Kostnaðarhlutdeild sjúklinga

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:30:19 (4631)

2004-02-25 14:30:19# 130. lþ. 72.3 fundur 516. mál: #A kostnaðarhlutdeild sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga hefur almennt aukist frá því fyrir 15 árum. Það er rétt hjá ágætum fræðimanni, Rúnari Vilhjálmssyni prófessor. Hins vegar verður að hafa allan varann á þegar um er að ræða athuganir yfir svo langt tímabil sem hér um ræðir. Samanburðarár eru í þessu tilliti tekin úr svo mismunandi landslagi að það er næstum eins og borin séu saman epli og appelsínur.

Í þessu sambandi verður að hafa hugfast að hlutur sjúklinga í greiðslum vegna læknisþjónustu breytist mjög mismunandi eftir því hvaða þjónustu um er að ræða. Á mælikvarða neysluverðsvísitölu, sem hækkaði frá mars 1997 til desember 2003 um tæplega 29%, lækkaði til að mynda tilkostnaður sjúklinga við heimsókn til heimilislæknis og var þá 94% af því sem hann var í mars 1997.

Hlutur sjúklings í greiðslu fyrir heilsugæslu almennt hafði hins vegar aukist á sama tímabili um rúmlega 31% samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, en eins og fram hefur komið opinberlega áður hækkaði hlutur sjúklinga í kostnaði við heimsókn til sérfræðilækna mun meira á sama tímabili.

Annar mælikvarði á að meta útgjöld sjúklinga er að skoða hlutfallslega skiptingu útgjalda við komu til sérfræðilækna milli sjúklings og Tryggingastofnunar ríkisins.

Árið 1998 greiddi sjúklingurinn að meðaltali 40,8% af kostnaði við komu til sérfræðilæknis en Tryggingastofnun 59,2%. Á árinu 1999 var skiptingin 33,3% á sjúkling en 66,7% á TR. Á árinu 2000 hafði hlutfallstala sjúklingsins lækkað í 29,9% en hlutur TR að sama skapi aukist í rúmlega 70%. Hlutfallsgreiðsla sjúklings lækkaði enn að meðaltali á árinu 2001 í 29,4% og á árinu 2002 hækkaði hlutur sjúklings svo aftur og varð að meðaltali 31,4% við komu til sérfræðilæknis en hlutur TR 68,6%.

Sé litið á tímabilið 1987--2001 sést að heilbrigðisútgjöld hafa hækkað um 276% meðan heilbrigðisútgjöld heimilanna hafa hækkað á sama tímabili um 316%. Verg landsframleiðsla hækkaði á tímabilinu um 258%, sem segir að hlutur heilbrigðisútgjaldanna þar af hafi hækkað á tímabilinu eða um tæp 5%. Heilbrigðisútgjöld heimilanna sem hluti af heildarútgjöldum til heilbrigðismála hækkuðu um 36% sem er svipað og hækkun heilbrigðisútgjalda á föstu verðlagi á þessu tímabili.

Þegar tekið er tillit til fjölgunar þjóðarinnar sést hins vegar að hækkun heilbrigðisútgjalda á mann nemur tæplega 20%.

Samanburð á þessu sviði til lengri tíma ber, eins og áður sagði, að taka með öllum fyrirvörum þar sem margs er að gæta og ytri breytingar verða til þess að ekki er hægt að rýna í tölu einar og sér.

Það verður að segjast að niðurstöður greinarhöfunda, þess efnis að útgjöld sjúklinga séu komin á varasamt stig og farin að bitna á aðgengi að þjónustunni, komi nokkuð á óvart miðað við þær almennu rannsóknaniðurstöður sem birtast annars í greininni og nýlegar niðurstöður í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá september 2002 sem sýna stóraukna aðsókn til allra þátta heilbrigðisþjónustunnar á tímabilinu 1997--2001.

Í grein Rúnars er greint frá rannsóknaniðurstöðum varðandi hamlandi áhrif á aðsókn til heilbrigðisþjónustu hjá nokkrum þjóðfélagshópum. Sú grein er byggð á rannsókn landlæknisembættisins frá 2001 varðandi aðgang að heilbrigðisþjónustunni eftir Rúnar Vilhjálmsson, Ólaf Ólafsson, Jóhann Ágúst Sigurðsson og Tryggva Þór Herbertsson. Þar kemur í ljós að meðalútgjöld heimilanna til heilbrigðisþjónustu eru um 2,3% af tekjum en fara í 3,5% hjá láglaunafólki sem er langhæsta útgjaldahlutfall allra þjóðfélagshópa. Hér er um að ræða fólk sem hefur undir 1.500 þús. kr. í heimilistekjur. Sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar til að þetta tekjulága fólk geti notið endurgreiðslu kostnaðar frá Tryggingastofnun sem nemur allt að 90% af heilbrigðisútgjöldum þess. Úrræðin eru því fyrir hendi og hafa verið til í meira en áratug.

Fram hefur komið í rannsóknum Rúnars Vilhjálmssonar að sjúklingar nýta sér þessi úrræði, svo sem afsláttarkortin, sérstöku greiðslureglurnar og aðrar ívilnandi reglur, afar mismunandi eftir félagslegri stöðu. Þetta gerist þrátt fyrir að það sé nánast regla að heilbrigðisstarfsmenn veki athygli sjúklinga á réttinum til afsláttarkorta og þótt greiðslureglur og aðrar ívilnandi reglur hafi margsinnis verið kynntar fyrir einstaklingum og samtökum sem hafa innan sinna vébanda tekjulægri hópa samfélagsins. Ráðuneytið fór t.d. í samvinnu við ASÍ fyrir u.þ.b. tveimur árum til að gera átak til að kynna þennan endurgreiðslumöguleika en því miður varð lítil breyting á.

Ég verð því miður að geyma mér frekari útlistanir til síðari ræðu minnar.