Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 14:14:20 (5232)

2004-03-11 14:14:20# 130. lþ. 82.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[14:14]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það var sennilega ekki heppilegt orðalag hjá mér í máli mínu hér áðan, litlu andsvari, að tala um skilyrði því að auðvitað förum við ekki í samningaviðræður með einhverjum skilyrðum. Ég átti við samningsmarkmið og sum þeirra hljóta að vera þannig að menn geri ekki samninginn án þess að ná þeim þannig að menn geti sætt sig við.

Ræða hv. þm. Ögmundar Jónassonar var ekki tíðindamikil nema fyrir það að hún var gjörólík ræðum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, flokksbróður Ögmundar, sem talaði í allt öðrum dúr og hafði að leiðarljósi þá kenningu hv. þm. Jónínu Bjartmarz að það versta í þessum málum væri að standa í stað. En það gerir hv. þm. Ögmundur Jónasson. Í ítarlegri ræðu skýrði hann því miður ekki hver stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur verið. En leitað hefur verið mjög að henni í þessari umræðu. Fram kom hjá ræðumanni að Evrópusambandið væri eitthvert hið miðstýrðasta og ferlegasta bákn á jörðu hér og þótt víða væri leitað, en ekki kom fram hjá honum hvernig við Íslendingar ættum að koma okkur burt frá þessu bákni og leita leiða til þess að vera lausir við allar þær hörmungar og skaðræði sem því fylgja. Stefnubreytingu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í þessu efni var einmitt fagnað hér fyrr í umræðunni vegna þess að í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og þeim texta sem hann las upp úr þáltill. sem hér er borin fram á þinginu, kom í ljós að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur að því er virðist sætt sig við veru Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu, hvað sem nú gerðist fyrir tíu árum. En þetta virðist ekki hafa verið kynnt fyrir hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Nú óska ég skýringar á því hver hans stefna, og þeirra sem hann styður í flokknum sínum, er til þessa máls.