamþykktum sjóðsins eru í fyrirsvari fyrir fjárfestingarfélagið eða þeir sem raunverulega ákveða stefnu hans;

    —    ef náin tengsl eru þar að auki fyrir hendi milli fjárfestingarfélags og annarra einstaklinga eða lögaðila skulu lögbær yfirvöld einungis veita leyfi ef sýnt er að þessi tengsl koma ekki í veg fyrir að yfirvöldin gegni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.

    Lögbær yfirvöld skulu jafnframt synja um leyfi ef lög og stjórnsýsluákvæði lands utan bandalagsins, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila, sem fjárfestingarfélagið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að yfirvöldin gegni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.

    Lögbær yfirvöld skulu krefjast þess að fjárfestingarfélög veiti þeim nauðsynlegar upplýsingar.

    2.     Innan sex mánaða frá því að umsækjandi leggur fram fullbúna umsókn skal honum tilkynnt hvort leyfi hafi verið veitt eða ekki. Ef synjað er um leyfi skal tilgreina ástæður.

    3.     Fjárfestingarfélagi er heimilt að hefja starfsemi þegar í stað eftir að leyfi hefur verið veitt.

    4.     Lögbærum yfirvöldum er eingöngu heimilt að afturkalla leyfi sem veitt hefur verið fjárfestingarfélagi sem fellur undir þessa tilskipun ef félagið:

    a)    nýtir ekki leyfið innan tólf mánaða, afsalar sér skýlaust leyfinu eða hefur hætt starfseminni, sem heyrir undir þessa tilskipun, meira en sex mánuðum áður nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi kveðið á um að leyfi falli úr gildi í slíkum tilvikum;

    b)    hefur fengið leyfi með því að gefa rangar yfirlýsingar eða á annan ólögmætan hátt;

    c)    uppfyllir ekki lengur skilyrðin fyrir leyfisveitingu;

    d)    hefur brotið alvarlega og/eða ítrekað gegn ákvæðum sem samþykkt hafa verið samkvæmt þessari tilskipun; eða

    e)    fellur undir ákvæði í landslögum um afturköllun leyfis.

    Bálkur B

     Rekstrarskilyrði

     13. gr. b

    Ákvæði 5. gr. g og 5. gr. h skulu gilda um fjárfestingarfélög sem hafa ekki tilnefnt rekstrarfélag sem fengið hefur leyfi samkvæmt þessari tilskipun. Að því er varðar þessa grein skal hugtakið „rekstrarfélag“ túlkað sem „fjárfestingarfélag“.

    Fjárfestingarfélögum er aðeins heimilt að stýra eignum í eigin verðbréfasamvali og mega í engum tilvikum taka við umboði um eignastýringu fyrir hönd þriðja aðila.

     13. gr. c

    Hvert heimaaðildarríki skal semja varfærnisreglur sem fjárfestingarfélögum, sem hafa ekki tilnefnt rekstrarfélag sem fengið hefur leyfi samkvæmt þessari tilskipun, er ávallt skylt að fara eftir.

    Einkum skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins, með hliðsjón af tegund fjárfestingarfélagsins, krefjast þess að rekstrarfélagið hafi traust stjórnunar- og bókhaldsfyrirkomulag, eftirlits- og verndarfyrirkomulag á tölvuvinnslu gagna og fullnægjandi innra eftirlit, sem einkum tekur til reglna um einkaviðskipti starfsmanna þess eða reglna um eignarhlutdeild eða stjórnun fjárfestinga í fjármálaskjölum í þeim tilgangi að fjárfesta eigin stofnfé, þannig að tryggt sé, m.a., að rekja megi uppruna allra viðskipta sem varða fyrirtækið, hverjir séu aðilar að viðskiptunum, eðli viðskiptanna, hvenær og hvar þau áttu sér stað og að eignir fjárfestingarfélagsins séu fjárfestar í samræmi við félagssamþykkir og gildandi lagaákvæði.“

7.    Eftirfarandi texti komi á undan 14. gr.:

    „IV. ÞÁTTUR a

     Skyldur vörslufyrirtækja“.

8.    Í stað 1. mgr. 27. gr. komi eftirfarandi:

    „1.     Fjárfestingarfélag og, fyrir hvern fjárhaldssjóð og sameignarsjóð sem það rekur, rekstrarfélag skal gefa út:

    —    einfaldaða útboðslýsingu,

    —    óstytta útboðslýsingu,

    —    ársskýrslu fyrir hvert fjárhagsár, og

    —    hálfsársskýrslu sem nær yfir fyrstu sex mánuði fjárhagsársins.“

9.    Í stað 28. gr. komi eftirfarandi:

     „28. gr.

    1.     Bæði einfaldaðar og óstyttar útboðslýsingar skulu hafa að geyma þær upplýsingar sem fjárfestum eru nauðsynlegar til þess að geta metið af þekkingu þá fjárfestingu sem þeim er boðin og einkum þá áhættu sem henni fylgir. Í síðarnefndu útboðslýsingunni skal, óháð skjölunum sem fjárfest er í, gerð grein fyrir áhættustefnu sjóðsins með skilmerkilegum og auðskiljanlegum hætti.

    2.     Óstytt útboðslýsing skal a.m.k. hafa að geyma þær upplýsingar sem kveðið er á um í fylgiskjali A með I. viðauka við þessa tilskipun hafi þær upplýsingar ekki þegar komið fram í sjóðsreglum eða félagssamþykktum sem fylgja skulu óstyttri útboðslýsingu skv. 1. mgr. 29. gr.

    3.     Í einfölduðu útboðslýsingunni skulu koma fram í stuttu máli helstu upplýsingar í fylgiskjali C með I. viðauka við þessa tilskipun. Hún skal sett fram og rituð með þeim hætti að hún sé auðskiljanleg almennum fjárfestum. Aðildarríkin geta heimilað að einfölduð útboðslýsing sé látin fylgja óstyttri útboðslýsingu en þannig að unnt sé að skilja þær í sundur. Nota má einfölduðu útboðslýsinguna sem tæki til markaðssetningar í öllum aðildarríkjunum án annarra breytinga en þýðingar. Aðildarríkin geta því ekki gert kröfur um frekari skjöl og upplýsingar.

    4.     Bæði óstytt og einfölduð útboðslýsing geta verið skriflegt skjal eða á varanlegum miðli sem lögbær yfirvöld samþykkja sem jafngildan því að lögum.

    5.     Ársskýrslan skal hafa að geyma efnahagsreikning eða yfirlit um eignir og skuldir, sundurliðaðan rekstrarreikning fyrir reikningsárið, skýrslu um starfsemi á reikningsárinu og þær upplýsingar aðrar sem kveðið er á um í fylgiskjali B með I. viðauka við tilskipun þessa, svo og aðrar upplýsingar sem máli skipta og gera fjárfestum kleift að meta af þekkingu framvinduna í starfsemi verðbréfasjóðsins og árangur starfseminnar.

    6.     Hálfsársskýrslan skal a.m.k. hafa að geyma upplýsingar þær sem kveðið er á um í I.–IV. kafla fylgiskjals B með I. viðauka við tilskipun þessa; þegar verðbréfasjóður hefur greitt eða fyrirhugar að greiða út árshlutaarð skulu tölulegar upplýsingar sýna afkomu eftir skatt á því sex mánaða tímabili, sem um er að ræða, og þann árshlutaarð sem greiddur hefur verið eða fyrirhugað er að greiða.“

10.    Í stað 29. gr. komi eftirfarandi:

     „29. gr.

