Raforkulög

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 16:26:13 (5546)

2004-03-18 16:26:13# 130. lþ. 86.1 fundur 740. mál: #A raforkulög# (flutningur raforku, gjaldskrár o.fl.) frv., 737. mál: #A Landsnet hf.# frv., 747. mál: #A jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Sjónarmið hv. þm. hafa skýrst við þetta svar. Ég skil það þannig að hann sé ekki andvígur því að veitufyrirtæki greiði arð og gert sé ráð fyrir því við ákvörðun gjaldskrár fyrir þá vöru sem fyrirtækið selur að það þurfi að hafa hagnað af starfseminni sem eigandinn taki til sín sem arð. Ágreiningur liggur þá í því að arðurinn eigi að að renna til samfélagslegra verkefna en ekki fjárfesta sem eru ekki í opinberri starfsemi. Gott og vel.

Mig langar samt aðeins að halda áfram með þetta. Orkuveita Reykjavíkur og fyrirtækin sem áður stóðu að henni, þ.e. voru sjálfstæð áður en það fyrirtæki varð til, hafa ekki bara greitt arð til borgarinnar sem síðan hefur verið notaður til verkefna þar heldur hafa þau fyrirtæki ráðstafað tekjum sínum að einhverju leyti til fjárfestinga sem ekki falla undir almenna, opinbera starfsemi, heldur miklu fremur undir atvinnuþróun eða nýsköpun. Hér var nefnd risarækja, heyrði ég áðan. Það er eitt dæmið.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að setja fram sjónarmið um það. En telur þingmaðurinn eðlilegt að fyrirtæki eins og þetta hagi gjaldskrá sinni þannig að það eigi afgang af rekstri til að borga umtalsverðan arð til eiganda síns og einnig afgang til að standa undir fjárfestingarstarfsemi í atvinnugreinum algjörlega óskyldum starfsemi stofnunarinnar?