Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 16:22:26 (5271)

2004-03-11 16:22:26# 130. lþ. 82.9 fundur 565. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (upplýsingaskylda, málshöfðunarheimild) frv., Flm. AtlG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Flm. (Atli Gíslason):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Jón Bjarnason, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Mér þótti nokkuð miður að frv. skyldi ekki komast á dagskrá á baráttudegi kvenna þann 8. mars sl. en við því er ekkert að segja. Ég hélt kannski að það mætti verða og mun e.t.v. koma að því síðar.

Ég hef um áratuga skeið verið áhugamaður um mannréttindi og margsinnis gripið til þeirra í störfum mínum sem lögmaður og á öðrum vettvangi. Ég reyni að hafa það fyrir reglu að setja upp mannréttindagleraugu þegar ég skoða einstök mál, þar á meðal mál er varða stöðu kvenna. Það gefur auðvitað sömu niðurstöðu að setja upp kynjagleraugu eða kvenfrelsisgleraugu.

Hvaða staða skyldi blasa við konum í dag, hver er staða kvenna í dag? Það liggur fyrir að atvinnutekjur kvenna eru að meðaltali tæp 60% af atvinnutekjum karla, en 70% ef horft er á jafnlangan vinnudag. Það liggur líka fyrir sú staðreynd að kynbundinn launamunur, þ.e. laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf er á bilinu 11%--18%. Því hefur verið haldið fram að 31% einstæðra mæðra hafi framfærslu af tekjum undir fátæktarmörkum. Það liggur fyrir að konur eru eingöngu um 20% af forstöðumönnum ráðuneyta og ríkisstofnana og hið sama gildir um nefndir og ráð á vegum ríkisins og ástandið er sýnu verra þegar kemur að einkarekstrinum.

Það hefur verið yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar frá 1998 að jafna launamun kynjanna og gæta jafnréttis kynjanna við opinbera stefnumótun en þessi markmið hafa litlu sem engu skilað.

Það blasir líka við að mannvirkjagerð hefur verið lausnarorð í atvinnuuppbyggingu en við hana vinna 12,8% karla en 0,7% kvenna. Við heilbrigðis- og félagsþjónustu vinna hins vegar 3,6% karla en 25,7% kvenna. Sem sé, kvennastörf eru hvorki metin að félagslegum né fjárhagslegum verðleikum. Karlar eru norm í íslensku þjóðfélagi en konur eru frávik, verk karla eru meira metin en verk kvenna. Það kom m.a. skýrt í ljós í umræðu í gær þegar hv. dómsmrh. ræddi um að það væri greitt eftir árangri í fangelsinu á Litla-Hrauni og þrif við bíla væru meira metin en þrif innan húss. Það sýnir ástandið í hnotskurn.

Það blasir líka við í þessum málum að klámbylgja hefur flætt yfir landið nánast átölulaust síðasta áratuginn. Það blasir við að vændi er landlægt og eykst með vaxandi fíkniefnaneyslu. Heimilisofbeldi er því miður enn landlægt á Íslandi og það er ein allsherjarkynjaslagsíða á þjóðfélaginu. Verst þykir mér að horfa upp á það þegar barnatískan gerir stúlkubörn að klæðlitlum kynverum --- eða stóð ekki á einhverjum bol sem seldur var í verslun í Reykjavík: ,,Pornstar in training``. Óhuggulegt.

Við vitum allt þetta og margt fleira um stöðu mála. Öll þessi mismunun er auðvitað óþolandi frá sjónarhóli mannréttinda og kvenfrelsis og er eiginlega óskiljanleg í ljósi þess að í 65. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um það að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis.

Síðan segir í 2. mgr. greinarinnar:

,,Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.``

Svo er alls ekki og það eru brotin mannréttindi á konum hvern einasta sólarhring, hverja klukkustund sólarhringsins, alla daga ársins. Það er ótrúlegt miðað við stjórnarskrána.

Þetta stjórnarskrárákvæði er ekki innantóm orð. Það er einu sinni svo að mannréttindi skipa og eiga að skipa æðsta sess í lýðræðissamfélagi nútímans. Konur búa hvorki við mannréttindi að þessu leyti né lýðræði eins og staðan er í dag og þar er kynbundni launamunurinn skýrasta dæmið. Það er verið að greiða mismunandi laun fyrir jafnlangan vinnudag fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, 11%-18%.

Það er auðvitað spurt hvað sé til ráða þegar staðan er þessi. Við vitum hvað blasir við og við vitum líka hvað er til ráða.

