Tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 13:39:00 (5395)

2004-03-17 13:39:00# 130. lþ. 85.91 fundur 411#B tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta# (aths. um störf þingsins), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég tel að meginsjónarmiðin hafi komið fram í þessu og hefur þegar verið skýrt af hæstv. forsrh. að í dag er verið að ræða fyrirspurnir og það er ekki skyldumæting eins og það hefur verið orðað. Þetta leiðir líka hugann að því, eins og þingmenn hafa orðið varir við, að verið er að boða þingmenn á alls konar ráðstefnur og fundi einmitt á föstudögum og eru boðin slík að það er eiginlega útilokað fyrir þingmenn að komast yfir það allt saman.

Það má líka vekja athygli á því að framkvæmdarvaldið hlýtur að geta boðað til ráðstefna og funda án þess að taka mið af störfum þingsins. Á þessum ráðstefnum er verið að fjalla um almenn mál sem eru ekkert einkamál þingsins. Hitt er svo annað mál hvort þingmenn eru látnir vita af þessu og boðið að sitja slíkar ráðstefnur og slíka fundi. Það hljóta þingmenn að gera upp við sig hver og einn. En þetta hlýtur að vekja okkur dálítið til umhugsunar um það hvernig þingmenn eiga að komast yfir að sitja allar þessar ráðstefnur og fundi, ég tala nú ekki um ef það hrúgast á þá daga sem ekki er þing. En það gerist nú ýmislegt utan þingsins hvort sem það er að störfum eða ekki.