    1.     Sjóðsreglur eða félagssamþykktir fjárfestingarfélags skulu vera hluti óstyttrar útboðslýsingar og fylgja henni.

    2.     Gögnin, sem um getur í 1. mgr., þurfa þó ekki að fylgja óstyttri útboðslýsingu enda sé eigendum hlutdeildarskírteina tilkynnt að þeim verði send gögnin ef þeir óska þess eða skýrt frá því hvar þau liggja frammi til athugunar í hverju aðildarríki þar sem hlutdeildarskírteinin eru markaðssett.“

11.    Í stað 30. gr. komi eftirfarandi:

     „30. gr.

    Grundvallaratriði einfaldaðrar og óstyttrar útboðslýsingar skulu uppfærð reglulega.“

12.    Í stað 32. gr. komi eftirfarandi:

     „32. gr.

    Verðbréfasjóður skal senda einfaldaðar og óstyttar útboðslýsingar sínar og breytingar á þeim ásamt ársskýrslu og hálfsársskýrslu til lögbærra yfirvalda.“

13.    Í stað 33. gr. komi eftirfarandi:

     „33. gr.

    1.     Einfaldaða útboðslýsingin skal boðin áskrifendum endurgjaldslaust áður en samningur er gerður.

    Að auki skal láta áskrifendum endurgjaldslaust í té óstytta útboðslýsingu og síðustu ársskýrslu og hálfsársskýrslu sé þess óskað.

    2.     Eigendum hlutdeildarskírteina skulu látnar í té ársskýrsla og hálfsársskýrsla endurgjaldslaust sé þess óskað.

    3.     Ársskýrsla og hálfsársskýrsla skulu tiltækar almenningi á þeim stöðum, sem nefndir eru í óstyttu og einfölduðu útboðslýsingunni, eða með öðrum hætti sem lögbær yfirvöld samþykkja.“

14.    Í stað 35. gr. komi eftirfarandi:

     „35. gr.

    Í öllu kynningarefni, sem felur í sér tilboð um kaup á hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóðsins, skal geta þess að útboðslýsingar séu til og hvar eða hvernig almenningur geti fengið þær.“

15.    Í stað 46. gr. komi eftirfarandi:

     „46. gr.

    Hafi verðbréfasjóður í hyggju að markaðssetja hlutdeildarskírteini sín í öðru aðildarríki en hann hefur aðsetur í skal hann fyrst tilkynna það lögbærum yfirvöldum þess aðildarríkis. Samtímis skal hann senda þessum yfirvöldum:

    —    staðfestingu lögbærra yfirvalda á því að hann uppfylli þau skilyrði sem sett eru í tilskipun þessari,

    —    sjóðsreglur sínar eða félagssamþykktir,

    —    óstytta og einfaldaða útboðslýsingu sína,

    —    síðustu ársskýrslu ásamt eftirfarandi hálfsársskýrslu þegar við á, og

    —    upplýsingar um einstök atriði varðandi tilhögun markaðssetningar hlutdeildarskírteina í hinu aðildarríkinu.

    Fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu eða rekstrarfélag má hefja markaðssetningu hlutdeildarskírteina sinna í hinu aðildarríkinu þegar tveir mánuðir eru liðnir frá slíkri tilkynningu nema stjórnvöld hlutaðeigandi aðildarríkis komist með rökstuddum úrskurði að raun um, áður en tveggja mánaða fresturinn er liðinn, að undirbúningur að markaðssetningu hlutdeildarskírteina fullnægi ekki þeim ákvæðum sem um getur í 1. mgr. 44. gr. og 45. gr.“

16.    Í stað 47. gr. komi eftirfarandi:

     „47. gr.

    Ef verðbréfasjóður markaðssetur hlutdeildarskírteini sín í öðru aðildarríki en hann hefur aðsetur í verður hann að dreifa óstyttri og einfaldaðri útboðslýsingu, ársskýrslu og hálfsársskýrslu og öðrum upplýsingum, sem kveðið er á um í 29. og 30. gr., í því aðildarríki samkvæmt sömu málsmeðferð og kveðið er á um í heimaaðildarríkinu.

    Þessi skjöl skulu látin í té á opinberu tungumáli eða einu af opinberum tungumálum gistiaðildarríkisins eða á tungumáli sem lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins viðurkenna.“

17.    Eftirfarandi greinar komi á eftir 52. gr.:

     „52. gr. a

    1.     Ef rekstrarfélag starfar í einu eða fleiri gistiaðildarríkjum með því að veita þjónustu eða með því að koma á fót útibúum skulu lögbær yfirvöld í öllum viðkomandi aðildarríkjum hafa með sér náið samstarf.

    Þau skulu samkvæmt beiðni veita hvert öðru allar upplýsingar varðandi stjórnun og eignarhald slíkra rekstrarfélaga, sem geta auðveldað eftirlit með þeim, og allar upplýsingar sem kunna að auðvelda vöktun þessara félaga. Einkum skulu yfirvöld heimaaðildarríkisins vinna saman til að tryggja að yfirvöld gistiaðildarríkjanna afli upplýsinganna sem um getur í 2. mgr. 6. gr. c.

    2.     Ef nauðsyn krefur vegna beitingar eftirlitsheimilda skulu lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins um allar ráðstafanir sem gistiaðildarríkið gerir skv. 6. mgr. 6. gr. c sem hafa í för með sér refsiaðgerðir gagnvart rekstrarfélagi eða takmarkanir á starfsemi rekstrarfélagsins.

     52. gr. b

    1.     Gistiaðildarríki skulu sjá til þess, ef rekstrarfélag með leyfi í öðru aðildarríki stundar starfsemi á yfirráðasvæði þeirra með útibúi, að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins eða milligöngumenn, sem þau velja til þess, geti sjálf sannprófað á staðnum upplýsingarnar, sem um getur í 52. gr. a, eftir að hafa skýrt lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríkinu frá því.

    2.     Lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis rekstrarfélagsins er einnig heimilt að fara fram á það við lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki rekstrarfélagsins að þau annist slíka sannprófun. Yfirvöld, sem fá slíka beiðni, skulu bregðast við henni á grundvelli valdheimilda sinna, annaðhvort með því að annast sannprófunina sjálf eða með því að leyfa yfirvöldunum, sem lögðu beiðnina fram, eða endurskoðendum eða sérfræðingum að annast hana.

    3.     Þessi grein hefur ekki áhrif á rétt lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríkinu til að hafa eftirlit á staðnum með útibúum sem stofnuð eru á yfirráðasvæði þeirra þegar þau rækja skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun.“

18.    Viðaukinn við tilskipun 85/611/EBE skal endurtölusettur sem I. viðauki.

19.    Fylgiskjali A með I. viðauka er breytt sem hér segir:

    1.    Eftirfarandi bætist við eftir lið 1.2 í dálknum „Upplýsingar um fjárfestingarfélag“:

            „1.3.    Þegar um er að ræða fjárfestingarfélög með aðgreindar fjárfestingardeildir skal tilgreina deildirnar.“

    2.    Eftirfarandi málsliður bætist við í lið 1.13 í dálknum „Upplýsingar um fjárfestingarfélag“:

            „Þegar um er að ræða fjárfestingarfélag með aðgreindar fjárfestingardeildir skal greina frá því hvernig eigandi hlutdeildarskírteina getur flutt sig milli deilda og hvaða kostnaður fylgir því.“

    3.     Eftirfarandi málsgreinar komi á eftir 4. mgr.:

            „5.    Aðrar upplýsingar um fjárfestingar:

                    5.1.    Fyrri frammistaða fjárhaldssjóðsins/sameignarsjóðsins eða fjárfestingarfélagsins (eftir því sem við á) en þessar upplýsingar má birta í útboðslýsingunni eða láta fylgja henni.

