Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 563. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1157  —  563. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson, Sigurberg Björnsson og Kristínu Helgu Markúsdóttur frá samgönguráðuneytinu, Helga Hallgrímsson og Jón Rögnvaldsson frá Vegagerðinni, Hermann Guðjónsson, Gísla Viggósson og Kristján Vigfússon frá Siglingastofnun Íslands, Þorgeir Pálsson frá Flugmálastjórn Íslands, Emil Sigurðarson og Þorstein Steinsson frá sveitarstjórn Vopnafjarðar og Árna Þór Sigurðsson og Ólaf M. Kristinsson frá Hafnasambandi sveitarfélaga.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Siglingastofnun Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun, Umferðarstofu, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Landhelgisgæslu Íslands, Flugráði, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landssambandi björgunarsveita, Leið ehf., Bolungarvík, Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Flugfélagi Vestmannaeyja, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Flugmálastjórn, Byggðastofnun, Hafnasambandi sveitarfélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vélskóla Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni.
    Um almenna umfjöllun um tillöguna er vísað til nefndarálits meiri hlutans með tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014.
    Meiri hlutinn leggur til ýmsar breytingar á tillögunni sem nánar eru tilgreindar hér á eftir. Veigamestu breytinguna leiðir af því viðbótarfjármagni sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita til vegaframkvæmda til eflingar atvinnutækifærum. Vegagerðin hefur á undanförnum vikum unnið ötullega að því, í nánu samstarfi við nefndina og þingmenn einstakra kjördæma, að móta tillögur um skiptingu fjárins á einstakar framkvæmdir. Niðurstaða þeirrar vinnu og tillögur meiri hlutans eru birtar á bls. 31–32 í breytingartillögunni. Sökum þess skamma fyrirvara sem verið hefur til skiptingar fjárins leggur meiri hlutinn til að farin verði sú leið að veita Vegagerðinni heimild til þess að breyta framkvæmdaröð og víxla verkum milli ára komi í ljós að það sé heppilegt vegna skipulagsmála eða undirbúningsvinnu fyrir viðkomandi verk. Þessar heimildir eru tilteknar í breytingartillögum meiri hlutans við tillögutextann undir hverri framkvæmd fyrir sig. Meiri hlutinn lítur svo á að túlka beri þær heimildir þannig að sem mest hagræðing náist.
    Þá vill nefndin koma að eftirfarandi atriðum:
    Meiri hlutinn vill geta þess að ekki er gert ráð fyrir framkvæmdum við höfnina í Helguvík vegna áformaðrar pípuverksmiðju. Meiri hlutinn gerir hins vegar ráð fyrir því að þegar endanlegar ákvarðanir um verksmiðjuna hafa verið teknar muni ríkisstjórnin taka málið upp og gera nauðsynlegar ráðstafanir.
    Meiri hlutinn vekur jafnframt athygli á að nauðsynlegt er að klára framkvæmdir við brimvarnargarð milli Miðhólma og Skiphólma á Vopnafirði á þessu ári. Í áætlunni er gert ráð fyrir að framlag ríkishluta á árinu 2003 sé 108 millj. kr. og 15,8 millj. kr. á árinu 2004. Erfitt er að færa þessar fjárveitingar milli ára. Því er það álit meiri hlutans að nauðsynlegt sé að flytja fjárveitingar sem samsvara fjárveitingum ársins 2004 til Vopnafjarðarhafnar úr verkefnum hjá þeim sveitarfélögum sem kjósa að fresta framkvæmdum á árinu 2003 og að gerð verði tillaga þess efnis á fjáraukalögum á haustþingi. Fjárveitingum yrði síðan skilað á fjárlögum 2004.
    Meiri hlutinn telur eðlilegt, og beinir því til Vegagerðarinnar, að við endurskoðun vegáætlunar eftir tvö ár verði framkvæmdaáætlun skipt upp í samræmi við nýja kjördæmaskipan. Jafnframt beinir meiri hlutinn því til Vegagerðarinnar að áfram verði unnið að hagkvæmisathugunum á styttingu vegalengda á milli landshluta og á helstu leiðum.
