Varðveisla hella í Rangárvallasýslu

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 11:50:34 (4138)

2004-02-12 11:50:34# 130. lþ. 63.7 fundur 474. mál: #A varðveisla hella í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[11:50]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka afar fróðlegt svar frá hæstv. menntmrh. Það er alveg hárrétt sem fram hefur komið, bæði frá fyrirspyrjanda og ráðherra, að það eru mjög margir merkilegir hellar í Rangárþingi og reyndar víðar á Suðurlandi. Fjárln. hefur lagt fram til verkefnis á viðgerðum á hellum í Rangárþingi ytra tvisvar sinnum á fjárlögum, 3 millj. kr. í hvort skipti, og sl. sumar var mikil viðgerð á Hellnahelli í Landsveit og er hann opinn almenningi. Þar hafa verið haldnir miklir og merkilegir tónleikar og ég vil endilega geta þess að á kristnihátíð var haldin messa í hellinum sem biskupinn yfir Íslandi tók þátt í ásamt prestunum í Rangárþingi. Eins hafa verið haldnir tónleikar í Ægissíðuhellum. Allt skiptir þetta miklu máli fyrir ferðaþjónustuna og alveg nauðsynlegt að halda þessum mannvirkjum við.