Erfðafjárskattur

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 17:52:40 (5557)

2004-03-18 17:52:40# 130. lþ. 86.7 fundur 435. mál: #A erfðafjárskattur# (heildarlög) frv. 14/2004, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[17:52]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil að mestu leyti taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Hann gerði ágætlega grein fyrir fyrirvara mínum við frv. hvað lýtur að brottfalli heimilda til handa ráðherra til að undanþiggja líknarfélög og öryrkja sem búa við sérstakar aðstæður erfðafjárskatti.

Að öðru leyti vil ég skýra frá því að við 1. umr. um málið hafði ég talsverðar efasemdir um það. Í fyrsta lagi byggðust þær á því að ég tel vafasamt að rýra tekjur ríkissjóðs með skattalækkunum sem síðan leiða til niðurskurðar á sviðum sem ég vil varðveita, eins og dæmin sanna, við þurfum ekki annað en að horfa til Landspítala -- háskólasjúkrahúss, og að sjálfsögðu skiptir máli þegar tekjur ríkissjóðs eru rýrðar um 300--400 milljónir, eins og áætlað var samkvæmt frv. eins það upphaflega kom fram.

Í öðru lagi hef ég sagt að mér finnist erfðafjárskattur í rauninni ekki vera ósanngjarn skattur. Ef litið er á skattheimtu almennt finnst mér ekki ósanngjarnt að skattleggja eignir sem erfast og það er rangt að mínum dómi þegar talað er um að þar sé um tvísköttun að ræða. Það sem gerist er að eign færist úr hendi eins í hönd annars og þá er ekki óeðlilegt að þar komi til skattlagning. Síðan eru að sjálfsögðu ýmsar hliðar á þessu, um hve nákomna ættingja er að ræða, börn o.s.frv.

Nema nú er komin fram brtt. sem lýtur að því að lækka skatthlutfallið enn. Gert var ráð fyrir tveimur skattþrepum í frv. eins og það lá upphaflega fyrir, 5% og 10%, en nú er lagt til að það verði flöt skattprósenta, 5%

Hvernig stendur þá á því að ég er kominn inn á þessar breytingar, með fyrirvara þó? Jú, það er vegna þess að í brtt. efh.- og viðskn. er einnig gert ráð fyrir því að eignir skuli nú metnar á markaðsvirði, jafnt hlutabréf sem aðrar eignir. Hlutabréf voru metin á nafnvirði en ekki markaðsvirði og sérfróðir menn ætla að þessi kerfisbreyting ein geti hugsanlega vegið upp á móti því tapi sem ríkissjóður ella hefði orðið fyrir við að færa 10% skatthlutfallið niður í 5%. Þetta er mat sérfræðinga, þó að það sé að sjálfsögðu byggt á getgátum.

Mér finnst þetta vera mjög góð breyting og einnig er það vissulega til góðs að einfalda kerfið, að einfalda þessar skattgreiðslur. Þótt það hefði ekki verið mín forgangsröð við skattkerfisbreytingar að ráðast í lækkun á erfðafjárskatti, ég hefði gert aðra hluti ef ég hefði ráðið för, varð niðurstaðan engu að síður sú eftir umræðu í þingflokki okkar, og erum við öll þar á einu máli um að þegar á heildina er litið sé frv. með þessum breytingum orðið ásættanlegt og munum við styðja það en áskiljum okkur að sjálfsögðu rétt til að flytja brtt. í þá veru sem við höfum gert grein fyrir.