Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 11:39:30 (5517)

2004-03-18 11:39:30# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[11:39]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Þau frv. sem við ræðum og hæstv. iðnrh. hefur fylgt úr hlaði eru um margt mjög merkileg. Þau koma meðal annars að breytingu á raforkulögum sem við samþykktum í fyrra, lögum nr. 65/2003, þar sem má eiginlega segja að verið sé að fjalla um og hnýta enda sem ekki tókst að binda þá. Svo varð úr að hin svokallaða 19 manna nefnd færi í gegnum þau og er hún að skila af sér þessu frv. Svo er frv. um að stofna fyrirtæki sem á að heita Landsnet hf. og í þriðja lagi er frv. um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Það er rétt að taka fram, virðulegur forseti, strax í upphafi að markmiðsgrein þess frv., um jöfnun kostnaðar við dreifingu, er mér mjög að skapi þar sem segir m.a.: ,,Markmið laga þessara er að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda.`` --- Það er jafnaðarmannahugsjón, skulum við segja, sem kemur þarna fram og sem blandast inn í umræðu í gegnum tíðina á ýmsum þáttum. Við skulum halda okkur við raforkumálin, eins og ég gerði í stuttu andsvari áðan. Vegna þess hve mikið verðbilið hefur verið milli svæða eru inni í fjárlögum ríkisins 850 millj. kr. á þessu ári sem eru notaðar til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði en eru þó með þeim annmörkum að niðurgreiða eingöngu húshitunarkostnað sem verður til með rafmagni.

Fulltrúi okkar jafnaðarmanna í 19 manna nefnd var Svanfríður Jónasdóttir, fyrrv. alþingismaður. Hún skrifar undir álit 19 manna nefndar, með nokkrum fyrirvörum þó sem eru sérstaklega gagnvart óútkljáðum málum. Og ég vil, virðulegi forseti, strax í byrjun ítreka þá fyrirvara sem fulltrúi okkar setur inn í álit 19 manna nefndar og gera þá að mínum. Þeir snúa sem sagt að þessum óútkljáðu málum sem eru í frv. og snúa að ávöxtun og arðsemi, hvort arðsemin verður 3% eða 6% og á hve mörgum árum. Þessi fyrirvari snýst m.a. um eigendur að Landsnetinu, eins og hæstv. iðnrh. lýsti, hvernig það er hugsað. Fyrirvararnir eru líka um matið á verðgildi flutningsmannvirkjanna, hvernig þessar margafskrifuðu eignir ríkisins eða ríkisfyrirtækja, Landsvirkjunar, Rariks eða hvað þau nú öll heita, eru metnar og hvaða verð verður sett á þessar flutningslínur þegar þær verða teknar inn í hið nýja fyrirtæki, Landsnet hf.

Það eru mörg atriði sem rétt er að hafa í huga og ráða mjög miklu um niðurstöðu í þessu máli, hvort ekki verði sátt á Alþingi og á Íslandi milli svæða um það frv. sem hér er verið að leggja fram. Það er með öðrum orðum, virðulegi forseti, rétt að hafa í huga að margar af þeim háspennulínum, flutningslínum, sem eru vítt og breitt um landið og hafa verið byggðar upp af ríkisfyrirtækjum, og vafalaust oft fyrir bein framlög ríkissjóðs á fjárlögum, hafa verið afskrifaðar á 30--40 árum núna. Við sjáum línur sem eru miklu eldri en 30 eða 40 ára. Að sama skapi vitum við um önnur raforkuvirki, eins og spenna og annað slíkt, sem ber að afskrifa á miklu styttri tíma.

[11:45]

Ég vildi, virðulegi forseti, koma aðeins inn á þetta vegna þess að það er mjög mikilvægt atriði í málinu hvernig matinu reiðir af, hvaða mat verður sett á flutningslínurnar, hver ávöxtunin verður o.s.frv. Það má með öðrum orðum segja að notendur hafi náttúrlega hag af því að arðsemin verði lág en ekki það lág að fyrirtækin geti ekki byggt upp fé til að standa að lagfæringum, endurbótum og uppbyggingu. Það kemur svo aftur frá öðrum aðilum, fulltrúum úr atvinnulífinu, fulltrúum úr bankakerfinu og öðrum sem telja vafalaust að arðsemin, ávöxtunin, þurfi að vera hærri, kannski upp undir því hámarki sem hefur verið nefnt í umræðunni. Það er ekki endilega þar með sagt að það sé hagur þessara ,,eigenda`` sem munu eiga flutningsmannvirkin. Þarna gildir, eins og svo oft áður, að finna hið gullna jafnvægi þannig að allir megi vel við una. Það má með öðrum orðum segja að jafnaðarmennskan muni vera leiðarljós í verkinu.