                    5.2.    Lýsing á dæmigerðum fjárfesti sem fjárhaldssjóðurinn/sameignarsjóðurinn eða fjárfestingarfélagið er ætlað fyrir.

            6.    Fjárhagslegar upplýsingar

                    6.1.    Hugsanlegur kostnaður eða gjöld, að undanskildum þeim útgjöldum sem um getur í lið 1.17, og skal greina á milli þeirra sem handhafi hlutdeildarskírteina greiðir og þeirra sem greidd eru af eignum fjárhaldssjóðsins/sameignarsjóðsins eða fjárfestingarfélagsins.“

20.    Texti I. viðauka við þessa tilskipun bætist við I. viðauka við tilskipun 85/611/EBE.

21.    II. viðauki við þessa tilskipun bætist við sem II. viðauki við tilskipun 85/611/EBE.

Bráðabirgða- og lokaákvæði

2. gr.

1.     Fjárfestingarfyrirtæki samkvæmt skilgreiningu í 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 93/22/EBE, sem hafa aðeins leyfi til að annast þá þjónustu sem kveðið er á um í 3. lið þáttar A og í 1. og 6. lið þáttar C í viðaukanum við þá tilskipun, geta fengið leyfi samkvæmt þessari tilskipun til að stjórna fjárhaldssjóðum/sameignarsjóðum og fjárfestingarfélögum og öðlast réttindi sem „rekstrarfélög“. Þegar svo er verða þessi fjárfestingarfyrirtæki að afsala sér leyfinu sem þau hafa fengið samkvæmt tilskipun 93/22/EBE.

2.     Rekstrarfélög, sem hafa fengið leyfi fyrir 13. febrúar 2004 í heimaaðildarríki sínu samkvæmt tilskipun 85/611/EBE til að stjórna verðbréfasjóðum í formi fjárhaldssjóða/sameignarsjóða og fjárfestingarfélaga, teljast hafa leyfi að því er varðar þessa tilskipun ef lög þessara aðildarríkja kveða á um að forsenda þess að þau fái að hefja slíka starfsemi sé að þau uppfylli skilyrði sem jafngilda þeim sem sett eru í 5. gr. a og 5. gr. b.

3.     Rekstrarfélög, sem hafa þegar fengið leyfi fyrir 13. febrúar 2004 og eru ekki meðal þeirra sem um getur í 2. mgr., geta haldið slíkri starfsemi áfram svo fremi að þau fái leyfi, eigi síðar en 13. febrúar 2007 og í samræmi við ákvæði laga í heimaaðildarríki sínu, til að halda slíkri starfsemi áfram í samræmi við þau ákvæði sem eru samþykkt til framkvæmdar þessari tilskipun.

Ákvæði þessarar tilskipunar um staðfesturétt og frelsi til að veita þjónustu gilda ekki um rekstrarfélög fyrr en að fengnu slíku leyfi.

3. gr.

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 13. ágúst 2003. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þau skulu beita þessum ráðstöfunum eigi síðar en 13. febrúar 2004.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

4. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

5. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 21. janúar 2002.

Fyrir hönd Evrópuþingsins,

P. COX
forseti.
Fyrir hönd ráðsins,

M. ARIAS CAÑETE
forseti.

I. VIÐAUKI

„FYLGISKJAL C

Efni einfaldaðrar útboðslýsingar

Stutt kynning á verðbréfasjóðnum

—    hvenær fjárhaldssjóðurinn/sameignarsjóðurinn eða fjárfestingarfélagið var stofnað og í hvaða aðildarríki fjárhaldssjóðurinn/sameignarsjóðurinn eða fjárfestingarfélagið hefur verið skráð/stofnað,

—    ef um er að ræða verðbréfasjóð með aðgreindar fjárfestingardeildir skal það tekið fram,

—    rekstrarfélag (ef við á),

—    væntanlegt tímabil starfsemi fyrirtækisins (ef við á),

—    vörslufyrirtæki,

—    endurskoðendur,

—    fjármálasamstæða sem stendur að baki verðbréfasjóðnum (t.d. banki).

Upplýsingar um fjárfestingar

—    stutt skilgreining á markmiðum verðbréfasjóðsins,

—    fjárfestingarstefna fjárhaldssjóðsins/sameignarsjóðsins eða fjárfestingarfélagsins og stutt greinargerð um áhættustefnu sjóðsins (þ.m.t. upplýsingar skv. 24. gr. a og fyrir hverja fjárfestingardeild ef við á),

—    fyrri frammistaða fjárhaldssjóðsins/sameignarsjóðsins eða fjárfestingarfélags (eftir því sem við á) og viðvörun um að ekki megi álykta út frá henni um frammistöðu hans í framtíðinni – þessar upplýsingar má birta í útboðslýsingunni eða láta þær fylgja henni,

—    lýsing á dæmigerðum fjárfesti sem fjárhaldssjóðurinn/sameignarsjóðurinn eða fjárfestingarfélagið er ætlað fyrir.

Fjárhagslegar upplýsingar

—    skattakerfi,

—    kaup- og söluþóknun,

—    annar hugsanlegur kostnaður eða gjöld og skal greina á milli þeirra sem handhafi hlutdeildarskírteina greiðir og þeirra sem greidd eru af eignum fjárhaldssjóðsins/sameignarsjóðsins eða fjárfestingarfélagsins.

Viðskiptaupplýsingar

—    hvernig hlutdeildarskírteini eru keypt,

—    hvernig hlutdeildarskírteini eru seld,

—    þegar um er að ræða verðbréfasjóð með aðgreindar fjárfestingardeildir skal greina frá því hvernig unnt er að flytja sig milli deilda og hvaða kostnaður fylgir því,

—    hvenær og hvernig arði af hlutdeildarskírteinum eða hlutabréfum í verðbréfasjóðnum er úthlutað (ef við á),

—    hversu oft og hvenær/hvernig verð eru birt eða gerð aðgengileg.

Viðbótarupplýsingar

—    ábending um að unnt sé að fá óstytta útboðslýsingu, ársskýrslu og hálfsársskýrslu endurgjaldslaust, sé þess óskað, fyrir og eftir samningagerð,

—    lögbært yfirvald,

—    ábending um tengilið (einstakling/deild, tímasetningu o.s.frv.) þar sem fá má frekari skýringar ef þörf krefur,

—    útgáfudagur útboðslýsingar.“

II. VIÐAUKI

„II. VIÐAUKI

Sameiginleg stjórnun verðbréfasamvals felur m.a. í sér eftirfarandi verkefni:

—    Fjárfestingarstýring.

—    Umsýsla:

    a)     lögfræðiþjónusta og bókhaldsþjónusta í tengslum við stjórnun sjóðsins,

    b)     svör við fyrirspurnum viðskiptamanna,

    c)     mat og verðlagning (þ.m.t. skattframtal),

    d)     eftirlit með að reglum sé fylgt,

    e)     viðhald skrár yfir eigendur hlutdeildarskírteina,

    f)     skipting tekna,

    g)     útgáfa og innlausn hlutdeildarskírteina,

    h)     uppgjör samninga (þ.m.t. sending vottorða),

    i)     skráahald.

—    Markaðssetning.“
Fylgiskjal III.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/108/EB

frá 21. janúar 2002

um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), að því er varðar fjárfestingar slíkra fyrirtækja

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr.,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Gildissvið tilskipunar ráðsins 85/611/EBE ( 4 ) var upphaflega takmarkað við opin fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu sem koma hlutdeildarskírteinum sínum á framfæri til almennings innan bandalagsins og hafa það eina hlutverk að fjárfesta í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði (UCITS)). Gert var ráð fyrir því í formálsorðum tilskipunar 85/611/ EBE að ákvæði um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, sem falla ekki undir þá tilskipun, yrðu samræmd síðar.

     2)      Með hliðsjón af markaðsþróun er æskilegt að rýmka fjárfestingarmarkmið verðbréfasjóða til að gera þeim kleift að fjárfesta í öðrum auðseljanlegum fjármálaskjölum en framseljanlegum verðbréfum. Í þessari tilskipun eru talin upp þau fjármálaskjöl sem koma til greina sem fjárfestingar í verðbréfasamvali verðbréfasjóðs. Val á fjárfestingum fyrir verðbréfasamval, þannig að það endurspegli tiltekna vísitölu, heyrir undir aðferðir við stjórnun verðbréfasamvals.

