Aðgerðir gegn fátækt

Þriðjudaginn 10. febrúar 2004, kl. 15:51:27 (4027)

2004-02-10 15:51:27# 130. lþ. 61.8 fundur 21. mál: #A aðgerðir gegn fátækt# þál., BJJ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka þá umræðu sem farið hefur fram í dag um það þarfa málefni, till. til þál. um aðgerðir gegn fátækt. Ég tel að sú umræða sé um margt gagnleg og mjög þörf því við getum ekki horft fram hjá því að fátækt er til í íslensku samfélagi í einhverri mynd. Ég segi það sem stjórnmálamaður að ég horfi ekkert fram hjá því að sá vandi er til staðar í íslensku samfélagi.

Vissulega má alltaf deila á ríkisstjórn á hverjum tíma að gera megi betur í málefnum fátækra. Ég spyr hvort einhver ríkisstjórn hafi virkilega leyst öll þau vandamál sem hafa verið uppi á hverju tímabili fyrir sig. Ég vil minna á að það var nú síðast 1991--1995 að m.a. Alþýðuflokkurinn átti aðild að ríkisstjórn, margir núverandi þingmenn Samf. í dag sem sitja á þingi og hafa talað um þetta vandamál sem er uppi í íslensku þjóðfélagi. Ég spyr hvort sú ríkisstjórn hafi virkilega leyst öll þau vandamál sem þá voru uppi í samfélaginu því að mér finnst menn tala með þeim hætti að það sé ekkert mál að laga allt sem aflaga hefur farið.

Við leysum einfaldlega aldrei öll vandamál. Ég held að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir geri sér mjög vel grein fyrir því sem fyrrv. félmrh. í erfiðu ráðuneyti að viðfangsefnin eru mörg og mjög brýnt að bregðast við þeim. Ég vil minna hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur á að þegar hún var ráðherra var Framsfl. í stjórnarandstöðu og beitti þá miklu aðhaldi, sem er nauðsynlegt á hverjum tíma fyrir sig, og ég vil taka það fram í upphafi míns máls að mér finnst sú umræða sem hér fer fram mjög þörf.

En hvað um það. Ég tel að ríkisstjórnin sé að grípa til aðgerða til að sporna gegn fátækt í íslensku samfélagi. Ég vil því koma inn á nokkra þætti og byrja á því að ræða um atvinnumálin. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld reki ábyrga atvinnustefnu og stuðli að öflugu atvinnulífi því að án öflugs atvinnulífs höldum við ekki uppi öflugu velferðarkerfi.

Þær framkvæmdir sem nú eiga sér stað á Austurlandi munu skipta mjög miklu máli fyrir íslenskt samfélag til lengri tíma litið því að þær munu skila íslensku þjóðarbúi miklum fjármunum til lengri tíma litið.

Ég ber einnig þá von í brjósti að fyrirhugaðar framkvæmdir við Norðurál verði að veruleika því að þær munu skipta mjög miklu máli á höfuðborgarsvæðinu í atvinnumálum. Við verðum að horfast í augu við þann veruleika. Ég tek undir með mörgum þeim hv. þm. sem hafa talað í dag að atvinnuleysi er of mikið, u.þ.b. 3,5%, að mig minnir. Ég vil jafnframt benda jafnaðarmönnum á það að atvinnuleysi í Evrópusambandinu er 8--10% að jafnaði. Það væri gjörsamlega óásættanlegt ástand hér á landi, ég held að við getum verið sammála um það.

Ég tel að ákveðin mannréttindi séu falin í því að fólk hafi og fái atvinnu við hæfi. Ég fagna því frumkvæði sem hæstv. félmrh. hefur sýnt gagnvart því að vinna gegn atvinnuleysi ungs fólks og langtímaatvinnuleysi þess, því að það er mjög mikið vandamál og ég held að við getum öll verið sammála um það. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. félmrh. hefur brugðist við hvað það varðar enda er þar um mjög brýnt mál að ræða.

