Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 16:07:21 (5149)

2004-03-10 16:07:21# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og hæstv. forsrh. fyrir svörin. Ég vil bregðast sérstaklega við einu þeirra, þ.e. við spurningunni um það hvort ástæða sé til að gera úttekt á svokölluðum þolmörkum fjármálakerfisins, sem á nútímaíslensku í ónefndum byggingum hér í bænum er kallað ,,stress-test``, hvað þola bankar, kerfið, sparisjóðir og aðrar fjármálastofnanir miklar snöggvægilegar breytingar í ljósi þess hversu hátt boginn er spenntur.

Ég tel að það að vísa í reglur Fjármálaeftirlitsins og boðaðar reglur samkvæmt heimildum í gildandi lögum um jafnvel hertar reglur sé ekki fullnægjandi svar. Ég vitna í því sambandi í afstöðu Fjármálaeftirlitsins sjálfs samanber t.d. viðtal við forstjóra þess í Morgunblaðinu 15. janúar, þar sem skýrt er tekið fram að tilgangur reglnanna sé ekki að veita almennt aðhald heldur að tryggja stöðu einstakra stofnana. Fjármálaeftirlitið lítur ekki á það sem hlutverk sitt að hafa áhyggjur af hinu almenna efnahagsástandi heldur að tryggja að einstakir aðilar standist kröfur. Þess vegna vísar Fjármálaeftirlitið í raun og veru frá sér því að bera ábyrgð á hinni almennu stöðu en horfir á hvern og einn fyrir sig.

Tilgangur umræðunnar, frú forseti, er ekki sá af minni hálfu að mála skrattann á vegginn. Ég fór með ekkert nema staðreyndir í máli mínu, vitnaði í opinberar og traustar heimildir, Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið, greiningardeildir banka og studdist við gögn frá Efnahags- og framfarastofnuninni. Ég met það við hæstv. forsrh. að hann gerir ekki lítið úr vandanum eða því hvað staðan er viðkvæm. Íslenska þjóðarbúið er ískyggilega skuldsett og þar bera nú um stundir hálfopinberir og opinberir aðilar, eins og bankarnir, mikla ábyrgð. Átti ekki ábyrgðin að aukast með einkavæðingunni? Annað upplifa margir nú, að nýríkir aðilar séu í gróðafíkn sinni orðnir óhæfilega áhættusæknir.

Er það kannski svo að hæstv. forsrh. ráði illa við uppvakninginn, draugsa einkavæðingarinnar?