     3)      Skilgreiningin á framseljanlegum verðbréfum í þessari tilskipun gildir aðeins fyrir þessa tilskipun og hefur engin áhrif á ýmsar skilgreiningar í löggjöf einstakra ríkja, m.a. varðandi skattlagningu. Þar af leiðandi tekur þessi skilgreining ekki til hlutabréfa og annarra jafngildra verðbréfa sem gefin eru út af byggingarfélögum (building societies) eða atvinnugreina- og styrktarstofnunum (industrial and provident societies) en ekki er unnt að yfirfæra eignarrétt á þeim í reynd á annan hátt en þann að útgefandi kaupi þau aftur.

     4)      Undir peningamarkaðsskjöl heyra framseljanleg skjöl sem viðskipti eru að jafnaði ekki stunduð með á skipulegum mörkuðum heldur á peningamarkaðnum, t.d. ríkis- og sveitarfélagavíxlar, innlánsskírteini, viðskiptabréf, meðallöng skuldabréf og víxlar.

     5)      Rétt er að tryggja að hugtakið skipulegur markaður í þessari tilskipun samsvari sama hugtaki í tilskipun ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( 5 ).

     6)      Æskilegt er að leyfa verðbréfasjóði að fjárfesta eignir sínar í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og/eða annarra opinna fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu sem fjárfesta einnig í lausafjáreignum, eins og um getur í þessari tilskipun, og starfa samkvæmt meginreglunni um áhættudreifingu. Nauðsynlegt er að verðbréfasjóðir eða önnur fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, sem verðbréfasjóðir fjárfesta í, séu undir skilvirku eftirliti.

     7)      Greiða ber fyrir þróun möguleika verðbréfasjóða á að fjárfesta í verðbréfasjóðum og öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu. Því er mikilvægt að tryggja að slík fjárfestingarstarfsemi dragi ekki úr vernd fjárfesta. Vegna aukinna möguleika verðbréfasjóða á að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða og/eða fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu er nauðsynlegt að setja ákveðnar reglur um magntakmarkanir, birtingu upplýsinga og hvernig koma eigi í veg fyrir keðjuverkun (the cascade phenomenon).

     8)      Til að tekið sé tillit til markaðsþróunar og stofnunar Efnahags- og myntbandalagsins er æskilegt að verðbréfasjóðir fái heimild til að fjárfesta í bankainnlánum. Til að tryggja að fjárfestingar í innlánum séu innleysanlegar skulu innlánin gjaldkræf eftir kröfu eða unnt skal vera að taka þau út. Ef fé er lagt inn til geymslu hjá lánastofnun sem er með skráða skrifstofu í þriðja landi skal lánastofnunin lúta varfærnisreglum sem jafngilda að minnsta kosti þeim sem mælt er fyrir um í löggjöf bandalagsins.

     9)      Til viðbótar við þau tilvik, þar sem verðbréfasjóður fjárfestir í bankainnlánum samkvæmt sjóðsreglum sínum eða félagssamþykkum, kann að vera nauðsynlegt að leyfa öllum verðbréfasjóðum að eiga viðbótarlausaeignir, svo sem hlaupareikningsinnistæður. Réttlæta má eign slíkra viðbótarlausaeigna, t.d. í eftirfarandi tilvikum: til að standa straum af hlaupandi greiðslum eða sérstökum greiðslum, þegar um sölu er að ræða, í þann tíma sem það tekur að endurfjárfesta í framseljanlegum verðbréfum, peningamarkaðsskjölum og/eða í öðrum peningalegum eignum sem kveðið er á um í þessari tilskipun og í þann tíma sem er strangt til tekið nauðsynlegur ef fresta þarf fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, fjármálaskjölum á peningamarkaði og/eða í öðrum peningalegum eignum vegna óhagstæðra markaðsskilyrða.

     10)      Af varfærnisástæðum er nauðsynlegt að forðast að of mikið af fjárfestingum verðbréfasjóðs sé hjá einum aðila eða hjá aðilum sem tilheyra sömu samstæðu ef fjárfestingarnar fela í sér mótaðilaáhættu fyrir sjóðinn.

     11)      Verðbréfasjóðir skulu hafa skýlaust leyfi til að fjárfesta í afleiddum fjármálaskjölum, bæði innan ramma almennrar fjárfestingarstefnu sinnar og/eða til baktryggingar, til að þau geti náð settu fjárhagslegu markmiði eða fylgt þeirri áhættustefnu sem tilgreind er í útboðslýsingunni. Til að tryggja vernd fjárfesta er nauðsynlegt að takmarka hugsanlega hámarksáhættu vegna afleiddra skjala til að hún fari ekki yfir heildarnettóvirði verðbréfasamvals verðbréfasjóðsins. Til að áhætta og skuldbindingar vegna viðskipta með afleidd skjöl séu ætíð ljósar og til að fylgjast með því að ekki sé farið yfir leyfilegt hámark fjárfestinga þarf stöðugt að mæla og vakta þessa áhættu og skuldbindingar. Loks þurfa verðbréfasjóðir að lýsa áætlunum sínum, aðferðum og mörkum fjárfestinga í viðskiptum með afleidd skjöl til að tryggja vernd fjárfesta með birtingu upplýsinga.

     12)      Að því er varðar afleidd skjöl utan skipulegra verðbréfamarkaða ber að gera viðbótarkröfur um hæfi mótaðila og skjala, lausafjárstöðu og símat á stöðu. Markmiðið með þessum viðbótarkröfum er að tryggja nægilega vernd fjárfesta, ámóta þeirri vernd sem þeir njóta þegar þeir kaupa afleidd skjöl sem verslað er með á skipulegum mörkuðum.

     13)      Aldrei má nota viðskipti með afleidd skjöl til að sniðganga þær reglur sem settar eru í þessari tilskipun. Að því er varðar afleidd skjöl utan skipulegra verðbréfamarkaða skulu frekari reglur um áhættudreifingu gilda um áhættu gagnvart einum mótaðila eða samstæðu mótaðila.

     14)      Sumar aðferðir við stjórnun verðbréfasamvals hjá fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu, sem fjárfesta einkum í hlutabréfum og/eða skuldabréfum, byggjast á því að líkja eftir hlutabréfa- og/eða skuldabréfavísitölum. Æskilegt er að leyfa verðbréfasjóðum að líkja eftir velþekktum og viðurkenndum hlutabréfa- og/eða skuldabréfavísitölum. Því kann í þessu skyni að vera nauðsynlegt að setja sveigjanlegri reglur um áhættudreifingu fyrir verðbréfasjóði sem fjárfesta í hlutabréfum og/eða skuldabréfum.
     15)      Fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, sem heyra undir gildissvið þessarar tilskipunar, skulu ekki hafa annað að markmiði en að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í samræmi við reglur sem settar eru í þessari tilskipun. Í þeim tilvikum, sem greint er frá í þessari tilskipun, er verðbréfasjóði aðeins heimilt að hafa útibú ef það er nauðsynlegt til að annast með skilvirkum hætti tiltekna starfsemi fyrir hönd viðkomandi verðbréfasjóðs sem einnig er skilgreind í þessari tilskipun. Tryggja þarf skilvirkt eftirlit með verðbréfasjóðum. Því er stofnun útbús verðbréfasjóðs í þriðja landi aðeins leyfð í þeim tilvikum og við þau skilyrði sem greint er frá í tilskipuninni. Hin almenna skylda, að starfa aðeins með hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina að leiðarljósi og einkum það markmið að auka hagkvæmni miðað við kostnað, getur aldrei réttlætt að verðbréfasjóður geri ráðstafanir sem geta hindrað lögbær yfirvöld í að gegna eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.

