Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 16:00:36 (5264)

2004-03-11 16:00:36# 130. lþ. 82.7 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[16:00]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að hv. þm. geri heldur mikið úr þeim áhrifum sem samþykkt þessa frv. hefði á byggingarkostnað á landsbyggðinni. Það er talað um 0,2--0,4% af kostnaðarverði við byggingu steinhúsa. Það eru ekki mikil áhrif þó vissulega séu það einhver áhrif. Hann spyr hvað komi í staðinn og í því sambandi get ég endurtekið það sem ég hef áður sagt. Það er unnið að því að taka upp ákveðið styrkjakerfi vegna flutningskostnaðar. Það tel ég miklu mikilvægara mál en þetta.

En talandi um jöfnun almennt og mikilvægi þess að beita slíkum aðferðum til að jafna kjör fólks í landinu þá erum við einnig að fjalla um raforkumál þessa dagana. Í næstu viku verður væntanlega mælt fyrir þeim frumvörpum þar sem við leggjum til að það eigi sér stað jöfnun í sambandi við rafmagnskostnað fólks í landinu. Það væri ákveðið skref í þá átt að jafna kjör fólksins í landinu. Þó að þetta séu í raun óskyld mál þá vil ég halda því til haga að það er ekki þannig að stjórnvöld komi almennt fram með tillögur sem eru fólkinu á landsbyggðinni í óhag, síður en svo. Í rafmagnsmálinu er þessi hugsun í heiðri höfð.