Kyrrstaða í jafnréttismálum verður ekki rofin nema með hugarfarsbreytingu og ríkum og einbeittum vilja þeirra sem við stjórnvöld sitja. Það hefur maður séð greinilega, t.d. þegar horft er til Reykjavíkurborgar. Það verður að láta verkin tala og vilji er allt sem þarf. Ríkisstjórnin verður, í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, að beita sér fyrir þjóðarsátt um verulega hækkun lægstu launa, launa meiri hluta ófaglærðra kvenna. Það tækifæri fór því miður forgörðum í síðustu kjarasamningum, síðasta tækifæri núv. ríkisstjórnar.

Ríkisstjórnin verður að útrýma fátækt meðal kvenna sem bitnar sárast á einstæðum mæðrum og börnum þeirra, svo sem með verulegri hækkun meðlaga, hækkun barnabóta, húsaleigubóta og með skattaívilnun. Ríkisstjórnin verður að fela opinberri stofnun að hafa virkt eftirlit með því að konum séu greidd jöfn laun og njóti sömu kjara og karlar fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, eins og hér er lagt til, og eftirlit með öðrum réttindum og skyldum kvenna og eftirlit með bannákvæðum jafnréttislaga.

Ríkisstjórnin verður að styðja dyggilega við bakið á konum og börnum sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og standa að öflugri kynningu og fræðslu á grafalvarlegum og ævarandi afleiðingum þessara ofbeldisbrota. Ríkisstjórnin verður líka að stöðva klám- og kynlífsvæðinguna sem veður uppi í þjóðfélaginu og það eru fjölmörg brýn verkefni ónefnd. Allt er þetta hægt ef vilji er fyrir hendi.

[16:30]

Ég hef ekki nefnt kynjakvóta við skipanir í stöður, ráð og nefndir á vegum ríkisins og í einkarekstri. Slík frv. hef ég reyndar þegar í undirbúningi og kalla eftir meðflutningsmönnum ef vilji er til þess.

Það þarf líka að huga að kynjafræðslu í skólum, forvörnum og fleiru. Síðasti áratugur hefur verið áratugur kyrrstöðu í kvenfrelsisbaráttunni sem er auðvitað, vel að merkja, sameiginlegt baráttumál beggja kynjanna. Jafnrétti er ekki einkamál eins eða neins. Frumvarpið er ein leið að þeim markmiðum og getur reynst beitt vopn í mannréttindabaráttu kvenna að mínu mati. Það verður að fara að lyfta glerþakinu af karlveldinu og lofta út, veita konum jafnrétti í raun, frelsi til orða og athafna.

Í núgildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er lýst mjög fallegum markmiðum í 1. gr. laganna, þ.e. að ,,viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins``. Þetta eru háleit markmið og þau hafa verið uppi mjög lengi.

Í II. kafla laganna er fjallað um stjórnsýslu og þar er í 3. gr. fjallað um hlutverk Jafnréttisstofu. Henni eru falin ærin verkefni. Hún á að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og ég vil gera þetta starf Jafnréttisstofu að umtalsefni á eftir. Jafnréttisstofa á að hafa eftirlit með III. kafla laganna, um réttindi og skyldur, þ.e. að atvinnurekendur skuli ,,vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði``. Jafnréttisstofa á líka að hafa eftirlit með því að fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skuli setja sér jafnréttisáætlun. Frú forseti. Það segir mér meira en mörg orð að Alþingi hefur enn ekki sett sér jafnréttisáætlun. Það færir mér heim sanninn um það hversu rík þörfin er á því að gera eftirlitið og valdheimildir Jafnréttisstofu virkar. Ég held að það ætti að bæta úr þessu sem fyrst. Þar með er ég þó ekki að segja að hér innan þingsins séu konur beittar misrétti eða öðru slíku. Það eru ekki mín orð. Jafnréttisáætlunin er leiðarljós, ekki bara um laun og skipan í störf, heldur líka um fjölskylduaðstæður og sitthvað fleira og er leiðarljós um að gera betur á morgun en í dag. Þess vegna er brýnt að hún sé sett.

Það eru fleiri atriði sem Jafnréttisstofa á að hafa eftirlit með. Það er auðvitað launajafnréttið, líka það að laus störf standi til boða bæði körlum og konum og það sem ég tel afar mikilvægt og kannski með mikilvægari hlutunum í dag er það sem heitir eftirlit með samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. ,,Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu.`` Þetta er auðvitað afar mikilvægt vegna þess að fjölskylduábyrgðinni er misskipt í dag. Ég held að enginn gangi gruflandi að því dæmi og það bitnar illa á konum úti á vinnumarkaði.

