Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 10:57:18 (5503)

2004-03-18 10:57:18# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[10:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. er annt um öryggi manna, það hefur komið fram. Hluti af öryggi manna er réttaröryggi. Hluti af réttarörygginu er að mál séu rannsökuð fljótt og vel og í þeim sé dæmt. Á þessu er iðulega stórfelldur misbrestur. Það gerist æ ofan í æ, eins og við heyrum í fréttum, að refsingar eru léttar eða felldar niður eða mál jafnvel ónýtast vegna þess að þau hafa verið allt of lengi í umfjöllun, annað hvort á rannsóknar- eða dómstigi.

Það tjáir því ekki fyrir hæstv. dómsmrh. eða stuðningsmenn hans í þessum sölum að láta eins og allt sé í himnalagi. Það er alveg gagnslaust í þessu tilviki að reyna að skjóta sendiboða hinna slæmu frétta, þ.e. dómstólaráð. Ég verð að segja að oft hef ég verið undrandi á geðvonskulegum viðbrögðum hæstv. ráðherra þegar einstakar stofnanir sem undir þá heyra reyna að leita réttar síns í þjóðfélaginu og vekja athygli á vandræðum sínum, en mér fannst taka steininn úr þegar hæstv. dómsmrh. hjólaði í dómstólaráð og dómstólana með þeim hætti sem hann gerði, með ónotum og mikilli ólund og lét meira að segja að því liggja í viðtali við Ríkisútvarpið í lok janúar að huga þyrfti að því hvort ekki ætti að leggja dómstólaráð niður. Hæstv. dómsmrh. gerði það í viðtali við Ríkisútvarpið 27. janúar sl. Þetta eru hin klassísku viðbrögð valdastjórnarmannanna sem þola ekki að undirmenn þeirra, stofnanir eða aðrir sem undir þá heyra, reyni að leita réttar síns, t.d. hjá Alþingi, þegar þeir eru ár eftir ár látnir búa við óviðunandi starfsaðstæður. Við vitum að mönnum hefur nánast verið hótað brottrekstri fyrir það eitt að ætla að ganga á fund fjárln. og kynna þar mál sín. Fyrrum undirmenn hæstv. dómsmrh., meðan hann var menntmrh., lentu í slíku.

Þetta er fyrir neðan allar hellur og ég tek undir það að skoða beri hvort ekki eigi að forða dómstólunum undan framkvæmdarvaldinu og koma þeim í skjól á Alþingi.