Breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 16:11:14 (3711)

2004-02-02 16:11:14# 130. lþ. 54.94 fundur 283#B breytingar á eignarhaldi í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Kemur okkur það við þegar fyrirtæki eru seld eða keypt á hinum frjálsa markaði? Er einhver ástæða til að ræða slíkt á Alþingi? Mitt svar er já, þegar verið er að ráðstafa stórum hluta af aflaheimildum á Íslandsmiðum um leið og sala á sér stað.

Óvenjustór hluti aflaheimilda á Íslandsmiðum var boðinn til kaups nýlega, nánar tiltekið tæp 11% af heildarkvóta. Það gerðist þegar Eimskip ákvað að selja hæstbjóðanda eignir sínar í sjávarútvegi.

Fyrirtæki ganga kaupum og sölum í öllum greinum atvinnulífs og vandséð að slíkar sölur fyrirtækja verði fundarefni í sölum Alþingis í hvert skipti. En þegar um er að ræða sölu á fyrirtækjum sem eru meginburðarstoðir atvinnulífs á hverjum stað fyrir sig er ekki undarlegt þó að staldrað sé við og spurt: Hvað á að taka við ef starfsemi slíks fyrirtækis er flutt í burtu og ekkert kemur í staðinn? Berum við einhverja ábyrgð á því að fasteignir þeirra sem búa á þessum stöðum hrynja í verði um leið og íbúar leita leiða til að flytja í burtu? Berum við einhverja ábyrgð á því að tekjur þessara sveitarfélaga hrynja og rekstur þeirra þar með gerður nánast ómögulegur. Það hljótum við að gera, virðulegi forseti, og því getum við ekki vikið okkur undan því að ræða málið af alvöru.

Ég er ekki að halda því fram að aflaheimildir verði fluttar í burtu í framhaldi af sölu Brims á HB, Skagstrendingi og ÚA. En við höfum öll séð og heyrt blendin viðbrögð heimamanna við sölunni og óttinn er vissulega fyrir hendi.

Við sem störfum á hinu háa Alþingi hljótum að þurfa að taka vandaða umræðu og ítarlega skoðun á hvernig hægt sé að koma til móts við byggðarlög sem hafa lent í þeirri stöðu að aflaheimildir hafa verið seldar og fluttar í burtu. Við höfum mörg dæmi um slíkt og nægir að nefna Sandgerði í því tilefni. Fylgismenn núverandi kerfis hafa sagt að þeir sem missi geti alltaf keypt til baka en við sem fylgdumst með sölu á Brimi vitum að Sandgerðingum var í raun ekki heimilað að gera raunverulegt tilboð í þann kvóta sem þaðan hafði flust á Akranes.

Hróp og köll, virðulegi forseti, og tveggja mínútna andarteppuræður á Alþingi leysa ekki vandann. Við verðum að leita annarra leiða.