     16)      Tryggja þarf að frjálst sé að markaðssetja hlutdeildarskírteini margs konar fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri en veita fjárfestum samt samræmda lágmarksvernd. Því er aðeins hægt að ná settum markmiðum með bindandi tilskipun framkvæmdastjórnarinnar þar sem mælt er fyrir um samþykkta lágmarksstaðla. Þessi tilskipun tekur aðeins til nauðsynlegrar lágmarkssamræmingar og gengur ekki lengra en þarf til að ná settum markmiðum í samræmi við þriðju málsgrein í 5. gr. sáttmálans.

     17)      Gerðar skulu nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).

     18)      Framkvæmdastjórnin getur tekið til athugunar að leggja fram tillögu um kerfisbálkun þegar þar að kemur eftir að tillögurnar hafa verið samþykktar.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Tilskipun 85/611/EBE er breytt sem hér segir:

1.    Í stað fyrsta undirliðar í 2. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:

    „—    þau sem hafa eingöngu að markmiði sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum og/eða í öðrum lausafjáreignum, sem um getur í 1. mgr. 19. gr., með fé sem aflað er meðal almennings og sem starfa á grundvelli áhættudreifingar“.

2.    Í 1. gr. bætist eftirfarandi málsgreinar við:

    „8.     Í þessari tilskipun merkir hugtakið „framseljanleg verðbréf“:

    —    hlutabréf í félögum og önnur verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa í félögum (hér á eftir nefnd „hlutabréf“),

    —    skuldabréf og önnur form á breytingu skulda í verðbréf (hér á eftir nefnd „skuldabréf“),

    —    öll önnur framseljanleg verðbréf sem veita rétt til öflunar slíkra framseljanlegra verðbréfa með áskrift eða skiptum,

    að undanskildum þeim aðferðum og skjölum sem um getur í 21. gr.

    9.     Í þessari tilskipun merkir hugtakið „peningamarkaðsskjöl“: skjöl sem að öllu jöfnu er verslað með á peningamarkaði, eru auðseljanleg og unnt er að reikna nákvæmt verðmæti þeirra hvenær sem er.“

3.    Í stað a-liðar 1 mgr. 19. gr. komi eftirfarandi:

    „a)    framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum sem skráð eru eða sem viðskipti eiga sér stað með á skipulegum markaði í skilningi 13. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, og/eða“.

4.    Í b-lið og c-lið 1. mgr. 19. gr. skal orðunum „og peningamarkaðsskjölum“ bætt við á eftir orðunum „framseljanlegum verðbréfum“.

5.    Í 1. mgr. 19. gr.:

    —    skal orðunum „og/eða“ bætt við í lok d-liðar,

    —    bætist eftirfarandi liðir við:

            „e)    hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, sem hafa fengið leyfi samkvæmt þessari tilskipun, og/eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu, í skilningi fyrsta og annars undirliðar 2. mgr. 1. gr., án tillits til þess hvort þau eru staðsett í aðildarríki, að því tilskildu:

                    —    að þessi önnur fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu hafi leyfi samkvæmt lögum, sem kveða á um að þau heyri undir eftirlit sem lögbær yfirvöld verðbréfasjóðanna telja sambærilegt við eftirlit samkvæmt lögum bandalagsins, og svo fremi að samstarf yfirvalda sé tryggt með fullnægjandi hætti,

                    —    að eigendur hlutdeildarskírteina í öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu njóti sambærilegrar verndar og kveðið er á um fyrir eigendur hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum og einkum að reglur um aðgreiningu eigna, lántöku, lánveitingu og um sölu framseljanlegra verðbréfa og peningamarkaðsskjala, án þess að eiga þau fyrir, séu sambærilegar kröfum í þessari tilskipun,

                    —    að skýrt sé frá starfsemi annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu í hálfsárs- og ársskýrslum til að unnt sé að meta eignir og skuldir, tekjur og rekstur á skýrslutímabilinu,

                    —    að óheimilt sé, samkvæmt sjóðsreglum eða félagssamþykkum, að fjárfesta meira en 10% eigna verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu, sem ætlunin er að kaupa hlutdeildarskírteini í, í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu, og/eða

            f)        innlánum hjá lánastofnunum sem eru gjaldkræf eftir kröfu eða sem taka má út og hafa mest 12 mánaða binditíma, að því tilskildu að skráð skrifstofa lánastofnunarinnar sé í aðildarríki eða, ef skráð skrifstofa hennar er í þriðja landi, að hún heyri undir varfærnisreglur sem lögbær yfirvöld verðbréfasjóðanna telja að jafngildi að minnsta kosti þeim sem mælt er fyrir um í löggjöf bandalagsins, og/eða

            g)    afleiddum fjármálaskjölum, þ.m.t. sambærileg skjöl sem greidd eru með reiðufé, sem verslað er með á skipulegum mörkuðum, sem um getur í a-, b- og c-lið, og/eða afleiddum fjármálaskjölum sem verslað er með utan skipulegra verðbréfamarkaða („afleidd skjöl utan skipulegra verðbréfamarkaða“), að því tilskildu:

                    —    að undirliggjandi séu skjöl samkvæmt þessari málsgrein, efnahagsvísar, vextir, gengi erlendra gjaldmiðla eða gjaldmiðlar sem verðbréfasjóðnum er heimilt að fjárfesta í samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni sem fram kemur í sjóðsreglum eða félagssamþykktum sjóðsins,

                    —    að mótaðilar að viðskiptum með afleidd skjöl utan skipulegra verðbréfamarkaða séu stofnanir sem sæta varfærniseftirliti og tilheyra flokkum sem lögbær yfirvöld verðbréfasjóðanna viðurkenna, og

                    —    að verðmæti afleiddra skjala utan skipulegra verðbréfamarkaða sé reiknað daglega, þannig að það sé áreiðanlegt og unnt sé að staðfesta það, og að unnt sé að selja þau, innleysa eða loka með mótfærslu á sannvirði hverju sinni að frumkvæði verðbréfasjóðsins, og/eða

            h)    öðrum peningamarkaðsskjölum en viðskipti eru stunduð með á skipulegum mörkuðum, sem heyra undir 9. mgr. 1. gr., ef útgáfa eða útgefandi þessara skjala sætir lögbundnu eftirliti sem hefur þann tilgang að vernda fjárfesta og sparifé, og að því tilskildu að:

                    —    ríkisstjórn eða svæðis- eða staðaryfirvöld eða seðlabanki aðildarríkis, Seðlabanki Evrópu, Evrópusambandið eða Fjárfestingarbanki Evrópu, þriðja land eða, ef um sambandsríki er að ræða, eitt ríkjanna í sambandinu eða opinber eða alþjóðleg stofnun, sem eitt eða fleiri aðildarríkjanna eiga aðild að, gefi þau út eða ábyrgist þau, eða

                    —    fyrirtæki gefi þau út ef viðskipti eiga sér stað með verðbréf þess á skipulegum mörkuðum sem um getur í a-, b- eða c-lið, eða

                    —    stofnun, sem sætir varfærniseftirliti, í samræmi við viðmiðanir sem skilgreindar eru í lögum bandalagsins, eða stofnun, sem lýtur og hlítir varfærnisreglum sem lögbær yfirvöld telja að minnsta kosti jafnstrangar og þær sem mælt er fyrir um í lögum bandalagsins, gefi þau út eða ábyrgist þau; eða

                    —    aðrir aðilar, sem tilheyra flokkum sem lögbær yfirvöld verðbréfasjóðanna hafa viðurkennt, gefi þau út eða ábyrgist þau, að því tilskildu að fjárfesting í slíkum skjölum heyri undir fjárfestavernd sem jafngildir þeirri vernd sem kveðið er á um í fyrsta, öðrum og þriðja undirlið og að því tilskildu að útgefandi sé félag með eigið fé og varasjóði sem nema að minnsta kosti 10 milljónum evra og sem leggur fram og birtir ársskýrslur sínar í samræmi við tilskipun 78/600/EBE ( *), sé aðili innan félagasamstæðu með eitt eða fleiri skráð félög sem helgar sig fjármögnun samstæðunnar eða er aðili sem helgar sig fjármögnun verðbréfunar með stoð í lánasamningi við fjármálastofnun.


