Aðgengismál fatlaðra

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 13:52:30 (4184)

2004-02-12 13:52:30# 130. lþ. 63.18 fundur 264. mál: #A aðgengismál fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það gleður mig sannarlega að farin skuli af stað vinna í samræmi við þau tilmæli sem komu frá starfshópnum sem skipaður var árið 1999, reyndar eftir samþykkt þáltill. sem ég flutti hér á hv. Alþingi.

Ég vildi beina spurningu til hæstv. ráðherra: Hvernig er háttað eftirliti með þessum ferðamannastöðum og þeim sem bjóða upp á sumardvalir, t.d. fyrir fatlaða einstaklinga?

Ég er hér með bréf sem Landssamtökin Þroskahjálp sendu árið 2001, reyndar til félmrn. Þar kemur fram að brotalamir séu í starfsemi sem snúi að sumardvalar- og ferðatilboðum sem einkaaðilar bjóða fólki með fötlun, einfaldlega vegna þess að ekki sé um neitt opinbert eftirlit að ræða.

Þar segir, með leyfi forseta:

,,Brotalamir í þessari starfsemi eru þær að enginn aðili innan hins opinbera eftirlitskerfis hefur talið sig eiga að standa vörð um að almennir grunnþættir þessarar þjónustu standist þær kröfur sem almennt er krafist. Undirritaður hefur sannreynt að aðilar eins og samgönguráðuneytið telur að sumardvalir fullorðinna fatlaðra heyri tæpast undir lög um veitinga- og gististaði þó að sannarlega sé verið að selja fólki bæði gistingu og mat. Nú nýlega fékk ég það staðfest að Barnaverndarstofa telur að henni beri ekki að gefa út leyfi vegna sumardvalar fatlaðra barna, jafnvel þó að þær séu reknar af félagasamtökum eða einkaaðilum.`

Undir bréfið skrifar Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig er háttað eftirliti með aðgengi fyrir fatlaða og að allir þeir staðir sem bjóða sumardvöl eða afþreyingu fyrir fatlaða fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru?