Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 12:42:45 (5526)

2004-03-18 12:42:45# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[12:42]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætli við vitum betur hvernig rafmagn verður til þegar búið er að einkavæða bæði raforkuvinnsluna og raforkukerfið. Nú er þetta gagnsætt þannig að Landsvirkjun, Rarik og Orkuveita Reykjavíkur eru allt opinber fyrirtæki sem lúta reikningsskilum og endurskoðun. Ríkisendurskoðun endurskoðar Landsvirkjun og Rarik þannig að þar er það gagnsætt. Ég sé ekkert standa í vegi fyrir því að eitt mætti styðja annað.

Það er bara grundvallarmunur á sjónarmiðum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Framsfl. um að standa vörð um almannaþjónustuna. Framsfl. með hæstv. iðnrh. í broddi fylkingar vill einkavæða almannaþjónustuna, vill einkavæða raforkukerfið, vill einkavæða flutningskerfið. Það á að fara opinberlega á markað 2011, þá á það að vera orðið hæft til að fara á opinberan markað, þ.e. arðsemiskrafan á að vera orðin það há. Þarna greinir okkur mjög alvarlega á.

Ég held, virðulegi forseti, að kjósendur Framsfl. greini líka á. Ég er ekki viss um að kjósendur Framsfl. styðji þessa stefnu hæstv. iðnrh. í einkavæðingu rafmagnsins, ég dreg það stórlega í efa.

Virðulegi forseti. Það er hollt að vitna hér í lokin til orkumálastjóra Kaliforníu sem var hér á ferð í ágúst sl. En í Kaliforníu voru miklar truflanir á raforku.

Hann segir, með leyfi forseta:

,,Hryðjuverk eru alþjóðlegt vandamál. Nýlegt rafmagnsleysi var ekki af völdum hryðjuverkamanna. Það þurfti ekki hryðjuverkamenn til að finna út hvernig ætti að loka fyrir rafmagnið til 50 milljóna manna. Við vorum einfær um það með vanrækslu og trassaskap fólks á hinum frjálsa markaði sem trúði því að markaðurinn leysi allan vanda. Stjórnvöld eiga að bera ábyrgð á rafmagninu.``

Það var reynsla orkumálastjóra Kaliforníu og hví skyldi það þá ekki vera okkar líka að gera það?