Inn í þetta blandast líka, virðulegi forseti, sú hagræðing sem getur átt sér stað á komandi árum í orkudreifingarfyrirtækjunum sem getur auðvitað, ef hún eykst mikið, lækkað arðsemiskröfuna vegna þess að í fyrirtækjunum séu hugsanlega hagræðingarmöguleikar, eins og ég sagði áðan, sem geta leitt til þess að þetta verði, vegna þess að hér er það vissulega mjög vel sett niður hvaða gögn og kostnað orkufyrirtækin geta lagt fyrir Orkustofnun til að meta kostnaðinn sem má lesta á, ef svo má að orði komast, kostnaðinn við dreifinguna.

Þegar frumvörpin eru rædd öll í einu er rétt að fara yfir stærsta málið og nokkrar greinar frv. um breytingu á raforkulögum frá því í fyrra. Í 1. gr. er t.d. skilgreint hver stórnotandi er, sem er held ég mjög til bóta. Í 2. gr. er talað um hvað raforkuver megi minnst vera, undir 1 mW, sem eru margar heimavirkjanir, smávirkjanir. Það er mál sem ég ætla ekki að gera að umræðuefni hér en mun gera í iðnn. þar sem ég á sæti, um hvernig smávirkjanirnar leggja orku í dreifikerfið og þann rekstrargrunn sem smávirkjanirnar munu hafa eftir að lögin verða öll tekin í gildi. Ég veit til þess, virðulegi forseti, að smávirkjanabændur sem eiga smávirkjanir og eru að selja inn á netið hafa verið að kvarta yfir því að nú sé gengið þannig fram að verið sé að krefjast mikils afsláttar frá því sem upphaflega var ætlað í sölu á raforku frá þeim. Það breytir mjög rekstrarskilyrðum smáveitnanna vegna þess að það er kannski stutt síðan þeir voru með rekstrarplön sín með allt öðru verði. Ég ætla ekki að fara nánar í það núna, en mun óska eftir því að það verði skoðað sérstaklega í iðnn.

Síðan er talað um hlutafélag í 4. gr., Landsnet hf., og hverjir þar leggja inn og gefinn möguleiki á því að þeir sem eiga línur í dag geti lagt þær inn sem verðgildi hlutafjár, leigt þær, eða ekki, eða selt þær. Þeir þurfi ekki endilega að vera hluthafar en auðvitað væri æskilegt að allt þetta legðist inn.

Í 5. gr. er fjallað um upplýsingar sem þarna eiga að vera og má eiginlega segja að í greininni sé gengið dálítið lengra en maður hefur átt að venjast hingað til með upplýsingagjöf frá hlutafélagi. Þarna verða eftirlitsaðilar eins og Orkustofnun, Samkeppnisstofnun og notendur sem selja og kaupa. Ég vil aðeins stoppa við þetta, og mun kannski koma betur að síðar undir frv. um Landsnet, og spyrja hæstv. iðnrh. út í upplýsingagjöfina þarna. Við alþingismenn höfum orðið varir við að erfitt er á hinu háa Alþingi að fá fram upplýsingar í þinginu frá fyrirtækjum sem eru háeffuð. Nægir að nefna Landssímann og Íslandspóst þar sem við getum ekki fengið upplýsingar vegna þess að þau er orðin hlutafélög. Það er auðvitað mjög bagalegt þó það snúi kannski að öðrum lögum og hefur verið fjallað um á hinu háa Alþingi að alþingismenn skuli ekki eiga kost á því að fá upplýsingar frá ráðherrum viðkomandi málaflokks um fyrirtæki eins og og Landsnet hf., sem eru fullkomlega í eigu ríkisins til að byrja með. Til að segja það strax, og hef ég þá komið því á framfæri, er ég mjög efins um að í stjórn Landsnets eigi eingöngu að vera þrír menn sem ráðherra fær til að sitja í stjórn apparatsins, ef svo má að orði komast.

