Danskennsla og ræðumennska í grunnskólum

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 19:20:30 (5188)

2004-03-10 19:20:30# 130. lþ. 81.14 fundur 712. mál: #A danskennsla og ræðumennska í grunnskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 130. lþ.

[19:20]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Áður en við föllumst í faðma og dönsum út úr þinghúsinu vil ég líka þakka fyrir umræðuna og hv. þm. Jóni Kr. Óskarssyni fyrir að hafa vakið athygli mína á þessu. Eins og ég gat um áðan tel ég ekki ástæðu til að ég taki þetta sérstaklega upp, því þetta rúmast innan aðalnámskrár. Engu að síður held ég að eitt besta aðhaldið fyrir m.a. skólastjórnendur heima í héraði sé athygli og aðhald foreldra og spurningar þeirra af hverju þetta er ekki kennt en frekar lögð áhersla á eitthvað allt annað sem við teljum jafnvel ekki henta börnunum okkar.

Ég tek eindregið undir að danskennsla og ekki síður framsögn og ræðumennska er eitthvað sem skólar ættu að leggja áherslu á. En þar erum við enn og aftur komin að sjálfstæði skólanna. Það getur vel verið að í jafnstórum sveitarfélögum og í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi komum við til með að sjá grunnskólana sérhæfa sig innan þeirra marka sem aðalnámskrá býður upp á. Þá erum við um leið komin út í enn þá stærra mál, miklu meiri skólapólitík, sem er að við foreldrar í samráði við börnin okkar getum valið um það í hvaða skóla börnin okkar fara. Ef kannski einn skóli sérhæfði sig í framsögn, ræðumennsku og danskennslu og væri góður í því, gætum við sent börnin okkar og barnabörnin jafnvel í þann skóla. Það er um að gera að styrkja og auka val foreldra og nemenda í grunn- og framhaldsskólum landsins.