Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 14:31:15 (4000)

2004-02-10 14:31:15# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins grípa inn í ræðu hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar þar sem hann ræðir um fátækt í dreifbýli. Ég tek undir áhyggjur hans í þeim efnum. Það hefur glöggt komið í ljós að tekjur bænda hafa dregist saman, sérstaklega sauðfjárbænda. Þar hafa verið miklir erfiðleikar og það kemur til að mynda niður á skólagöngu barna þeirra sem eiga ekki of drjúga sjóði.

Mig langaði til að geta þess að þegar settar voru á fjárlögum í haust 140 millj. kr. til sauðfjárbænda voru æðimargir, hér í þessum sal meira að segja, sem gagnrýndu þetta sem ég tel, þó að upphæðirnar hafi verið lágar, að hafi skipt máli. Það skiptir máli fyrir þann sem ekki á of mikið að fá þótt ekki sé nema örlítil upphæð. Þessum 140 millj. kr. var skipt á milli sauðfjárbænda og þær fóru á alla sauðfjárbændur.

Varðandi bændur sem ekki geta sótt sér vinnu annað, 7.500 ærgildunum var deilt á þá sem ná ekki eða geta ekki sótt sér vinnu annað og á það var líka bullandi gagnrýni. Byggðastofnun er skömmuð út og suður fyrir það að Skagfirðingar náðu ekki inn í þá skilgreiningu en það gerðu aftur á móti Vestfirðirnir, 2--3 bæir í Vestur-Skaftafellssýslu, enginn í Austur-Skaftafellssýslu, enginn á Suðurlandi, en ærgildin fóru til þeirra þar sem línan var dregin, þar sem menn geta ekki sótt sér aðra vinnu daglega.

Varðandi úreldingu sláturhúsa var nauðsynlegt að fara í þessa aðgerð. Ég tel að það verði samt að gæta þess að leyfa einhverjum þessara litlu sláturhúsa að vera í friði. Af því að hv. þm. nefndi Kirkjubæjarklaustur munar t.d. um að 25 millj. kr. koma inn í það samfélag bara í sláturtíðinni að hausti.