Aðeins í framhjáhlaupi vil ég nefna að með auglýsingu utanrrn. frá 28. júní 2000 var samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu, þ.e. starfsfólks með fjölskylduábyrgð, samþykkt.

Ég vek sérstaka athygli á inngangi þessarar samþykktar og þeim greinum sem þar fylgja á eftir, m.a. 3. gr. þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Með það fyrir augum að koma í raun á jöfnum möguleikum og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu skal sérhvert aðildarríki setja það markmið í stjórnarstefnu sína að gera einstaklingum með fjölskylduábyrgð, sem eru í atvinnu eða óska að vera það, kleift að framfylgja rétti sínum til þess án þess að verða fyrir mismunun og, að svo miklu leyti sem mögulegt er, án árekstra milli atvinnu þeirra og fjölskylduábyrgðar.``

Þetta er síðan nánar útfært í 4., 5. og 6. gr.

Þrátt fyrir þessa auglýsingu hefur lítið gerst á þessu sviði og ég hygg að konur séu alls ekki samkeppnishæfar á vinnumarkaði, ef svo má að orði komast. Ég nota þetta orð vísvitandi hér, samkeppnishæfar, vegna þess að bankastjóri Íslandsbanka, Bjarni Ármannsson, taldi í ræðu á málþingi eigi alls fyrir löngu --- að auki birtist grein eða viðtal við hann í Morgunblaðinu --- að lausnin á hinum kynbundna launamun væri samkeppni á vinnustöðum. Ég var mjög ánægður að sjá það að Bjarni Ármannsson skyldi stíga fram og lýsa skoðunum sínum í jafnréttismálum, koma fram á vettvang þannig að við getum skipst á skoðunum. Það sem vantar inn í rökstuðninginn er forsendan, þ.e. samkeppnisstaðan er ekki fyrir hendi. Það væri viðlíka og að Alþingi setti lög á Íslandsbanka og segði við bankann: Þið eigið að bjóða viðskiptavinum ykkar 15% lægri kjör en samkeppnisaðilar og svo eigið þið að fara í samkeppni.

Það er nákvæmlega það sem er að gerast á Íslandi gagnvart konum. Þær eru ekki í þeirri stöðu að stunda samkeppni um störfin á vinnumarkaði. Þess sjást mörg dæmi á vinnumarkaðnum þar sem konur í þessum hörðu stórfyrirtækjum þurfa að gefast upp. Þær þola ekki þennan langa vinnutíma, þær standast ekki samkeppni við ungu strákana sem príla hraðar upp en þær af því að þær þurfa að fara heim að sinna börnum og búi.

Fleiri skyldur eru með lögunum lagðar á Jafnréttisstofu en þær sem ég hef þegar gert að umtalsefni. Jafnréttisstofa á að hafa eftirlit með kynferðislegri áreitni og mun ekki af veita í þjóðfélaginu eins og dæmin sanna og málafjöldi fyrir dómstólum í þessum leiðu málum. Það er eftirlitsskylda með auglýsingum, og hvernig er staðan þar? Sjáum við ekki nær daglega kvenlíkamann misnotaðan í auglýsingum konum til minnkunar og lítilsvirðingar? Það þarf ekki annað en að fletta næsta blaði. Jafnréttisstofa á síðan að hafa eftirlit með menntun og skólastarfi með þátttöku í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera. Hvað er að gerast þar í eftirlitinu? 20% kvenna eru forstöðumenn ríkisstofnana.

Síðan á Jafnréttisstofa að hafa eftirlit með mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. bann við mismunun í kjörum, mismunun í ráðningu, í vinnuskilyrðum, bann við uppsögnum og varðandi menntun. Þetta eru afar viðamikil verkefni sem Jafnréttisstofu eru falin en henni er ekki gert kleift að sinna þeim, og hefur ekki verið gert.

Fyrir mér eru þessi lög eins og þau eru úr garði gerð orðin tóm. Þau eru fögur fyrirheit án nokkurra efnda. Við höfum haft jafnréttislög fyrir þessi lög. Það verða engin lög góð nema það séu tæki til að vinna þeim framgang. Þessu frv. er ætlað að veita Jafnréttisstofu auknar valdheimildir til að geta sinnt þessum brýnu eftirlitsstörfum sínum. Auðvitað leysir frv. ekki öll vandamál í þessu dæmi, ég geri mér fulla grein fyrir því, en þetta er ein leið að markinu.