     (*)    Fjórða tilskipun ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978, byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans, um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð (Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 1999/60/EB (Stjtíð. EB L 162, 26.6.1999, bls. 65).“

6.    Í a-lið 2. mgr. 19. gr. skal orðunum „og peningamarkaðsskjölum“ bætt við á eftir orðunum „framseljanlegum verðbréfum“.

7.    Í 19. gr. falli b-liður 2. og 3. mgr. niður.

8.    20. gr. falli niður.

9.    Í stað 21. gr. komi eftirfarandi:

     „21. gr.

    1.     Rekstrar- eða fjárfestingarfélagið verður að beita áhættustjórnunaraðferð sem gerir því kleift að vakta og meta stöðuáhættu á hverjum tíma og hlut hennar í heildaráhættustefnu í verðbréfasamvalinu; það verður að nota aðferð til að leggja nákvæmt og óháð mat á verðmæti afleiddra skjala utan skipulegra verðbréfamarkaða. Fyrir hvern verðbréfasjóð, sem rekstrarfélagið rekur, verður það að tilkynna lögbærum yfirvöldum reglubundið og samkvæmt nákvæmum reglum, sem þau setja, um tegundir afleiddra skjala, undirliggjandi áhættu, magntakmarkanir og aðferðirnar sem það beitir til að meta áhættu í tengslum við viðskipti með afleidd skjöl.

    2.     Aðildarríkin geta heimilað verðbréfasjóðum að nota aðferðir og skjöl, sem varða framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsskjöl, með þeim skilyrðum og innan þeirra marka sem aðildarríkin mæla fyrir um að því tilskildu að þessar aðferðir og skjöl séu notuð til að auka skilvirkni í stjórnun verðbréfasamvals. Þegar þessi viðskipti varða notkun afleiddra skjala skulu framangreind skilyrði og mörk vera í samræmi við ákvæðin sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.

    Þessi viðskipti mega ekki í neinu tilviki verða til þess að verðbréfasjóðurinn víki frá fjárfestingarmarkmiðum sínum eins og þau eru sett fram í sjóðsreglum, félagssamþykktum eða útboðslýsingu sjóðsins.

    3.     Verðbréfasjóður skal tryggja að heildaráhætta hans vegna afleiddra skjala fari ekki yfir heildarnettóvirði verðbréfasamvals hans.

    Við útreikning áhættu skal taka mið af núvirði undirliggjandi eigna, mótaðilaáhættu, líklegri þróun fjármálamarkaða og líftíma samninga. Þetta skal einnig gilda um eftirfarandi undirliði.

    Verðbréfasjóði er heimilt, innan ramma fjárfestingarstefnu sinnar og innan þeirra marka sem mælt er fyrir um í 5. mgr. 22. gr., að fjárfesta í afleiddum fjármálaskjölum, svo fremi að samanlögð áhætta undirliggjandi eigna fari ekki yfir leyfilegt hámark fjárfestinga sem mælt er fyrir um í 22. gr. Þegar verðbréfasjóður fjárfestir í afleiddum fjármálaskjölum sem byggjast á vísitölu geta aðildarríkin veitt heimild til þess að þessar fjárfestingar samanlagt þurfi ekki að vera undir mörkunum sem mælt er fyrir um í 22. gr.

    Ef framseljanlegt verðbréf eða peningamarkaðsskjal felur í sér afleitt skjal skal tekið mið af því þegar kröfur samkvæmt þessari grein eru uppfylltar.

    4.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni, eigi síðar en 13. febrúar 2004, allar upplýsingar og allar síðari breytingar á reglum sínum um aðferðir við útreikning á áhættunni sem um getur í 3. mgr., þ.m.t. áhættu gagnvart mótaðila í viðskiptum með afleidd skjöl utan skipulegra verðbréfamarkaða. Framkvæmdastjórnin skal koma þeim upplýsingum á framfæri við aðildarríkin. Tengslanefndin skiptist á skoðunum um þessar upplýsingar í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 53. gr.“

10.    Í stað 22. gr. komi eftirfarandi:

     „22. gr.

    1.     Verðbréfasjóði er óheimilt að fjárfesta meira en 5% af eignum sínum í framseljanlegum verðbréfum eða peningamarkaðsskjölum, útgefnum af sama útgefanda. Verðbréfasjóði er óheimilt að fjárfesta meira en 20% af eignum sínum í innlánum hjá sama aðila.

    Áhætta verðbréfasjóðs gagnvart mótaðila í viðskiptum með afleidd skjöl utan skipulegra verðbréfamarkaða má ekki fara yfir:

    —    10% af eignum hans ef mótaðilinn er lánastofnun sem um getur í f-lið 1. mgr. 19. gr., eða

    —    5% af eignum hans í öðrum tilvikum.

    2.     Aðildarríkjunum er heimilt að hækka 5%- mörkin, sem mælt er fyrir um í fyrsta málslið 1. mgr., upp í allt að 10%. Hafi verðbréfasjóður hins vegar fjárfest meira en 5% eigna sinna í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum einstakra útgefenda má heildarverðmæti slíkra fjárfestinga ekki nema meira en 40% af heildarverðmæti eigna fyrirtækisins. Þessar takmarkanir gilda ekki um innlán og viðskipti með afleidd skjöl utan skipulegra verðbréfamarkaða við fjármálastofnanir sem sæta varfærniseftirliti.

    Þrátt fyrir einstök mörk, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., má heildarfjárfesting verðbréfasjóðs samtals í viðskiptum við sama aðila:

    —    í framseljanlegum verðbréfum eða peningamarkaðsskjölum,

    —    í innlánum og/eða

    —    í afleiddum skjölum utan skipulegra verðbréfamarkaða

    ekki fara yfir 20% af eignum sjóðsins.

    3.     Aðildarríkjunum er heimilt að hækka 5%- mörkin, sem mælt er fyrir um í fyrsta málslið 1. mgr., í allt að 35% ef aðildarríki, staðaryfirvöld þess, ríki utan bandalagsins eða alþjóðastofnanir, sem eitt eða fleiri aðildarríki eiga aðild að, hafa gefið út eða ábyrgst hin framseljanlegu verðbréf eða peningamarkaðsskjölin.

    4.     Aðildarríkjunum er heimilt að hækka 5%- mörkin, sem mælt er fyrir um í fyrsta málslið 1. mgr., í allt að 25% ef um er að ræða tiltekin skuldabréf sem eru gefin út af lánastofnun sem er með skráða skrifstofu sína í aðildarríki og sætir samkvæmt lögum sérstöku opinberu eftirliti sem ætlað er að vernda eigendur bréfanna. Andvirði slíkra bréfa skal samkvæmt lögum einkum notað til fjárfestingar í eignum sem staðið geta undir kröfum sem eru bundnar bréfunum allan gildistíma bréfanna og standi útgefandi bréfanna ekki í skilum skal endurgreiðsla höfuðstóls og áfallinna vaxta af þeim hafa forgang af andvirði eignanna.

    Fjárfesti verðbréfasjóður meira en 5% af eignum sínum í skuldabréfunum sem um getur í fyrsta undirlið og einn útgefandi gefur út má samanlagt verðmæti þeirra fjárfestinga ekki nema meira en 80% af eignum sjóðsins.

    Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni skrá yfir framangreindar tegundir skuldabréfa og tegundir útgefenda sem, samkvæmt lögum og reglum um eftirlit, sbr. fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar, er heimilað að gefa út skuldabréf sem fullnægja framangreindum skilyrðum. Tilkynning um hvernig ábyrgð er háttað skal fylgja þessum skrám. Framkvæmdastjórnin skal þegar í stað framsenda þessar upplýsingar öðrum aðildarríkjum ásamt athugasemdum sem hún telur eiga við og sjá til þess að upplýsingarnar séu aðgengilegar almenningi. Tengslanefndin skiptist á skoðunum um þessar upplýsingar í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 53. gr.

    5.     Við beitingu 40%-markanna, sem um getur í 2. mgr., skal ekki litið til framseljanlegu verðbréfanna og peningamarkaðsskjalanna sem um getur í 3. og 4. mgr.

    Takmarkanir, sem kveðið er á um í 1., 2., 3. og 4. mgr., má ekki leggja saman og því er verðbréfasjóði óheimilt að fjárfesta alls meira en 35% af eignum sínum í framseljanlegum verðbréfum, peningamarkaðsskjölum, innlánum eða afleiddum skjölum sama útgefanda.

    Félög, sem teljast til sömu samstæðu í samstæðureikningum samkvæmt skilgreiningu í tilskipun 83/349/EBE ( *), skulu teljast einn aðili við útreikning á mörkum samkvæmt þessari grein.

    Aðildarríkin geta leyft uppsafnaða fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum, innan sömu samstæðu, sem nemur allt að 20%.


     (*)    Sjöunda tilskipun ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga, byggð á g-lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans (Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.“

11.    Eftirfarandi grein bætist við:

     „22. gr. a

    1.     Með fyrirvara um mörkin, sem mælt er fyrir um í 25. gr., er aðildarríkjunum heimilt að hækka mörkin, sem mælt er fyrir um í 22. gr., í allt að 20% fyrir fjárfestingu í hlutabréfum og/eða skuldabréfum sama útgefanda ef markmið fjárfestingarstefnu samkvæmt sjóðsreglum eða félagssamþykktum er að líkja eftir tiltekinni hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölu sem lögbær yfirvöld viðurkenna á eftirfarandi forsendum:

    —    vísitalan hefur fullnægjandi áhættudreifingu,

    —    vísitalan endurspeglar viðkomandi markað með fullnægjandi hætti,

    —    vísitalan verður birt opinberlega með viðeigandi hætti.

    2.     Aðildarríkjunum er heimilt að hækka mörkin, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., í allt að 35% ef sérstakar aðstæður á markaðnum réttlæta það, einkum á skipulegum mörkuðum þar sem tiltekin framseljanleg verðbréf eða peningamarkaðsbréf eru ríkjandi. Fjárfesting upp að þessu marki er aðeins leyfð fyrir einn útgefanda.“

12.    Í 1. mgr. 23. gr. skal orðunum „og peningamarkaðsskjölum“ bætt við á eftir orðunum „framseljanlegum verðbréfum.“

13.    Í stað 24. gr. komi eftirfarandi:

     „24. gr.

    1.     Verðbréfasjóði er heimilt að eignast hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóðum og/eða öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu sem um getur í e-lið 1. mgr. 19. mgr., að því tilskildu að hann fjárfesti ekki yfir 10% eigna sinna í hlutdeildarskírteinum eins verðbréfasjóðs eða annars fyrirtækis um sameiginlega fjárfestingu. Aðildarríkjunum er heimilt að hækka hámarkið upp í allt að 20%.

    2.     Heildarfjárfesting verðbréfasjóðs í hlutdeildarskírteinum annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu en verðbréfasjóða má þó ekki fara yfir 30% af eignum hans.

    Aðildarríkin geta heimilað, ef verðbréfasjóður hefur eignast hlutdeildarskírteini í öðrum verðbréfasjóði og/eða öðrum fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu, að samanlagðar eignir viðkomandi verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu þurfi ekki að vera undir mörkunum sem mælt er fyrir um í 22. gr.

    Ef verðbréfasjóður fjárfestir í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða og/eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu sem er stjórnað beint eða með umboði af sama rekstrarfélagi eða öðru félagi, sem rekstrarfélagið tengist í gegnum sameiginlegan rekstur eða stjórnendur eða með umtalsverðri beinni eða óbeinni eignarhlutdeild, er rekstrarfélaginu eða hinu félaginu ekki heimilt að taka þóknun fyrir áskrift eða innlausn fyrir fjárfestingu sjóðsins í hlutdeildarskírteinum hinna verðbréfasjóðanna og/eða fyrirtækjanna um sameiginlega fjárfestingu.

    Fjárfesti verðbréfasjóður verulegan hluta eigna sinna í öðrum verðbréfasjóðum og/eða fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu skal í útboðslýsingu hans tilgreina hámarksstjórnunarkostnað sem verðbréfasjóðurinn sjálfur og einnig hinir verðbréfasjóðirnir og/eða fyrirtækin um sameiginlega fjárfestingu, sem hann hyggst fjárfesta í, skulu bera. Í ársskýrslu verðbréfasjóðsins skal tilgreina hámarkshlutfall stjórnunarkostnaðar sem annars vegar verðbréfasjóðurinn sjálfur og hins vegar hinir verðbréfasjóðirnir og/eða fyrirtækin um sameiginlega fjárfestingu, sem hann fjárfestir í, bera.“

14.    Eftirfarandi grein bætist við:

     „24. gr. a

    1.     Í útboðslýsingu skulu koma fram þær tegundir eigna sem verðbréfasjóði er heimilt að fjárfesta í. Einnig skal tilgreint hvort viðskipti með afleidd fjármálaskjöl séu heimil og, ef svo er, verður að koma fram áberandi yfirlýsing um hvort stunda megi þessi viðskipti sem baktryggingu eða til að ná fjárfestingarmarkmiðum og hvaða áhrif notkun afleiddra fjármálaskjala kunni að hafa á áhættustefnu sjóðsins.


    2.     Fjárfesti verðbréfasjóður fyrst og fremst í öðrum tegundum eigna, samkvæmt skilgreiningu í 19. gr., en framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum eða líkir eftir tilteknum hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölum í samræmi við 22. gr. a skal vakin sérstök athygli á fjárfestingarstefnu hans með áberandi yfirlýsingu í útboðslýsingu og, ef þörf krefur, öðrum kynningarritum.

    3.     Ef bókfært virði eigna verðbréfasjóðs er líklegt til að sveiflast mikið vegna samsetningar verðbréfasamvals hans eða aðferða sem beitt er við stjórnun verðbréfasamvals skal vakin sérstök athygli á því á áberandi hátt í útboðslýsingu og, ef þörf krefur, öðrum kynningarritum.

    4.     Óski fjárfestir eftir því er rekstrarfélagi skylt að veita frekari upplýsingar um magntakmarkanir sem gilda um áhættustjórnun verðbréfasjóðsins, aðferðirnar sem beitt er í þessu skyni og undanfarandi þróun, með tilliti til áhættu og ávöxtunar, í helstu flokkum skjala sem sjóðurinn fjárfestir í.“

15.    Í 2. mgr. 25. gr.:

    1.     í stað þriðja liðar komi eftirfarandi:

            „—    25% af hlutdeildarskírteinum í einum verðbréfasjóði og/eða öðru fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í skilningi fyrsta og annars undirliðar 2. mgr. 1. gr.,“;

    2.     eftirfarandi liður bætist við:

            „—    10% af peningamarkaðsskjölum, útgefnum af einum útgefanda,“.

16.    Í stað annars málsliðar í 2. mgr. 25. gr. komi eftirfarandi:

    „Víkja má frá þeim mörkum sem mælt er fyrir um í öðrum, þriðja og fjórða undirlið ef ekki er unnt að reikna út heildarfjárhæð skuldabréfa eða peningamarkaðsskjala eða nettófjárhæð þeirra verðbréfa, sem gefin eru út, á þeim tíma þegar þeirra er aflað.“.