Ég mundi vilja, og hef þá kastað fram þeirri hugmynd, að við skoðuðum að stjórn Landsnets hf. verði stærri og ég held að við eigum líka að freista þess að fulltrúar allra flokka á Alþingi eigi fulltrúa þar inni með bráðabirgðaákvæði í svo og svo mörg ár meðan þetta barn er að slíta barnsskónum og ganga sín fyrstu skref. Ég held að það væri freistandi að hafa það þannig að allir flokkar ættu þar fulltrúa, það þurfa ekkert endilega að vera þingmenn, til að auðvelda þessi fyrstu skref í sátt og samlyndi allra landsmanna. Hef ég þá komið því á framfæri undir þessum lið.

Í 7. gr. frv. er talað um tekjumörkin sem Orkustofnun mun krefjast og fara eftir. Það má skjóta því að að eftir því sem mér skilst erum við síðasta Evrópulandið til að taka inn tilskipunina og ætla ég ekki að blanda mér í deilur um hvort það var nauðsynlegt eða ekki, en það má eiginlega segja að það sé kostur að vera síðust vegna þess að menn hafa getað lært af reynslu annarra. Hér er dálítið miðað við reynslu Norðmanna og sett upp lagaákvæði um það hvernig Orkustofnun skuli fylgjast með og fá tekjumörkin vegna kostnaðar við flutninga á raforku, haga eftirliti með því.

Inni í greininni er einn af þeim fyrirvörum sem ég gat um áðan sem fulltrúi okkar jafnaðarmanna hafði inni, sem er 2. mgr., um arðsemina.

Ég hef áður spurt út í hluta af 7. gr. og vil ítreka það sem ég sagði áðan að þau orkufyrirtæki sem taka hærri spennu til sín og þurfa sannarlega að standa í kostnaði við að spenna niður eiga að mínu mati að fá afslátt til þess. Ég hygg að ákvæðið ætti líka að verða til þess að auðvelda það sem ég held að hafi verið stormur í vatnsglasi þegar nefndin var að skila af sér um einhverja stórkostlega hækkun á höfuðborgarsvæðinu til að greiða niður til landsbyggðarbúa. Ég held að þetta sé liður í því að auðveldara verði að skapa sem mesta sátt um þá aðferð sem við erum að fara í, það verkefni jafnaðar sem við sjáum í frumvörpunum.

Þetta er mikilvægt atriði, og eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra er kannski ekki komið inn hver talan ætti að vera en væntanlega kemur það fram í iðnn. að það þurfi að fara betur yfir þessi atriði.

Í 12. gr. eru fimm ný ákvæði til bráðabirgða og má segja sem svo að það séu þeir fyrirvarar sem fulltrúi okkar, Svanfríður Jónasdóttir, setti við málið, þ.e. í IX., Arðsemi flutningsfyrirtækis og dreifiveitna, í X., Stofnun flutningsfyrirtækis og XI., Mat á verðmæti flutningsvirkja, sem eru mikil atriði.

Ég fagna því líka að í frv. er komið endurskoðunarákvæði um að ráðherra skipi nefnd sem falin skal endurskoðun laga þessara. Endurskoðuninni skal lokið fyrir 31. desember 2010. Hvort 2010 er rétta árið eða 2008 ætla ég ekkert að segja til um en fagna þessu endurskoðunarákvæði.

Eins er í frv. takmörkun á heimild til framsals hlutafjár í flutningsfyrirtæki til 2011 og þá einungis heimilt að framselja hlutafé sitt til annarra hlutafjáreigenda í fyrirtækinu en ekki til aðila utan þess. Ég vil taka skýrt fram að það er svo á hendi Alþingis, ef mönnum sýnist svo, að framlengja frestinn ef þannig ber undir, en ég sé ekki alveg fyrir mér að Landsnet hf. fari á almennan markað og hver og einn geti keypt þar. Öðru gegnir kannski um, sem er kastað hér fram sem hugmynd og ekki frá mér heldur hefur hún oft komið fram í umræðunni, hvort lífeyrissjóðir okkar Íslendinga eiga að eiga í fyrirtækinu eftir x mörg ár. Ég ætla ekki að tjá mig um það hér og nú.

Ég held, virðulegi forseti, að ég hafi farið að mestu yfir frv. sem er um breytingu á raforkulögunum. Ég ætla ekki að fara í allt of mikla efnislega umræðu um það hér vegna þess að ég sit í iðnn. og hlakka mikið til að fara í gegnum málið þar.

