Erfðafjárskattur

Mánudaginn 02. febrúar 2004, kl. 17:23:25 (3731)

2004-02-02 17:23:25# 130. lþ. 54.6 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv., DJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 130. lþ.

[17:23]

Dagný Jónsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér hér að víkja að því máli sem hér er á dagskrá. Ég fagna breytingum á frv. til laga um erfðafjárskatt. Það er ljóst að gallar gildandi kerfis eru ýmsir og ber þar auðvitað hæst skatthlutfallið sjálft sem fer stighækkandi eftir hæð gjaldstofns og sifjatengslum og getur orðið allt að 45%. Það er ljóst að slík hækkun á skatti dregur úr skilvirkni, skapar hættu á ýmiss konar ráðstöfunum fyrir andlát arfleifanda og einnig sýnir reynslan að háir jaðarskattar ýta undir undanskot.

Í gildandi lögum er jafnframt sá galli að skattstofn hefur ekki verið nægilega skýr og í mörgum tilvikum hafa skilyrði fyrir undanþágum verið mjög óljós.

Tvær stærstu breytingar frv. eru í fyrsta lagi veruleg lækkun skatthlutfalls og í öðru lagi hækkun skattfrelsismarka. Þannig munu greiðslur fara allt niður í 5% í a-flokki en í b-flokki 10% skattur, sem áður gat farið í allt að 45%.

Heildarskattleysismörkin í hverju dánarbúi munu hækka verulega, þ.e. úr 60 þús. kr. í 1 millj. kr. Vert er að taka fram að erfðafjárskattur verður eingöngu lagður á þá fjárhæð sem er umfram viðmiðunarmörk.

Einnig vil ég geta þess að breyting í c-lið 9. gr. er mikið réttlætismál og þá sérstaklega fyrir landsbyggðina.

Frv. mun án efa skila greiðendum erfðafjárskatts um 400 millj. kr. á ári samkvæmt upplýsingum í framsögu hæstv. fjmrh. og ber að fagna slíkri skattalækkun. Einnig má gera ráð fyrir því að nú, þegar reglurnar verða skýrari og réttlátari, muni undanskotum fækka. Því má búast við að tekjur ríkissjóðs aukist og nái að vega upp tekjutapið. Upp úr stendur því að lögin eru einfölduð og koma þeim sem hlut eiga að máli til góða.

Að svo stöddu ætla ég ekki að fara nánar í frv. Ég mun ræða það í hv. efh.- og viðskn. Ég vil þó taka fram hér að lokum varðandi orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar að í fjárlögum þessa árs er um 9% aukning á framlögum til velferðarmála. Við vitum öll að þörfin er meiri og ég geri ekki lítið úr því. En þó er mikilvægast að halda til að haga að áðurnefndur málaflokkur er í forgangi hjá ríkisstjórninni.