Áður en ég vík að frv. sjálfu vil ég vekja athygli á því að í samræmdri könnun sem gerð var í sex Evrópulöndum árið 2002 og dr. Þorgerður Einarsdóttir, lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands, hafði umsjón með hér á landi kemur í ljós að á Íslandi er kynbundinn launamunur á almennum markaði meiri en á hinum opinbera. Þetta er í samræmi við launakannanir sem Félagsvísindastofnun hefur gert fyrir Verslunarmannafélag Reykjavíkur og launakannanir Reykjavíkurborgar. Það skýrist af því að einstaklingsbundnir launasamningar eru algengari á almenna markaðnum en hinum opinbera.

Síðan hefur það gerst að starfsfólki á almennum vinnumarkaði fer fjölgandi og sífellt er algengara að samið sé um laun á einstaklingsgrundvelli. Við höfum öll séð þá einkavæðingu sem hefur átt sér stað þar sem frelsi til viðskipta og athafna hefur verið einkavætt en ekki ábyrgðin. Þessar staðreyndir sem hér liggja fyrir ásamt landlægri launaleynd gera það að verkum að það verður sífellt erfiðara að fylgjast með launum, launaþróun og launamisrétti og það eru ýmsar vísbendingar frammi um það að kynbundið launamisrétti hafi fundið sér nýjan farveg í aukagreiðslum, svo sem bílahlunnindum, óunninni yfirvinnu og dagpeningum. Það eru engin ráð til þess í dag að fylgjast með því hvernig körlum er hyglað með greiðslum af slíku tagi. Og það er ekkert sem bendir til þess heldur í dag að kynbundni launamunurinn muni fara minnkandi. Þvert á móti benda alþjóðlegar rannsóknir til þess að kynbundinn launamunur muni aukast á næstu árum með auknum einstaklingslaunasamningum verði ekkert að gert.

Það er deginum ljósara að lagasetningar hafa ekki dugað til eins og málum háttar í dag og sértækar aðgerðir hafa heldur ekki, flestallar, skilað þeim árangri sem stefnt var að. Jafnréttissinnar hafa því í auknum mæli beint sjónum sínum að kerfislægri mismunun kynjanna en góð stjórnvaldstæki þarf til að vinna úr rótgrónum stöðumun kynjanna á vinnumarkaði. Að veita opinberri stofnun heimild til að afla gagna og vinna úr þeim upplýsingar er nauðsynlegt tæki til að greina stöðuna til að geta gripið til aðgerða.

Ólíkt hafast menn að á baráttudegi kvenna, 8. mars. Hér á Alþingi var frv. sem ég mæli fyrir fellt af dagskrá, ekki vannst tími til að ræða það. Ráðherrar og aðrir ráðamenn þjóðarinnar virðast hafa gleymt deginum. Enginn þeirra sá tilefni til að minnast hans og þeir höfðu ekkert til málanna að leggja á þeim degi.

Ólíkt hafast menn að. Þann 9. mars birtist forsíðufrétt í Morgunblaðinu þar sem stóð: ,,33,9% stjórnenda eru konur.`` Síðan segir í fréttinni að norsk stjórnvöld séu vel á veg komin með að ná fram því markmiði að 40% stjórnenda í opinbera geiranum verði konur. Ef það næst verður Noregur fyrsta landið í heiminum til þess. Af hverju skyldi þetta hafa gerst? Hver er ástæðan? Ólíkt hafast menn að.

Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, rifjaði það upp í ræðu sem hann hélt á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars sl., að ríkisstjórn hans hefði fyrir tveimur árum gert kröfur um kynjakvóta vegna starfa hjá hinu opinbera. Þær reglur voru settar og það hefur leitt til þess að hlutfallið hækkaði um 6% á tveimur árum og þeir gera sér góðar vonir um að ná markmiðum sínum um 40% eins og stefnt var að. Hér á landi sá ríkisstjórnin ekki ástæðu til að lyfta litla fingri.

[16:45]

Það er meira sem Norðmenn eru að gera. Þeir eru að búa sér til fleiri stjórnvaldstæki í þágu kvenna. Þeir vinna að því og eru komnir fram með breytingar á lögum sem snúa líka að einkarekstri, um að konur komist að í stjórnir hlutafélaga og víðar. Þar er auðvitað verk að vinna fyrir þá sem vilja fylgja þessu eftir.

Frumvarpið sjálft er tiltölulega einfalt. Í 1. gr. er lagt til að 4. og 5. mgr. 3. gr. falli brott. Reyndar verður 5. mgr. 3. gr. laganna að 6. mgr. nýrrar 4. gr.

