Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:37:19 (5447)

2004-03-17 15:37:19# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Það er vissulega gott frumkvæði sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sýnir með því að óska eftir umræðum utan dagskrár um atvinnuleysi, þróun þess og kjör atvinnulausra. Málefni þetta hefur verið mér hugleikið síðan ég kom í ráðuneytið og raunar miklu lengur. Allir vita hversu slæmt atvinnuleysi er fyrir einstaklinga og fjölskyldur, fjárhagslega og félagslega. Atvinnuleysi er samfélagslegt böl sem ber að vinna gegn með ráðum og dáð og er það markmið mitt og ríkisstjórnarinnar.

Ég vil minna á að ríkisstjórnin og minn flokkur hafa látið málefni vinnumarkaðarins mjög til sín taka með setningu laga nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir, og 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Þau mörkuðu á sínum tíma mikil þáttaskil í þessum efnum. Með þeim var komið upp samræmdu vinnumarkaðskerfi um allt land. Þjónusta opinberu vinnumiðlunarinnar var bætt og samræmd. Áhersla var lögð á virkar aðgerðir fyrir atvinnulausa. Með virkum aðgerðum er átt við starfsleitaráætlanir og þátttöku í námskeiðum sem hafa það að markmiði að gefa hinum atvinnulausa tækifæri til að auka færni sína og starfsmöguleika. Með lögunum varð til sérstök stofnun, Vinnumálastofnun, sem hefur farið með framkvæmd laganna og fylgst náið með framvindunni á vinnumarkaðnum.

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að atvinnuleysi hefur verið nokkurt hér á landi undanfarin missiri. Það veldur áhyggjum. Á síðasta ári var atvinnuleysið að meðaltali um 3,3%. Áætlanir fjmrn. gera ráð fyrir 3,1% atvinnuleysi í ár og 2,7% á því næsta. Þó að atvinnuleysi sé á Íslandi með því minnsta sem gerist í OECD-ríkjunum og þessar tölur ekki háar í þeim samanburði er engu að síður ástæða til að vera á varðbergi og stuðla enn frekar að því að halda atvinnuleysi í skefjum. Það er ekki hægt að halda því fram að ríkisstjórnin hafi horft aðgerðalaus á þróunina. Ráðist hefur verið í mestu framkvæmdir Íslandssögunnar á Austurlandi. Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin að verja milljörðum kr. til að auka framkvæmdir og draga úr atvinnuleysi. Allt útlit er fyrir að gerðir verði samningar um stækkun álversins á Grundartanga. Leitað er leiða til að styrkja atvinnustarfsemi í einstökum byggðarlögum, skapa ný tækifæri og efla íslenskt samfélag. Hagvöxtur var um 2,5% á síðasta ári og áætlað að hann verði um 3% í ár. Þótt um nokkurt atvinnuleysi sé að ræða um þessar mundir má fullyrða að þegar á heildina er litið sé bjart fram undan hjá okkur Íslendingum.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum Vinnumálastofnunar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lét ekki getið var atvinnuleysi í febrúar sl. 3,6% en var 4,1% á sama tíma í fyrra. Vinnumálastofnun spáir áframhaldandi minnkun atvinnuleysis þegar litið er fram. Helstu úrræði sem svæðisvinnumiðlun í landinu hefur yfir að ráða eru að gefa hinum atvinnulausa kost á þátttöku í námskeiðum. Um er að ræða sjálfstyrkingar- og tölvunámskeið, menntasmiðjur af ýmsu tagi, starfsþjálfunarverkefni og starfsleitarnámskeið. Vinnumiðlun getur einnig veitt atvinnuleitanda námsstyrk til að sækja nám eða námskeið á eigin vegum. Þetta er þó háð ákveðnum skilyrðum, t.d. að hinn atvinnulausi hafi rétt til atvinnuleysisbóta og námið auki verulega líkur á því að hann komist í starf. Samtals höfðu í lok nóvember sl. 4.936 atvinnuleitendur tekið þátt í slíkum námskeiðum á árinu 2003. Þetta er umtalsverð fjölgun frá árinu 2002 en þá luku 2.217 atvinnuleitendur þátttöku í úrræðum svæðisvinnumiðlunar. Hér er um að ræða ríflega tvöföldun á milli ára.

Á síðasta ári var varið samtals 224 millj. kr. til slíkra úrræða fyrir atvinnuleitendur auk styrkja til sérstakra átaksverkefna úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Af þessum tölum, hæstv. forseti, sést að á vegum Vinnumálastofnunar hefur verið umfangsmikil starfsemi í þágu atvinnuleitenda.

Þessu til viðbótar hef ég gripið til ýmissa aðgerða. Í desember sl. var skipaður sérstakur starfshópur sem nýtur formennsku Hjálmars Árnasonar alþingismanns. Þessi hópur hefur það hlutverk að greina orsakir langtímaatvinnuleysis, sérstaklega ungs fólks, og setja af stað staðbundin verkefni sem eiga að treysta stöðu viðkomandi hópa á vinnumarkaði. Þótt lög um atvinnuleysistryggingar hafi verið endurskoðuð 1997 tel ég tímabært að staldra við og meta kerfið. Ég hef því ákveðið að skipa nefnd til að endurskoða lögin um atvinnuleysisbætur og vinnumarkaðsaðgerðir. Bréf hefur þegar verið sent tilnefningaraðilum og ég vænti þess að nefndin geti hafið störf um eða upp úr næstu mánaðamótum.

Það hefur mikið áunnist með breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Í ljósi ýmissa breytinga sem hafa átt sér stað í samfélagi okkar og nýbreytni ýmiss konar í þessum efnum í nágrannalöndunum er full þörf á því að meta þessi kerfi, skilvirkni þeirra og árangur.

Hæstv. forseti. Framlag ríkisstjórnarinnar í tengslum við nýgerða kjarasamninga er töluvert. Mér finnst ánægjulegt að standa að því nú að hækka atvinnuleysisbætur um 11,3% í tengslum við kjarasamningana, úr rúmum 79 þús. kr. á mánuði í tæp 89 þús. Fyrr á árinu hækkuðu bæturnar um 3% og samanlögð hækkun bótanna á þessu ári er því 14,6% sem er mesta hækkun bóta á einu ári í langan tíma, a.m.k. frá 1991 svo dæmi sé tekið. Kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs í ár er áætlaður vegna þessa breytinga 330 millj. kr. Er þá ógetið framlags í starfsmenntasjóði atvinnulífsins á samningstímabilinu sem ætlað er að verja 400 millj. kr. til.