    Að lokum telur meiri hlutinn rétt að taka fram að óvissa ríkir um tekjuöflun og rekstur Flugmálstjórnar Íslands. Álagning flugvallargjaldsins sem er helsti tekjustofn stofnunarinnar og notað til að fjármagna framkvæmdir á flugvöllum auk margs annars hefur verið kærður af Eftirlitsstofnun EFTA til dómstóls EFTA í Lúxemborg. Ef þessi gjaldtaka reynist ólögleg þarf að endurskoða tekjustofna Flugmálastjórnar. Það skal tekið fram hér að ekki hefur innan núverandi ramma samgönguáætlunar tekist að finna leiðir til þess að taka á framtíðarrekstrarvanda stofnunarinnar á næstu árum þó svo að árið 2003 eigi að teljast viðunandi. Rekstrarvandinn er einkum tilkominn vegna fækkunar flugfarþega og þar með minni tekna og hins vegar að aukin áhersla á flugöryggi og fyrirséð áform vegna flugverndar munu reynast mjög kostnaðarsöm. Fram hefur komið að Ríkisendurskoðun er að ljúka stjórnsýsluendurskoðun á Flugmálastjórn. Að þeirri niðurstöðu fenginni og með hliðsjón af framgangi mála í Lúxemborg telur nefndin rétt að samgönguráðherra vinni nýjar tillögur um tekjuöflun og rekstur stofnunarinnar sem kynnt yrði á Alþingi næsta haust í tengslum við gerð fjárlaga fyrir árið 2004.
    Meiri hlutinn vekur athygli á að tillögur um framlög til ríkisstyrktra framkvæmda í siglingamálakafla tillögunnar voru ekki, vegna tímaskorts, sendar til umsagnar til sveitarfélaga eins og venja hefur verið með hafnaáætlun. Meiri hlutinn telur mikilvægt að haldið verði í þá venju sem skapast hefur að Siglingastofnun Íslands leiti álits sveitarfélaga og mun það vera ætlun stofnunarinnar samkvæmt upplýsingum nefndarinnar.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Breytingarnar eru eftirfarandi:
    Lagt er til að allar áætlaðar fjárveitingar á árunum 2004, 2005 og 2006 verði hækkaðar til áætlaðs verðlags ársins 2004, eða um 2%.
    Þá eru lagðar til eftirfarandi breytingar á einstökum hlutum tillögunnar:

I. Flugmálaáætlun:
     1.      Til að bregðast við aukinni fjárþörf vegna framkvæmda við flugvelli á árinu 2004 er lagt til að afborgun lána vegna Reykjavíkurflugvallar undir liðnum „Viðskiptahreyfingar“ í lið 2.1 verði 64,3 millj. kr. í stað 113 millj. kr. árið 2004. Gert er ráð fyrir að afborganir árið 2005 hækki sem þessu nemi eða úr 113 millj. kr. í 163,3 millj. kr. Jafnframt breytist liðurinn „Áður framkvæmt/afborganir“ samsvarandi þ.e. úr -113 millj. kr. árið 2004 í -64,3 millj. kr. og úr -113 millj. kr. í -166,3 millj. kr. 2005.
     2.      Lagt er til að liðurinn 2.1 „Flugvalla- og leiðsöguþjónusta“ hækki um 30 millj. kr. á árinu 2003 til að leysa rekstrarvanda þessa verkefnis.
     3.      Lagt er til að liðurinn 2.1 „Eftirlit og öryggismál“ hækki um 11 millj. kr. á árinu 2003 til að leysa rekstrarvanda þessa verkefnis.