Í 2. gr. er kveðið á um eftirlitsheimildir til handa Jafnréttisstofu undir fyrirsögninni Upplýsingaskylda:

,,Jafnréttisstofa getur krafið opinberar stofnanir, sveitarfélög, atvinnurekendur og félagasamtök um allar almennar og sértækar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna hennar.``

Í núgildandi lögum er þessum heimildum ekki þannig varið. Eina heimildin sem Jafnréttisstofa hefur er í 4. mgr. 3. gr. sem segir, með leyfi forseta:

,,Opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum er skylt að veita Jafnréttisstofu hvers konar almennar upplýsingar.``

Hér er lagt til að upplýsingarnar verði sértækar og það verði tryggt að Jafnréttisstofu verði veittar bæði lagatæknilegar og fjárhagslegar forsendur til að sinna eftirlitsstörfum sínum. Það er líka gert ráð fyrir því að Jafnréttisstofa geti krafist þess að fá gögn afhent til athugunar og enn fremur að Jafnréttisstofa geti lagt þá skyldu á þá aðila sem um getur í 1. mgr. að upplýsa stofuna reglulega um atriði sem skipta máli við framkvæmd laganna.

Þetta er þýðingarmikið. Þá er hægt að skoða hvað er að gerast í launamálum fyrirtækisins og kalla svo eftir úrbótum og kalla eftir því að grein verði gerð fyrir þessum úrbótum á hálfs eða eins árs fresti. Gert er ráð fyrir því að Jafnréttisstofa geti farið á starfsstöðvar fyrirtækja þegar brýna nauðsyn ber til og ástæða er til að ætla að brotið hafi verið gegn lögunum.

Síðan verður 5. mgr. 3. gr. 6. mgr.

Í 3. gr. frv. er kærunefnd jafnréttismála gefin heimild til að leita til Jafnréttisstofu um gagnaöflun vegna meðferðar kærumála.

Gildistími laganna er 1. janúar 2005.

Frumvarpið veitir Jafnréttisstofu heimildir til að ganga úr skugga um það með rannsókn og gagnaöflun hvort réttindum og skyldum skv. III. kafla jafnréttislaganna sé fullnægt og að bannákvæðum IV. kafla þeirra sé framfylgt. Þetta getur Jafnréttisstofa gert að eigin frumkvæði, að mótteknum kvörtunum eða í kjölfar kæru til kærunefndar jafnréttismála.

Ég ætla að segja það hér og það kemur líka fram í greinargerð með frv. að það er samið í anda þeirra heimilda sem Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirliti, Heilbrigðiseftirliti, Vinnumálastofnun og fjölda annarra eftirlitsstofnana í landinu eru veittar. Ég vísa til greinargerða frv. að þeim lögum um þessar heimildir. Ég hef sagt það og segi enn: Ef hægt er að hafa eftirlit með þessum hætti með peningum og viðskiptum er þá tiltökumál að hafa eftirlit með því að ekki séu brotin mannréttindi og stjórnarskrá gagnvart konum? Er það tiltökumál?

Það gefur augaleið að Jafnréttisstofa verður að gæta laga um persónuvernd þegar hún skoðar mál en Jafnréttisstofu er, alveg eins og Samkeppnisstofnun, skattayfirvöldum og öðrum, í lófa lagið að gæta þess að misfara ekki með persónuupplýsingar. Sama gildir auðvitað um haldlagningu og leit. Það hefur ekki vafist fyrir samkeppnisyfirvöldum að stunda þessa starfsemi, þau hafa í undantekningartilvikum farið inn í fyrirtæki út frá rökstuddum grun og nægir þar að nefna heimsóknir til olíufélaganna sem sýndu að sá rökstuddi grunur var á rökum reistur.

Auðvitað á Jafnréttisstofa að halda uppi meira eftirliti en með launum, þ.e. sem sagt með III. og IV. kaflanum öllum. Gildistakan gerir það að verkum að fjárveitingavaldinu og félmrh. gefst ráðrúm til að hrinda þessum brýnu breytingum í framkvæmd og styrkja Jafnréttisstofu verulega.

Vilji menn kynna sér þær heimildir sem eru sambærilegar þessum get ég vísað til 39. gr. laga um samkeppnislög, nr. 8/1993. Ég get líka vísað til III. kafla laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þar vísa ég til 8. og 9. gr. kaflans.

Ég vil segja það að lokum að mannréttinda- og kvenfrelsishugsjónir eru hvorki eign einstaklinga né flokka. Maður styður mannréttindabaráttu, maður styður hugsjónir, maður fylgir þeim eftir en enginn á þær. Þetta mál á þess vegna auðvitað að vera hafið yfir alla flokkadrætti og sérhagsmuni og ég hvet alla þingmenn sem aðra til að veita frv. öflugt brautargengi og vona að sá stuðningur komi fram í umræðum hér á eftir.

Ég legg að endingu til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn. sem ég hygg að frv. heyri til.