Sný ég mér þá aðeins að frv. um Landsnet. Þó að ég hafi sagt þar allt sem ég vildi segja um þriggja manna stjórnina, hvort hún ætti ekki að vera stærri, vil ég líka segja að við, þingflokkur Samf., vorum á fundi í gær þar sem verið var að kynna fyrir okkur niðurstöður sem fulltrúar atvinnulífsins voru með, og ég kann nú ekki að nefna nákvæmlega hvað hétu, þar sem fjallað var um leiðbeiningar til stjórna fyrirtækja um hvernig þær skuli koma öðruvísi fram og uppfylla ýmis skilyrði sem gefur þeim betri viðskiptavild eða betri almannahylli. Þær tillögur geta átt við um það ríkisfyrirtæki sem hér er verið að stofna, Landsnet, þ.e. að óháðir aðilar séu jafnvel í stjórn og annað. Þetta er í raun og veru enn einn rökstuðningur fyrir því að stjórnin sé stærri og fleiri komi að henni, eins og ég sagði áðan, og má yfirleitt hugsa sér, þó það sé náttúrlega tiltölulega erfitt að finna þann aðila, að fulltrúi almennings eða fulltrúi neytenda ætti setu í stjórninni. Ég hygg að með þeirri hugmynd sem ég kastaði fram að þingflokkar á Alþingi ættu þarna aðila yrði það gulltryggt að menn mundu fara aðeins betur í gegnum þetta, en óneitanlega komu þarna fram athyglisverðar tillögur.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan um upplýsingaskyldu fyrirtækisins til Alþingis. Ég harma það ef það verður svoleiðis og óttast það að við þetta verði okkur alþingismönnum gert ókleift að fá upplýsingar um fyrirtækið.

Kem ég þá, virðulegi forseti, að síðasta frv., sem er um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Markmið allra laganna, eins og hefur komið fram, er að fara í þessa kerfisbreytingu og einkum koma á markaðskerfi fyrir orkuvinnslu og setja upp orkuverð á landinu sem er óháð búsetu kaupendanna. Í 1. gr. kemur fram, eins og ég gat um í upphafi máls míns, að markmið laganna er að stuðla að jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku til almennra notenda, sama hvar þeir búa á landinu. Þetta er hið göfuga markmið.

Ég stoppa hins vegar við 3. gr. og vil biðja hæstv. iðnrh. að punkta það hjá sér og ræða aðeins betur um hana í seinni ræðu sinni. Þar er fjallað um að ,,ef ákveðið er í fjárlögum að ráðstafa fé til að lækka kostnað almennra notenda vegna dreifingar raforku um dreifbýlið ...``, sem hefur komið fram að gæti numið allt að 250 millj. kr. til að jafna orkuverð dreifbýlisins gagnvart hæstu gjaldskrá í þéttbýli. Það er varðandi þetta ,,ef`` í byrjun 3. gr.

Mig langar að heyra, vegna þess að það er auðvitað ákveðin skýring og leiðbeiningar til iðnn. í leiðinni um hvað hæstv. ríkisstjórn hugsar í þessum efnum, hvers vegna þetta ,,ef`` er sett þarna inn. Er þetta eitthvert almennt ,,ef`` og vegna fjárlaga á komandi árum geti enginn sagt til um það? Í mínum huga er það algjört skilyrði fyrir því að sátt náist um frumvörpin að sá peningur sem þarf til að greiða niður raforkuverð í dreifbýli, til sveitabæja og annarra, komi beint úr ríkissjóði, að þessar 250 millj. kr. verði ekki teknar þannig að það verði lagt á alla aðra orkukaupendur. Þetta er grundvallaratriði í mínum huga og þess vegna vil ég stoppa við þetta ,,ef`` sem er í upphafi 3. gr. laganna. Ég bið hæstv. ráðherra að leyfa okkur að heyra skýringar hennar betur á því. Ég tók eftir að þær komu örlítið fram í örstuttu andsvari við hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur rétt áðan, en ég hefði viljað fá betri skýringu á því hvað þarna er átt við. Ég ítreka það sem ég segi að það er algert skilyrði í mínum huga til að reyna að skapa sem mesta sátt um þetta að þeir fjármunir komi úr ríkissjóði.

Hæstv. forseti. Ég hef farið á algeru hundavaði yfir þessi þrjú frv. sem hér eru lögð fram en ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst þetta mjög spennandi mál og legg áherslu á að það er mikið atriði að um það skapist sem mest sátt. Eins og ég sagði áðan á ég sæti í hv. iðnn. og ég enda orð mín á því að segja að ég hlakka mikið til að fá að vinna frv., fá til okkar umsagnaraðila, fá umsagnir og klára að vinna frv. sem verður vonandi að lögum áður en þing fer heim í vor.