     4.      Svo mögulegt sé að fjármagna mjög brýnar framkvæmdir á Grímseyjarflugvelli er lagt til að „Viðhaldssjóðir“ lækki um 16 millj. kr. á árinu 2003, úr 143 millj. kr. í 127 millj. kr. Samsvarandi lækkar liður 2.2.1 „Yfirborð brauta og hlaða“ úr 57 millj. kr. í 36 millj. kr. á árinu 2003 og liðurinn „Tækjasjóður“ hækki úr 70 millj. kr. í 75 millj. kr. Á árinu 2004 hækki „Viðhaldssjóðir“ úr 134 millj. kr. í 155,1 millj. kr. og samsvarandi hækki liðurinn „Yfirborð brauta“ úr 48 millj. kr. í 59,2 millj. kr. og „Tækjasjóður“ úr 70 millj. kr. í 79,6 millj. kr. Jafnframt er gert ráð fyrir að „Viðhaldssjóðir“ lækki úr 136 millj. kr. 2006 í 129,6 millj. kr. til að fjármagna framkvæmdir við Þingeyrarflugvöll. Samsvarandi lækki liður 2.2.1 „Yfirborð brauta og hlaða“ úr 50 millj. kr. árið 2006 í 41,8 millj. kr.
     5.      Lagt er til að flugvellir í grunnneti hækki um 44 millj. kr. á árinu 2003 úr 353 millj. kr. í 397 millj. kr., á árinu 2004 úr 218 millj. kr. í 264,3 millj. kr., á árinu 2005 úr 242 millj. kr. í 321,4 millj. kr. og á árinu 2006 úr 258 millj. kr. í 336,7 millj. kr. Breyting þessi sundurliðast þannig að liðurinn „Reykjavíkurflugvöllur, byggingar“ lækkar úr 141 millj. kr. í 131 millj. kr. árið 2003, liðurinn „Ísafjarðarflugvöllur/Þingeyri, flugbrautir og hlöð“ hækkar um 5 millj. kr. vegna undirbúnings við lengingu flugbrautar á Þingeyri og sami liður hækkar um 5 millj. kr. vegna undirbúnings öryggissvæða við Ísafjarðarflugvöll. Samtals hækkar því liðurinn „Ísafjarðarflugvöllur/Þingeyri, flugbrautir og hlöð“ um 10 millj. kr., þ.e. úr 2,5 millj. kr. í 12,5 millj. kr. árið 2003. Gert er ráð fyrir að á árinu 2004 hækki liðurinn „Ísafjarðarflugvöllur/Þingeyri, flugbrautir og hlöð“ úr 13 millj. kr. í 64,3 millj. kr. vegna lengingar flugbrautar á Þingeyri. Af sömu ástæðu hækkar þessi liður úr 14 millj. kr. í 53 millj. kr. 2005 og af sömu ástæðu er hér lagt til að liður þessi verði 58,2 millj. kr. árið 2006. Gert er ráð fyrir að tvær framkvæmdir við aðflugs- og öryggisbúnað á Ísafjarðarflugvelli víxlist þannig á milli ára að árið 2005 verði flugbrautarljós endurnýjuð en aðflugsbúnaðurinn endurnýjaður árið 2006. Þetta þýðir að liðurinn „Ísafjarðarflugvöllur/Þingeyri, aðflugs- og flugöryggisbúnaður“ verði árið 2005 15,3 millj. kr. í stað 30 millj. kr. og samsvarandi verði sami liður 30,6 millj. kr. árið 2006 í stað 15 millj. kr. Hér er gert ráð fyrir að við liðinn „Bíldudalur“ bætist „flugbrautir og hlöð“ að upphæð 3 millj. kr. 2003 vegna undirbúnings framkvæmda við öryggissvæði. Á lið 2.2.2.1 í flokki III „Grímsey, flugbrautir og hlöð“ er lagt til veita 41 millj. kr. árið 2003 og 41,8 millj. kr. 2004 til að endurbyggja flugbraut á eynni.
