Rafræn þjónusta

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004, kl. 14:26:20 (4195)

2004-02-12 14:26:20# 130. lþ. 63.26 fundur 490. mál: #A rafræn þjónusta# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Ágæti forseti. Ég þakka ráðherra svarið og þann áhuga sem hún og ráðuneyti hennar hafa vissulega sýnt þessum málaflokki. Því ber að fagna sérstaklega að þessum þróunarverkefnum úti á landsbyggðinni hafi verið hrint úr vör og þau eigi sér stað. Þar sem maður kynnir sér þau finnur maður að áhrifa þeirra er þegar farið að gæta, bæði í áhuga almennings og sveitarstjórnarmanna, til að efla verulega þessa þjónustu. Menn sjá strax möguleikana sem felast í rafrænni þjónustu hvers konar í gegnum opinbera stjórnsýslu. Ég hvet ráðherra til að standa sérstaklega að því að fá önnur sveitarfélög til að fylgja í kjölfarið og nýta sér þekkingu og reynslu og þau tækifæri sem nefnd sveitarfélög, Árborg, Hveragerði og Ölfus, og síðan sveitarfélögin fyrir norðaustan, eru að byggja upp um þessar mundir.

Það má nefna inn í þessa umræðu það sem segir í niðurstöðu matsnefndar um verkefnið. Þar segir að hjá Sunnan 3 sé meginstyrkur Sunnan 3 víðtækar áætlanir um beitingu upplýsinga- og fjarskiptatækni til að ná fram skilvirkari stjórnsýslu í rekstri sveitarfélaganna þriggja.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Verkefnið skiptist í fjögur undirverkefni sem ná til allra íbúa þessara þriggja sveitarfélaga, sem eru um 10.000 talsins:

1. Notendavænt þjónustutorg.

2. Skrifstofuhótel.

3. Sameining í netheimum -- skilvirkari stjórnsýsla.

4. Ungir fræða hina eldri.``

Það verður einmitt að fylgja, virðulegi og ágæti forseti, að sem allra flestir íbúar sveitarfélaganna eða landsins alls geti nýtt sér hina opinberu rafrænu þjónustu en ekki bara þeir sem yngri eru. Hinir eldri þurfa ekki síður, og að mörgu leyti enn þá frekar, að leita sér upplýsinga og þjónustu sem bæði ríki og sveitarfélög veita í heilsugæslu og víðar.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að halda áfram af krafti á þessari braut og hífa Ísland upp úr 14. sætinu.