Mig langar að koma örlítið inn á húsnæðismál og rifja það upp að trúlega hafa aldrei jafnmörg félagsleg lán til húsnæðiskaupa verið afgreidd eins og í tíð Íbúðalánasjóðs. (Gripið fram í.) Frá 1999 hefur Íbúðalánasjóður trúlega afgreitt um 10 þúsund félagsleg lán með 90% lánshlutfalli. Sérstaklega gagnast þau lán ungu fólki sem eru að koma úr námi, skuldugu fólki, og það skiptir mjög miklu máli. Ég hef trú á því að sú vinna sem nú er í gangi við að skipuleggja nýtt húsnæðislánakerfi muni skila miklu fyrir Íslendinga sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið.

Hvað varðar framboð á leiguhúsnæði þá hefur mikið átak verið í gangi hvað það varðar. Um 3.000 leiguíbúðir hafa verið fjármagnaðar með lánum sem veitt eru af Íbúðalánasjóði með ríkisábyrgð. Ég vil minna þá hv. þm., sem hafa verið að ræða um að ekki sé nægilegt framboð af lánum með lágum vöxtum, á að það er lánaflokkur hjá Íbúðalánasjóði með 3,5% vexti og er ætlaður til sveitarfélaga og félagasamtaka. Því miður hefur sá lánaflokkur ekki verið nýttur til fulls. Nýtingin á þeim lánaflokki, sem rúmar um 400 íbúðir á ári, hefur því miður ekki verið nýttur á umliðnum árum og er það miður. Ég tel að mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu megi gera betur í því að byggja upp félagslegt húsnæðiskerfi í sínum sveitarfélögum. Ég fagna því að í þessari till. til þál., m.a. þar sem vikið er að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, er sagt að hækka þurfi viðmið sveitarfélaganna um fjárhagsaðstoð, en þau eru hjá flestum sveitarfélögum um 70 þús. kr. á mánuði til einstaklinga.

Það er óviðunandi. Menn eru að hneykslast á mjög lágum húsaleigubótum, sem eru of lágar, en ég vil taka fram að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er mun lægri en núverandi húsaleigubætur, sem eru allt of lágar. Ég fagna því ef menn ætla að fara í breytingu á því kerfi sem menn hafa búið við á umliðnum árum. Ég vil sjá hækkaðar húsaleigubætur því að menn lifa ekki af 76 þús. kr. einum saman.

Að lokum vil ég nefna að það er mjög mikilvægt fyrir láglaunafólk í þeim kjarasamningum sem eru fram undan að lágmarkstaxtar verði hækkaðir verulega. Lágmarkstaxtar eru nú í kringum 90 þús. kr., sem eru of lág kjör að mínu mati. Margt fólk, sérstaklega á landsbyggðinni, býr við þau kjör. Ég tel mjög brýnt að verkalýðshreyfingin beiti sér fyrir því að lágmarkstaxtar og lágmarkslaun verði hækkuð verulega í fyrirhuguðum samningum. Það er stórt kjaramál því margir búa við fátækt sem eru að vinna á almennum vinnumarkaði á lágmarkslaunum.

Þess vegna er mikilvægt í aðdraganda kjarasamninga að stjórnvöld hugi að þeim stöðugleika sem nauðsynlegur er í tengslum við slíka kjarasamninga og sú ríkisstjórn sem nú er við völd hefur sýnt mjög ábyrga fjármálastjórn. Við horfum á mjög litla verðbólgu og öll skilyrði til þess að hófleg hækkun almennra launa geti átt sér stað vegna þess að verðbólga er lág. Ég vil sjá veglega hækkun hjá þeim sem búa við lægstu launin.

Ég þakka enn og aftur fyrir umræðuna. Mönnum hefur verið tíðrætt um svik hvað varðar skattalækkanir. Ég vil segja að í aðdraganda kosninga lofuðum við framsóknarmenn myndarlegum skattalækkunum, sögðum að þær mundu koma til framkvæmda á síðari hluta kjörtímabilsins og í tengslum við gerð kjarasamninga, og það mun allt saman standa.