     6.      Á 88. fundi flugráðs var afgreidd umsögn ráðsins um flutning snertilendinga í æfinga- og kennsluflugi á Reykjavíkurflugvelli. Þar leggur flugráð eftirfarandi til: „Í stað þess að byggja sérstakan flugvöll til þess að taka við snertilendingum eigi að leita leiða til þess að koma þessum æfingum fyrir á Keflavíkurflugvelli annars vegar og hins vegar verði hluta af þeim fjármunum sem fyrirhugað er að verja í æfingarflugvöll varið í að endurbæta Sandskeiðsflugvöll þannig að hann nýtist æfinga- og kennsluflugi til snertilendinga.“
                  Í samræmi við þetta leggur meiri hlutinn til að hætt verði við byggingu sérstaks æfingarflugvallar. Þó er gert ráð fyrir að heimilað verði að endurbæta æfingarflugvelli í nágrenni Reykjavíkur, einkum á Sandskeiði, þannig að á árinu 2003 verði framlag á liðnum 2.1 „Aðrir flugvellir utan grunnnets“ 14 millj. kr. í stað 73 millj. kr. Á árinu 2004 lækki framlag úr 65 millj. kr. í 6 millj. kr. til æfingarflugvalla í nágrenni Reykjavíkur. Samtals verði því framlag til flugvalla utan grunnnets 9,2 millj. kr. árið 2004. Á árunum 2005 og 2006 er lagt til að ekkert framlag verði á þessum lið. Samsvarandi breytist liður 2.2.2.3 „Æfingarflugvöllur“ þannig að í stað 73 millj. kr. árið 2003 komi 14 millj. kr. og í stað 65 millj. kr. árið 2004 komi 6,1 millj. kr. Árin 2005 og 2006 verði ekkert framlag á þessum lið.
     7.      Þá er lagt til að liðurinn 2.1 „Önnur mannvirki, búnaður og verkefni“ lækki úr 160 millj. kr. árið 2003 í 150 millj. kr. Þetta er gert vegna framkvæmda á flugvöllum. Samsvarandi lækkar liður 2.2.2.4 „Önnur verkefni“ úr 47 millj. kr. 2003 í 37 millj. kr. árið 2003.
     8.      Að lokum er lagt til að Keflavíkurflugvelli verði bætt við fremst í liðinn 2.3.1 „Flugvellir í grunnneti.

II. Siglingamálaáætlun:
     1.      Hafnasamlag Norðurlands, Akureyri: Nýtt verkefni „Upptökubraut“ komi inn árið 2005. Áætlaður kostnaður 2,9 millj. kr. (hlutur ríkissjóðs 1,7 millj. kr.). Á móti lækkar áætlaður kostnaður við verkið „Sverrisbryggja rifin, ný bryggja fyrir fóðurskip (40m)“ um sömu upphæð.
     2.      Hafnasamlag Norðurlands, Grenivík: Nýtt verkefni „Upptökubraut“ komi inn árið 2005. Áætlaður kostnaður 2,9 millj. kr. (hlutur ríkissjóðs 1,7 millj. kr.). Liðurinn „Óskipt til slysavarna o.fl.“ lækki samsvarandi árið 2005.
     3.      Djúpivogur: Fjárveiting árið 2004 er hækkuð vegna uppgjörs verkefnisins „Stálþil í Gleðivík“. Hlutur ríkissjóðs verði 2,8 millj. kr. Liðurinn „Óskipt til slysavarna o.fl.“ lækki samsvarandi árið 2004.
     4.      Sandgerði. Framkvæmdum við stálþil á Norðurgarði og uppsátur fyrir smábáta o.fl. er frestað til 2004 og síðar. Við það losna 25,5 millj. kr. sem lagt er til að fluttar verði í framkvæmdir við sjóvarnagarða samkvæmt nánari lýsingu hér á eftir. Fjárveitingum skal síðan skilað til Sandgerðis árin 2004–2006.
     5.      Árneshreppur. Lagt er til að sjóvörnum við Gjögur, sem vinna átti 2006 verði flýtt til ársins 2003. Áætlaður kostnaður er 2,4 millj. kr. (hlutur ríkissjóðs 2,1 m.kr).
