Heilbrigðisþjónusta

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 13:56:47 (4616)

2004-02-25 13:56:47# 130. lþ. 72.1 fundur 238. mál: #A heilbrigðisþjónusta# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. n. spyr: ,,Hvað líður undirbúningi varðandi aðskilnað kaupanda og veitanda heilbrigðisþjónustu á Íslandi?``

Á umliðnum árum hefur heilbr.- og trmrn. leitað mismunandi leiða til að kortleggja kosti og galla þess að skilja að hlutverk kaupanda og veitanda heilbrigðisþjónustu í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar frá árinu 1999. Eins og fram kom skipaði heilbrrh. árið 2000 nefnd til að kanna og gera tillögur um leiðir sem hugsanlega koma til greina varðandi aðskilnað kaupanda og veitanda heilbrigðisþjónustu hér á landi. Í skipunarbréfi nefndarmanna segir að reiknað sé með að ef af slíkum breytingum verði þá verði þeim komið á í áföngum. Jafnframt er tekið fram að fyrst skyldu gerðar tilraunir á tilteknum þáttum heilbrigðisþjónustunnar og ákvarðanir um framhaldið teknar í framhaldi af því.

Ástæðan fyrir að þetta starf nefndarinnar hófst á þessum nótum er sú að til þess að gera kaup heilbrigðisþjónustu mögulega þarf að skilgreina og kostnaðargreina sem best þá þjónustu sem kaupa skal. Nefndin fundaði níu sinnum og fól m.a. Landspítala -- háskólasjúkrahúsi að prófa notkun DRG (Diagnosis Related Groups), sjúkdómar miðað við flokkun, á kvennasviði. Í tengslum við það fundaði nefndin með DRG-vinnuhópi Landspítala -- háskólasjúkrahúss í lok ársins 2000. Fljótlega kom í ljós að upplýsingar sem DRG-flokkun á kostnaðarfærslu veittu nýttust vel við skipulag og stjórnun. Var því ákveðið af Landspítala -- háskólasjúkrahúsi að halda áfram með verkefnið og taka næst skurðlækningasvið og svæfingar, gjörgæslu- og skurðstofusvið. Þessi vinna hefur síðan haldið áfram og nú er verið að undirbúa innleiðingu DRG-flokkunar á fleiri sviðum á spítalanum.

Ljóst er að það þarf að aðlaga DRG-kerfið en nota aðra framleiðslumælikvarða fyrir sum svið. Má þar nefna endurhæfingu, hæfingu, líknarmeðferð í Kópavogi, öldrunarsvið og geðdeildir, en verið er að skoða sérstakar lausnir fyrir þessi svið. Spítalinn hefur verið í samvinnu við Norðurlöndin á þessu sviði og fylgist með öllum nýjungum þaðan. Heilbrrn. fylgist grannt með þessari vinnu og mun skoða reynslu spítalans gaumgæfilega áður en frekari ákvarðanir verða teknar.

Annað sem ég vil nefna hér og leiddi af fyrrgreindu nefndarstarfi var skipun nýrrar samninganefndar heilbr.- og trmrn. Þeirri nefnd var falið veigamikið hlutverk við að semja um kaup á heilbrigðisþjónustu. Nefndin hefur nú verið að störfum í tæplega tvö ár og verður reynslan af þeirri vinnu jafnframt höfð til hliðsjónar við ákvörðun um framhald innan ráðuneytisins.

Nú á haustdögum stóð til að kalla saman á ný fyrrgreinda nefnd er hóf störf árið 2000 en hefur ekki fundað um allnokkurn tíma. Ákveðið var að fresta því þangað til fyrir liggja niðurstöður úr nefnd sem skipuð var í september og hefur það hlutverk að fara yfir þau verkefni sem hugsanlegt er að flytja frá ríki til sveitarfélaganna, sérstaklega öldrunarþjónustu og heilsugæslu. Niðurstaða þeirrar nefndar ræður miklu um framhaldið. Því ef t.d. sveitarfélögin taka að sér heilbrigðisþjónustu yrði ríkið kaupandinn en sveitarfélögin veitandinn. Þetta fyrirkomulag hefur nú þegar verið reynt í svokölluðum reynslusveitarfélögum en nú eru í gildi þjónustusamningar bæði við Akureyri og Höfn í Hornafirði.

Þegar rætt er um aðskilnað kaupanda og veitanda þjónustu má hugsa sér það í ýmsum myndum. Hefur ráðuneytið leitað fleiri leiða til að koma þessari skipun á. Má þar nefna þjónustusamning við hjúkrunarheimilið Sóltún og þjónustusamning vegna heilsugæslustöðvar í Salahverfi. Loks má ekki gleyma því að heilbr.- og trmrn. hefur hafið notkun á RAI-mælikerfi fyrir hjúkrunarstofnanir en notkun þess kerfis er ein af forsendum þess að hægt sé að bjóða út rekstur hjúkrunarheimila. RAI-mælikerfið er notað sem grunnur að kaupum ríkisins á heilbrigðisþjónustu hjá ýmsum sjálfseignarstofnunum í öldrunarþjónustu.

Af svari mínu við fyrirspurn hv. þm. má sjá að heilbrrn. er með til skoðunar ýmsar leiðir til að skilja að hlutverk kaupanda og veitanda þjónustunnar. Jafnframt hefur verið ákveðið að bíða frekari reynslu, bæði á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi og af vinnu samninganefndar heilbr.- og trmrn. Hér má því ljóst vera að heilbr.- og trmrn. er tilbúið að skoða mismunandi leiðir til að tryggja heilbrigðisþjónustu svo framarlega sem þær uppfylla kröfur um aðgengi, öryggi og gæði.