Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:45:55 (4024)

2004-02-10 15:45:55# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þennan einkunnaskala sem hv. þm. er að nefna getur hann haft fyrir sig. Það var ekkert óskaplega mikill munur á því hvernig menn reiknuðu út þennan komandi arð af þeim framkvæmdum sem hafnar eru fyrir austan. Ég man ekki betur en að við höfum verið á svipuðu róli og Framsfl., gróft metið, þegar við vorum að fást við þær hugmyndir um skattbreytingar sem við vorum með. Þær voru allar unnar út frá jafnaðarhugmyndum. Það er rétt sem hv. þm. sagði að auðvitað gerðu menn ráð fyrir því að taka á vandamálum eins og því sem við erum að ræða í þeim hugmyndum.

Það verður fróðlegt að sjá hvert framhaldið verður því að Sjálfstfl. setti fram enn þá hærri hugmyndir um hvað hægt væri að lækka skattana mikið. Þá hlýtur sú spurning að vakna: Mun Framsfl. sjá til þess að þær skattbreytingar gangi ekki fram nema hægt verði að koma til móts við þau félagslegu sjónarmið sem við höfum verið að ræða?