Skólagjöld í Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 18:37:11 (5166)

2004-03-10 18:37:11# 130. lþ. 81.11 fundur 209. mál: #A skólagjöld í Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda, Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir að halda til streitu og spyrja þessara spurninga enn og aftur sem hér er spurt.

Ég er ekki alveg með á hreinu hvort hæstv. ráðherra ætlar að beita sér fyrir því að taka upp skólagjöld við Háskóla Íslands eða ekki. Meðan fjárframlög til skólans duga ekki til þess að taka við öllum þeim nemendum sem þangað sækja þannig að skólinn verði rekinn hallalaus þá hlýtur það alla vega að leiða skólann í ákveðna átt. Það hlýtur að leiða hann í þá átt að annaðhvort þurfi að neita nemendum um skólavist eða að leggja á skólagjöld.

Ef við sjáum að fjármunirnir eru að leiða stofnunina í ákveðna átt þá megum við ekki tala eins og við ætlum í einhverja allt aðra átt. Skilaboðin þurfa að vera skýr. Það eru þau ekki og hæstv. ráðherra væri maður að meiri að taka af skarið og svara þessu bara skýrt.