17.    Í a-, b- og c-lið 3. mgr. 25. gr. skal orðunum „og peningamarkaðsskjöl“ bætt við á eftir orðunum „framseljanleg verðbréf“.

18.    Í stað e-liðar 3. mgr. 25. gr. komi eftirfarandi:

    „e)    hluti fjárfestingarfélags eða -félaga í eigin fé dótturfyrirtækja sem eingöngu sinna, og aðeins fyrir hönd fjárfestingarfélagsins eða -félaganna, rekstri, ráðgjöf eða markaðssetningu í landinu þar sem dótturfélagið er staðsett, að því er varðar endurkaup hlutdeildarskírteina að beiðni eigenda hlutdeildarskírteinanna.“

19.    Í stað 1. mgr. 26. gr. komi eftirfarandi:

    „1. Verðbréfasjóðir þurfa ekki að hlíta þeim mörkum sem mælt er fyrir um í þessum þætti þegar þeir notfæra sér áskriftarréttindi sem fylgja framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsskjölum í eigu þeirra.

    Aðildarríkin geta undanþegið verðbréfasjóði, sem hafa nýlega fengið leyfi, ákvæðum 22. gr., 22. gr. a, 23. og 24. gr. í sex mánuði frá veitingu leyfis til þeirra enda sé tryggt að hlítt sé meginreglunni um áhættudreifingu.“

20.    Í stað 2. mgr. 41. gr. komi eftirfarandi:

    „2.     Ákvæði 1. mgr. koma ekki í veg fyrir að slík fyrirtæki megi eignast framseljanleg verðbréf, peningamarkaðsskjöl eða önnur fjármálaskjöl, sem um getur í e-, g- og h-lið 1. mgr. 19. gr., sem ekki eru að fullu greidd.“

21.    Í stað 42. gr. komi eftirfarandi:

     „42. gr.

    Hvorki:

    —    fjárfestingarfélag né

    —    rekstrarfélag eða vörslufyrirtæki [

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


fjárvörslufyrirtæki] sem kemur fram fyrir hönd fjárhaldssjóðs (unit trust)

    má selja framseljanleg verðbréf, peningamarkaðsskjöl eða önnur fjármálaskjöl, sem um getur í e-, g- og h-lið 1. mgr. 19. gr., án þess að eiga þau fyrir.“

22.    Eftirfarandi grein komi á eftir 53. gr.:

     „53. gr. a

    1.     Til viðbótar skyldum tengslanefndarinnar sem kveðið er á um í 1. mgr. 53. gr. er henni einnig heimilt að koma saman sem stjórnsýslunefnd í skilningi 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB ( *) til að aðstoða framkvæmdastjórnina við þær tæknilegu breytingar sem gera þarf á þessari tilskipun í eftirfarandi efnum:

    —    nánari útlistun skilgreininga til að tryggja sams konar beitingu þessarar tilskipunar í gervöllu bandalaginu;

    —    samræming hugtaka og afmörkun skilgreininga í samræmi við síðari lagasetningu um verðbréfasjóði og skyld mál.

    2.     Þar sem er vísað til þessarar málsgreinar skulu 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB gilda með tilliti til ákvæða 8. gr. hennar.

    Tímabilið, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.

    3.     Nefndin skal setja sér starfsreglur.


     (*)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.“

2. gr.

1.     Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, eigi síðar en 13. febrúar 2005, um beitingu tilskipunar 85/611/EBE, með áorðnum breytingum, og tillögur að breytingum eftir því sem við á. Í skýrslunni skal einkum koma fram:

a)      greining á því hvernig dýpka megi og stækka innri markaðinn fyrir verðbréfasjóði, einkum að því er varðar markaðssetningu verðbréfasjóða yfir landamæri (þ.m.t. sjóðir þriðju aðila), árangurinn af Evrópuvegabréfinu fyrir rekstrarfélög, árangurinn af einfölduðum útboðslýsingum sem tækjum til upplýsinga og markaðssetningar, endurskoðun á umfangi viðbótarstarfsemi og möguleikann á betri samvinnu eftirlitsyfirvalda með tilliti til sameiginlegrar túlkunar og beitingar á þessari tilskipun;

b)      athugun á gildissviði tilskipunarinnar með tilliti til mismunandi tegunda vara (t.d. stofnanasjóðir, fasteignasjóðir, móðursjóðir (master-feeder funds) og áhættusjóðir (hedge funds); athugunin ætti einkum að beinast að stærð markaðarins fyrir slíka sjóði, reglusetningu um þessa sjóði í aðildarríkjunum, þar sem við á, og mati á þörfinni fyrir frekari samræmingu þessara sjóða;

c)      mat á skipulagningu sjóða, þ.m.t. reglur og framkvæmd varðandi vistun verkefna og tengsl milli stjórnanda sjóðsins og vörslufyrirtækis;

d)      endurskoðun á fjárfestingarreglum fyrir verðbréfasjóði, t.d. um notkun afleiddra skjala og annarra skjala og aðferða er varða verðbréf, ákvæði um vísitölusjóði, ákvæði um peningamarkaðsskjöl, innlán, ákvæði um fjárfestingar „sjóðasjóða“, svo og um mismunandi mörk fjárfestinga;

e)      greining á því hvernig samkeppni milli sjóða undir stjórn rekstrarfélaga og fjárfestingarfélaga undir eigin stjórn er háttað.

Við undirbúning skýrslunnar skal framkvæmdastjórnin hafa sem víðtækast samráð við ýmsar hlutaðeigandi atvinnugreinar og við neytendahópa og eftirlitsaðila.

2.     Aðildarríkin geta veitt verðbréfasjóðum, sem eru starfandi þegar þessi tilskipun öðlast gildi, frest í allt að 60 mánuði frá þeim tíma til að fara að nýjum ákvæðum landslaga.

3. gr.

Aðildarríkin skulu, eigi síðar en 13. ágúst 2003, samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þau skulu beita þessum ráðstöfunum eigi síðar en 13. febrúar 2004.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

4. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

5. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 21. janúar 2002.

Fyrir hönd Evrópuþingsins,

P. COX
forseti.
Fyrir hönd ráðsins,

M. ARIAS CAÑETE
forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB L 266, 3.10.2002, bls. 52 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 49, 3.10.2002, bls. 40.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 41, 13.2.2002, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 41, 13.2.2002, bls. 35.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. EB C 272, 1.9.1998, bls. 7 og Stjtíð. EB C 311 E, 31.10.2000, bls. 273.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. EB C 116, 28.4.1999, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 17. febrúar 2000 (Stjtíð. EB C 339, 29.11.2000, bls. 228), sameiginleg afstaða ráðsins frá 5. júní 2001 (Stjtíð. EB C 297, 23.10.2001, bls. 10) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 23. október 2001. Ákvörðun ráðsins frá 4. desember 2001.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/64/EB.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. EB C 280, 9.9.1998, bls. 6 og Stjtíð. EB C 311 E, 31.10.2000, bls. 302.
Neðanmálsgrein: 11
(2)    Stjtíð. EB C 116, 28.4.1999, bls. 44.
Neðanmálsgrein: 12
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 17. febrúar 2000 (Stjtíð. EB C 339, 29.11.2000, bls. 220), sameiginleg afstaða ráðsins frá 5. júní 2001 (Stjtíð. EB C 297, 23.10.2001, bls. 35) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 23. október 2001. Ákvörðun ráðsins frá 4. desember 2001.
Neðanmálsgrein: 13
(4)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/64/EB (Stjtíð. EB L 290, 17.11.2000, bls. 27).
Neðanmálsgrein: 14
(5)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/64/EB.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.