     6.      Reykjanesbær. Lagt er til að sjóvörnum við Bakkastíg í Njarðvík, sem vinna átti 2004, verði flýtt til 2003. Áætlaður kostnaður er 4,8 millj. kr. (hlutur ríkissjóðs 4,2 millj. kr.).
     7.      Reykjanesbær. Lagt er til að sjóvörnum við Ægisgötu í Keflavík, sem vinna átti 2005, verði flýtt til 2003. Áætlaður kostnaður er 11,9 millj. kr. (hlutur ríkissjóðs 10,4 millj. kr.).
     8.      Reykjanesbær. Lagt er til að sjóvörnum, ný verkefni (við Skipaafgreiðslu Suðurnesja í Ytri-Njarðvík og Seylubakka og Kópu í Innri-Njarðvík) bætist við árið 2003. Áætlaður kostnaður er 7,1 millj. kr. (hlutur ríkissjóðs 6,2 millj. kr.).
     9.      Vatnsleysustrandarhreppur. Lagt er til að sjóvörnum við Auðnar, sem vinna átti 2004, verði flýtt til 2003. Áætlaður kostnaður er 2,9 millj. kr. (hlutur ríkissjóðs 2,6 m.kr).

III. Vegáætlun:
    Lögð er til breyting á tekjuhlið í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um viðbótarfé til eflingar atvinnutækifærum, annars vegar 3.000 millj. kr. á árinu 2003 og 1.600 millj. kr. á árinu 2004. Gjaldamegin eru þessar upphæðir færðar undir stofnkostnað á grunnneti.
    Gerð er grein fyrir skiptingu fjárins á einstök verkefni á bls. 30–31 í breytingartillögu meiri hlutans undir lið 4.2.1.7. Farin er sú leið að breyta áætluninni að öðru leyti sem minnst en gera sérstaka grein fyrir meðhöndlun þeirra fjárveitinga sem losna við þetta á síðari árum áætlunarinnar. Nánar verður síðan fjallað um þær tilfærslur við næstu endurskoðun.
    Með hliðsjón af því markmiði að efla atvinnu á þessu ári og því næsta leggur meiri hlutinn til að Vegagerðinni verði heimilt að lána fé á milli verkefna eftir því sem þau verða tilbúin til framkvæmda. Þetta á fyrst og fremst við um árið í ár en endurgreiðslur kæmu þá á næsta ári og í undantekningartilfellum á árinu 2005.
    Að öðru leyti er sundurliðun útgjalda hefðbundin. Skipting fjár til einstakra verkefna í almennum verkefnum, tengivegum, ferðamannaleiðum og milli kjördæma eru innan þess ramma sem lagt var upp með í tillögunni.
    Loks er lagt til að lýsing eftirtalinna vega verði með svofelldum hætti:
     1.      Garðskagavegur: Frá hringtorgi á Reykjanesbraut við Rósaselstjarnir ofan Keflavíkur, um Gerðar og Sandgerði, ofan Básenda, á Hafnaveg austan Ósabotna.
     2.      Innnesvegur: Af Akrafjallsvegi hjá Reyni, um Ytrahólm og Innnesveg á Akranesi, á Akranesveg.
     3.      Akranesvegur: Af Akrafjallsvegi innan kaupstaðar um Þjóðbraut á Akranesi og Faxabraut að höfn.
     4.      Haganesvíkurvegur: Af Siglufjarðarvegi á Móshöfða, um Haganesvík á Siglufjarðarveg hjá Langhúsum.
     5.      Djúpavogsvegur: Af Hringvegi, að höfn í Gleðivík á Djúpavogi.
     6.      Breiðdalsvegur: Af Hringvegi hjá Heydölum, yfir Breiðdalsá hjá Sveinshyl, á Hringveg hjá Ósi.
     7.      Suðurbyggðarvegur í Breiðdal: Af Hringvegi innan Ásunnarstaða, yfir Breiðdalsá hjá Flögu, um Randversstaði, á Breiðdalsveg við Skammadalsá.

Alþingi, 10. mars 2003.Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.Arnbjörg Sveinsdóttir.


Sigríður Ingvarsdóttir.