Skuldastaða þjóðarbúsins

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 16:09:39 (5150)

2004-03-10 16:09:39# 130. lþ. 81.94 fundur 396#B skuldastaða þjóðarbúsins# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar umræður. Mér finnst gott að málshefjandi og aðrir hv. þm. hafi vakandi auga með því sem þarna er að gerast og ég tel það ekki að ástæðulausu. Ég hef sjálfur nokkrum sinnum vakið athygli á þessum þáttum þegar ég hef fengið tóm og tækifæri til, m.a. þar sem hlutaðeigendur mæta og eiga seturétt á þingum sem ég hef ávarpað. Afstaða mín liggur því nokkuð vel fyrir.

Ég tel að á marga lund sé það rétt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði áðan, að mál hafa þróast þannig að um sumt hefur áhrifavaldið færst frá opinberum aðilum til einkaaðila, til fjármálastofnana og banka. Við erum hér með fjárlög, sem ég geri svo sannarlega ekki lítið úr, að leitast við að skila ríkissjóði með afgangi upp á 4 eða 6 milljarða kr. og sláumst um hverja upphæð, ég geri ekki lítið úr því. Síðan, eins og ég nefndi áðan, aukast erlendar skuldir viðskiptabankanna á einu ári um 300 milljarða kr. Menn velta fyrir sér: Hvort skyldi hafa meiri áhrif, þessi ágæta afgangstala ríkissjóðs upp á 4 milljarða eða þetta inngrip, um 300 milljarðar, frá bankastofnunum?

Annað sem ég er hugsandi yfir er að þessi lán, mörg hver, sem þannig eru fengin inn eru til tiltölulega skamms tíma, skemmri tíma en áður tíðkaðist. Það er allt í lagi á meðan allt er í lagi, en um leið og harðnar á dalnum einhvers staðar annars staðar verða menn ofurseldir erlendu bankavaldi hvað þetta varðar.

Ég vek athygli á því að einn viðskiptabankinn til að mynda tekur helmingi hærra lán í einu vetfangi til einnar afgreiðslu en ríkissjóður og Seðlabanki hefur nokkru sinni treyst sér til að gera. Það hlýtur a.m.k. að vekja nokkra athygli.

Þess vegna, þó að við eigum ekki að takmarka frelsið ef við komumst hjá því, er það algjörlega nauðsynlegt hins vegar að menn hafi fulla aðgát í þessum efnum, bæði þingmenn og þær stofnanir þjóðfélagsins sem í hlut eiga.